133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:45]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil ekki draga fjöður yfir það að margt hefði mátt betur fara í Írak. Auðvitað óar mig við þeim gríðarlega fjölda sem hefur misst lífið þar, eins og aðra. Ég bendi á að það eru hryðjuverkamenn sem stærsta ábyrgð bera á falli óbreyttra borgara en ekki hernámsþjóðirnar. Ég get greint frá því hér, sem ég hef reyndar gert áður opinberlega, að ég átti fund með utanríkisráðherra Íraks þegar ég var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og mér lék mikil forvitni á að vita hvernig hann metur ástandið. Hann leynir því vissulega ekki að ástandið er alvarlegt og mikill órói er í landinu en hann er alls ekki vonlaus um að það takist að koma á friði þar. Hann telur ekki að náðst hafi að skapa varanlegt hatur á milli trúarhópa til framtíðar og hann benti á ýmislegt sem sannfærði mig um að Írak eigi von. Þarna hafa farið fram kosningar og fólkið vill lýðræði en það eru vissulega miklar skærur. Ég held því fram að það séu fyrst og fremst hryðjuverkamenn sem bera þar ábyrgð.

Talað er um að mikilvægt væri að afturkalla stuðning Íslands. Margir hv. þingmenn hafa nefnt það. Ég held því fram að ef við mundum gera það væri það ekki í samræmi við ákvæði ályktunar Sameinuðu þjóðanna, 1546, sem gefur alþjóðaheraflanum skýrt umboð til að aðstoða íröksk stjórnvöld við að koma á öryggi. (Forseti hringir.) Við verðum að hugsa til framtíðar, það skiptir langmestu máli.