133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:21]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni fyrir andsvar hans. Ég vildi fyrst nefna að það er rétt að ekki fer öll útrásin í gegnum sendiráðin en við skulum samt ekki draga úr mikilvægi þeirra í þeim þætti. Ég held að viðskiptadeildir sendiráðanna og viðskiptahlið ráðuneytisins skili þar allmiklu starfi, það hefur maður fengið á tilfinninguna af viðræðum við aðila vinnumarkaðarins og þá sem staðið hafa í þessum málum.

Þegar hv. þingmaður talar um sendiherra í kippum vil ég geta þess að í tíð þess utanríkisráðherra sem lengst hefur gegnt því embætti í tíð þessarar ríkisstjórnar var þróunin alls ekki á þann veg. Ég held einmitt að hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, hafi gert þetta með frekar gegnsæjum hætti og þróunin hafi verið eðlileg og í raun og veru frekar hæg.

Ég hef heldur ekki orðið vör við það á þeim mánuðum sem núverandi hæstv. utanríkisráðherra hefur verið í ráðuneytinu að menn hafi ráðið þar sendiherra í kippum. Hv. þingmaður verður því að eiga þessa spurningu við annan stjórnmálaflokk.