133. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2006.

samningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Tollabandalags Suður-Afríkuríkja.

351. mál
[17:28]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Tollabandalags Suður-Afríkuríkja, SACU, sem undirritaður var síðastliðið sumar.

Þetta er er fyrsti fríverslunarsamningurinn sem EFTA-ríkin gera við aðra viðskiptablokk og jafnframt fyrsti samningur slíkrar tegundar sem gerður er við ríki í Afríku, sunnan Sahara. Þetta er enn fremur í fyrsta skipti sem ríki sem telst til fátækustu ríkja heims verður aðili að fríverslunarsamningi við EFTA- ríkin, en Lesótó telst til slíkra ríkja.

Í samningnum er tekið tillit til mismunandi þróunarstigs samningsríkjanna. EFTA-ríkin munu lækka og fella niður tolla af sínum vörum hraðar en aðildarríki SACU og samningurinn inniheldur ákvæði um sértæka meðferð í ýmsu tilliti fyrir Botsvana, Lesótó, Namibíu og Svasíland, auk ákvæða um efnahagslega samvinnu og tækniaðstoð. Auk fyrrgreindra ríkja er Suður-Afríka einnig aðili að SACU.

Samningurinn nær til viðskipta með iðnaðarvörur, þar með talið sjávarafurðir, og unnar landbúnaðarvörur. Ísland, Noregur og Sviss hafa jafnframt undirritað tvíhliða samninga við aðildarríki SACU sem munu öðlast gildi á sama tíma og fríverslunarsamningurinn. Samningsaðilar munu enn fremur leitast við að skapa og viðhalda stöðugu og gagnsæju umhverfi fyrir fjárfestingar og hafa lagt grunn að auknu frelsi á sviði þjónustuviðskipta og opinberra útboða.

Ákvæði um vernd hugverkaréttinda eru byggð á gildandi alþjóðasamningum og verða tekin til endurskoðunar innan fimm ára. Samningurinn inniheldur að auki reglur um hvernig bregðast eigi við viðskiptaháttum sem vinna gegn virkri samkeppni, stofnanaákvæði og ákvæði um samráð og lausn ágreiningsmála.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umr. og utanríkismálanefndar.