133. löggjafarþing — 30. fundur,  20. nóv. 2006.

Orkustofnun.

367. mál
[22:14]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að fá skýrari mynd af því sem fram kemur í 4. gr. Þar stendur:

„Þó skulu allar rannsóknaniðurstöður og gagnasöfn sem unnin hafa verið á vatnamælingum Orkustofnunar og fyrir almannafé áfram tilheyra Orkustofnun og vera eign stofnunarinnar.“

Þýðir þetta að Íslenskar orkurannsóknir hafi ekki aðgang til nýtingar á þessum gögnum? Þýðir þetta aðskilnað þessara gagna?

Síðan langar mig að gera athugasemd við orðalagið í inngangi að athugasemdum við lagafrumvarpið. Ég verð að segja að minn skilningur á íslensku máli er með þeim hætti að mér fannst bókstaflega, þegar hæstv. ráðherra las þetta fyrir okkur og þegar ég las þetta sjálfur, að það hlyti að vera munur á starfsemi vatnamælinga Orkustofnunar og vatnafarsrannsóknum hins opinbera. Lái mér hver sem vill. En úr því að búið er að upplýsa að þarna eigi menn við sömu hlutina þá held ég að það hefði verið ástæða til þess að menn orðuðu þetta skýrar en þarna er. Orðin „hins vegar“ eru notuð tvisvar sinnum sem verður til þess að misskilningur hlýtur að koma upp þegar menn lesa þetta.

Ég vildi koma þessari athugasemd á framfæri. Að öðru leyti finnst mér hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hafa spurt um öll þau atriði sem þarna skipta mestu máli. En auðvitað fáum við að fjalla um þetta í nefndinni.