133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

merking varðskipa.

237. mál
[15:30]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég held að það sem skipti mestu máli í þessari umræðu sé að búið er að gera endurbætur á þessu ágæta varðskipi og við skulum þakka fyrir það sem vel er gert. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur staðið vel að málefnum Landhelgisgæslunnar og lögreglunnar eins og fram hefur komið á fjölmörgum sviðum.

Ég vil hins vegar þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir að vekja athygli á þessu máli. Það skiptir máli að við höldum vöku okkar gagnvart íslenskri tungu. Það er vel að þessi merking hafi verið afmáð af síðum skipsins en við þurfum að halda vöku okkar hvað þetta varðar. Það getur svo sem verið áhorfsmál hvort merkja eigi varðskipin á ensku einnig en það hlýtur að vera grundvallaratriði að varðskip okkar séu merkt á íslensku.