133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Landsvirkjun.

364. mál
[20:36]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar ríkisstjórnin undirritaði með fjármálaráðherra, borgarstjóranum í Reykjavík og bæjarstjóranum á Akureyri viljayfirlýsinguna um að íslenska ríkið leysti til sín eignarhluta Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun sagði ríkisstjórnin í yfirlýsingu sinni að hún gerði ráð fyrir að fyrirtækin yrðu sameinuð í eitt, Landsvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða. Því fyrirtæki yrði breytt í hlutafélag, þó eigi fyrr en á árinu 2008, og með hlutafélagavæðingunni væru sköpuð skilyrði fyrir aðkomu nýrra fjárfesta að fyrirtækinu. Þetta lá fyrir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í upphafi síðasta árs. Það er ekkert skrýtið þó að við séum að reyna að ræða þetta á þessum grunni núna þó svo að ríkisstjórnin reyni að flýja í skjól með þessi fyrirtæki, Rarik og Orkubú Vestfjarða, sem einhver dótturfyrirtæki og láti að því liggja að hér sé ekki verið að sameina.

Þetta var markmið ríkisstjórnarinnar þegar viljayfirlýsingin var undirrituð og við höfum ekki fengið (Forseti hringir.) haldbæra skýringu á því að þeirri yfirlýsingu hafi verið breytt.