133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

rannsókn sakamála.

[15:33]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get ekki heyrt annað en að hæstv. dómsmálaráðherra sé enn að reyna að koma sér hjá því að svara beinum fyrirspurnum sem til hans er beint, beinum ásökunum frá háttsettum yfirmanni í lögreglunni sem segir hreinlega að réttarríkið mismuni fólki við rannsókn og meðferð mála.

Ef þær ásakanir sem bornar hafa verið fram af þessum háttvirta lögreglumanni eru réttar er einhvers staðar brotalöm í kerfinu sem verður að taka á. Af greininni sem lögreglumaðurinn ritaði verður ekki ráðið hvort brotalömin sé hjá ákæruvaldinu eða hjá lögreglu eða dómstólunum sem líklegast verður að telja þegar til þess er litið hvaða ásakanir komu fram.

Ég held að hæstv. ráðherrann verði að tala skýrar í þessu máli en hann gerir vegna þess að er um að ræða alvarlegar ásakanir um að á þessu þurfi að taka, ekki bara frá háttsettum lögreglumanni heldur líka frá fyrrverandi (Forseti hringir.) dómsmálaráðherra.