133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

myndatökur fyrir vegabréf.

123. mál
[15:05]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að með lagagjörningnum fyrr á þessu ári, um myndatökur fyrir vegabréf, hafi verið gerð mistök við lagasetningu. Þau liggja í því að þarna var óvarlega farið, það að myndatökur fyrir vegabréf séu almennt framkvæmdar með þessum hætti kippir fótunum undan atvinnugrein eins og hér hefur verið nefnt. Það er að sjálfsögðu allt of harkalega og óvarlega fram gengið og hefur haft mjög alvarlegar og vondar afleiðingar fyrir fjölda atvinnuljósmyndara. Þetta er aðför að stétt þeirra, aðför að hagsmunum þeirra og starfsemi. Jafnframt er aðstaðan til myndatöku á mörgum umsóknarstaðanna fullkomlega afleit, hún er algerlega fráleit og ekki boðleg til að standa undir þessu. Þetta voru mistök og ég skora á hæstv. dómsmálaráðherra að endurskoða þennan lagagerning í ljósi þeirrar reynslu sem nú þegar er komin upp á síðustu mánuðum og er ekki mjög góð.