133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:25]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur að það er mikilvægt að líta til þeirra umræðna og vinnu sem unnin hefur verið á vettvangi þingsins. Ég get vottað um að umrædd þingsályktunartillaga er einmitt af hinu góða. Ég trúi ekki öðru en að það starf sem fram fer innan utanríkisráðuneytisins muni einmitt líta til þeirra umræðna og vinnu sem unnin hefur verið á vettvangi þingsins. Ég treysti hæstv. utanríkisráðherra best til að líta til þess, enda var hún mjög lengi þingmaður og hefur alltaf gert þætti þingsins hátt undir höfði hvað slík mál varðar.

Þó að mikilvægt sé að endurskoða lögin, enda eru þau orðin 25 ára gömul, tek ég undir að það hlýtur að vera aðalatriðið og megintilgangur vinnunnar að setja okkur markmið og hvað það er sem við viljum fá út úr þróunarsamvinnunni. Þróunarsamvinnan hefur auðvitað breyst og breyst mjög hratt á undanförnum árum. Verkefnin sem Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur farið í hafa líka breyst og þær áherslur sem þar hafa verið uppi.

Ég tel mjög mikilvægt að við ræðum hvert við stefnum í þeim efnum og hvort við séum ekki alltaf að nýta krafta okkar og úrræði á sem bestan hátt. Samvinna okkar við önnur Norðurlönd og aðrar stofnanir á þessu sviði er líka mikilvæg. Við Íslendingar þurfum að velta fyrir okkur hvar við getum mest lagt af mörkum og hvar getum við byggt á styrkleikum okkar sem er, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, m.a. á sviði velferðarmála, fiskveiðistjórnar og sjávarútvegsmála.

Mér finnst mjög spennandi að fá að taka þátt í þeirri vinnu sem fram undan er og ber miklar væntingar til hennar.