133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

námsframboð í loðdýrarækt.

241. mál
[18:38]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil svara því þannig að ég álít að Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri sé skylt að verða við því kalli, eins og ég fór yfir í svörum mínum við fyrirspurnum hv. þingmanns. En ég mun auðvitað fylgjast með því og tel það afar mikilvægt í þessari búgrein eins og í öðrum að fagmennskan sé í fyrirrúmi.

Við getum hugsað til fortíðarinnar ef loðdýrabændum og okkur öllum hefði auðnast að vinna eins og þeir loðdýrabændur sem lifðu hremmingarnar af, þetta öfluga fólk sem nú er í frekar góðum málum að það segir sjálft og kemur alls staðar fram og er farið að skapa gjaldeyri. Ætli það skili ekki gjaldeyri fyrir nokkur hundruð milljónir? Það gæti orðið enn þá stærri liður síðar. Við getum hugsað okkur að ef við hefðum farið í þessa grein frá upphafi af þeirri fagmennsku sem nú hefur verið unnið á síðustu árum, en þegar farið var af stað með loðdýrarækt upphaflega átti hún að leysa alla aðra erfiðleika á landsbyggðinni og var byggð upp með þeim hætti of hratt.

Þess vegna er óskaplega mikilvægt hve greinin heldur vel utan um sín mál, og er með góða ráðunautaþjónustu við Bændasamtökin. Ég vil segja fyrir mig að ég hef átt einstakt samstarf við þetta fólk og dáist að því mikla gæðastarfi sem það hefur lagt á sig og hversu vel menn hafa unnið saman í greininni. Menn læra hver af öðrum og fylgja eftir nýjum leiðum, sem eru að skila þessum gríðarlega árangri og gerir það að verkum að Landbúnaðarháskólinn þarf nú að undirbúa sig til að veita frekari menntun, eins og hér hefur komið fram, og ekki síður hitt að greinin getur sannarlega hvatt duglegt, vel menntað fólk til þess að hefja þessa atvinnugrein (Forseti hringir.) sem er gjaldeyrisskapandi og getur gefið gott í aðra hönd eins og (Forseti hringir.) síðustu árin sýna.