133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

myndatökur fyrir vegabréf.

123. mál
[15:06]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég minnist þessa máls frá því í vor. Ég hef ekki þann heiður eða hafði ekki og hef ekki enn að sitja í þeirri nefnd sem um það fjallaði á sínum tíma en ég hafði áhuga á því með ýmsum hætti og spurðist fyrir um málið. Ég man ekki betur en að í umræðunum hér hafi hæstv. dómsmálaráðherra lýst því að um þetta mál hafi verið fjallað fram og aftur í samráði við alla þá sem hugsanlegt var að hafa samráð við, m.a. ljósmyndara, og hann nefndi hér áðan að Samtök iðnaðarins, ef ég skildi hann rétt, hefðu einnig verið með í ráðum.

Var þetta, forseti, ofsagt hjá ráðherranum þegar hann stendur núna uppi með dómsmál á hendur sér vegna brots á iðnaðarlögum? Þá hefur dómsmálaráðherrann sagt okkur rangt frá hér í salnum og væntanlega allsherjarnefnd líka fyrst svo er orðið. Mér þykir þetta afar furðulegt.