133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

hlerun á símum alþingismanna.

230. mál
[15:17]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það hlýtur að stappa nærri pólitísku hneyksli að hæstv. dómsmálaráðherra skuli hlaupa í skjól fræðimanna og skirrast við að upplýsa hverjir voru beittir pólitískum njósnum fyrr á árum. Að sjálfsögðu er um að ræða brýna almannahagsmuni. Uppljóstað hefur verið að menn eins og Ragnar Arnalds og fleiri urðu fyrir pólitískum hlerunum á sínum tíma, pólitískum njósnum á þeim forsendum og engum öðrum. Það er mjög dapurlegt og mjög varhugavert að hæstv. dómsmálaráðherra skuli ekki svara þeirri fyrirspurn sem hér kemur fram og ljóstra þar með upp hvernig þessum málum var háttað. Í því felst engin einkalífsvernd. Að sjálfsögðu ekki. Það voru grófar pólitískar njósnir um þessa alþingismenn af hálfu íslenskra stjórnvalda og að sjálfsögðu á að upplýsa um það fullkomlega, gera hreint fyrir þeim dyrum og ljúka þessu leiðinlega og dapurlega máli í eitt skipti fyrir öll með því að gera þær upplýsingar opinberar.