133. löggjafarþing — 28. fundur,  15. nóv. 2006.

fæðingarorlof.

323. mál
[18:41]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björn Ingi Hrafnsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég ber hér upp fyrirspurn til félagsmálaráðherra um málefni fæðingarorlofs og get þess í inngangi að síðan lögin um fæðingarorlof tóku gildi að frumkvæði fyrrverandi félagsmálaráðherra Páls Péturssonar á sínum tíma, þá held ég að flestir geti verið sammála um að það hafi orðið mikil breyting til batnaðar að því er varðar jafnréttisbaráttuna. Eitt af meginmarkmiðum þeirra laga á sínum tíma var að jafna hlut kynjanna er varðar fæðingarorlof vegna barna.

Nú þegar komin er á fimm til sex ára reynsla af þessum lögum þá hefur þess orðið vart í umræðunni að menn hafa verið að velta fyrir sér hvað taki við. Hvernig ber að þróa þetta kerfi sem er orðið í rauninni nokkurs konar fyrirmynd um hið fullkomna fæðingarorlofskerfi víðar? Við höfum heyrt að á Norðurlöndunum er talsverð umræða um íslenska módelið og það hefur orðið umfjöllunarefni víða um heim.

Þess vegna held ég að það sé ekki óvarlegt að ætla að á næstunni verði sú umræða sterkari en ella hvaða breytingar eigi að gera á kerfinu til batnaðar. Hvernig megi þróa það áfram nú þegar komin er nokkur reynsla á fyrirkomulag þess.

Eitt af því jákvæða sem hefur verið gert síðan lögin tóku gildi er sú staðreynd að karlar hafa nýtt sér fæðingarorlofið í miklu ríkari mæli en jafnvel bjartsýnustu spár gerðu ráð fyrir. Það þýðir auðvitað tvennt. Það þýðir í fyrsta lagi að kostnaðurinn við fæðingarorlofið hefur reynst meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. En það er jákvætt að því leytinu til að það hefur orðið útgjaldaauki, einfaldlega vegna þess að feður hafa í auknum mæli litið á þetta sem sjálfsagðan hlut, þ.e. að nýta orlofið til þess að vera með börnum sínum og held ég að það sé í rauninni ákveðin þjóðfélagsbylting sem hefur farið lágt og mætti ræða frekar um.

Fyrirspurnin hljóðar þannig, í fyrsta lagi:

Hver er skoðun ráðherra á hugmyndum um lengingu fæðingarorlofs foreldra upp í tólf mánuði, sem margir telja að sé næsta skref í þessum efnum?

Í öðru lagi: Hafa kostir þess og gallar að lengja fæðingarorlof verið kannaðir af hálfu ráðuneytisins?

Og í þriðja lagi: Hvernig telur ráðherra unnt að bregðast við vanda foreldra barna á aldrinum 9–18 mánaða, þ.e. frá því fæðingarorlofi lýkur og þar til börn komast á leikskóla?

Þetta bil hefur orðið mjög til umræðu á síðustu mánuðum, m.a. á vettvangi fjölskyldunefndar ríkisstjórnarinnar. Mörg sveitarfélög hafa það nú á stefnuskrá sinni að borga svokallaðar fjölskyldugreiðslur og stefna jafnframt á uppbyggingu leikskóla allt niður í 12 mánaða aldur. Og spurningin er hvort í framtíðinni verði staðreyndin sú að bilið verði brúað með fæðingarorlofi til 12 mánaða og vistun á leikskólum frá því að því lýkur.