133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:29]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir gera of lítið úr áhrifum þingsins. Það er rétt og satt hjá hv. þingmanni að það er ekki langt síðan ég tók hér sæti en það má segja að alla vega á þessu kjörtímabili hafi ég starfað á hliðarlínunni og þá sem aðstoðarmaður þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Jóns Kristjánssonar.

Ég get vottað það að þó að menn finni örugglega einhvern mun á ráðuneytum og ráðherrum þá lagði þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra sig fram um að eiga samráð við þingið og þingflokkana og stjórnmálaflokkana vegna þess að það er oftast þannig að menn komast að betri niðurstöðu við samráð og samræður þó að menn séu ekki alltaf efnislega sammála. Stundum þarf að taka pólitískar ákvarðanir sem ekki allir eru sáttir við en oftast verða ákvarðanir betri við umræður og samræður. Mér finnst of lítið gert úr áhrifum þingsins ef við höldum því ekki til haga hér.