133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

þróun í fjarskiptaþjónustu eftir einkavæðingu Símans.

[13:53]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Eitt af yfirlýstum markmiðum stjórnvalda með einkavæðingu og sölu Símans var að lækka notendagjöld og hækka þjónustustig, samkeppnin mundi leysa fjarskiptamálin. Landssíminn var alveg fram að einkavæðingu með ein lægstu notendagjöld miðað við nágrannalöndin. Viðbragðsflýti starfsmanna Símans vítt og breitt um landið vegna viðgerða eða þess að taka inn nýtt símainntak var viðbrugðið. Síminn hafði þjónustustöðvar víða um land sem brugðust fljótt við og skópu öryggi. Þetta hefur breyst.

(Forseti (JóhS): Forseti óskar eftir að ró komist á í salnum.)

Starfsstöðvum Símans hefur verið lokað, t.d. á Blönduósi, Sauðárkróki, Siglufirði — um allt land hefur starfsstöðvum Símans verið lokað. Fólk þarf að bíða vikum saman eftir að fá nýtt inntak fyrir síma. Vissulega hefur tæknin orðið flóknari en þjónustan er þeim mun mikilvægari.

„Ég sótti um síma um mánaðamótin júní/júlí og hélt í barnaskap mínum að síma fengi ég innan mánaðar því mér var tjáð að sunnan að það tæki um viku að fá taug inn. Nei, aldeilis ekki, og nú er 3. október og ég er ekki enn tengdur,“ segir í bréfi til mín frá einum notanda á Snæfellsnesi.

Ný skýrsla um samanburð á farsímamörkuðum á Norðurlöndum sýnir að fram til ársins 2002 voru þau einna lægst á Íslandi en frá þeim tíma hafa þau hækkað um allt að 40% á fjórum árum meðan þau hafa lækkað um 50–60% annars staðar á Norðurlöndunum. Nú eru þau langhæst hér af öllum þessum löndum. Niðurstaða skýrsluhöfunda er sú að markaðurinn á Íslandi einkennist af fákeppni þar sem tvö símafyrirtæki skipta markaðnum á milli sín. Er þetta þróunin sem einkavæðing Símans átti að færa okkur?

Fjarskiptaáætlun var kynnt vorið 2005, þ.e. fyrir rúmu ári, og bundu landsmenn við hana miklar vonir. Þar stendur m.a. að allir sem þess óska hafi aðgang að háhraðaneti árið 2007. Er það svo? Verður það svo? Hvernig hafa staðist markmið um öflugt háhraðanet í grunn- og framhaldsskólum landsins sem átti að vera komið á árið 2006?

Nú er í gangi undirskriftasöfnun á vegum Snerpu á Ísafirði þar sem krafist er jafnréttis í aðgengi að fjarskiptaþjónustu, bæði í verði og gæðum, en þar er þjónustan seld á miklu hærra verði en tilsvarandi þjónusta á höfuðborgarsvæðinu. Snerpa mótmælir því og krefst þess að Síminn veiti þá þjónustu sem við borgum fyrir og dragi til baka þá ákvörðun að skipta landinu upp í misstór gjaldsvæði í skjóli einokunar.

Ég hef því leyft mér, frú forseti, að beina fyrirspurnum til hæstv. samgönguráðherra:

Hver hefur verið þróun á grunngjöldum og almennu verði síma- og fjarskiptaþjónustu hér á landi í samanburði við nágrannalöndin, t.d. sl. átta ár? Hvernig hyggst ráðherra tryggja jafnræði í verði, gæðum og þjónustu í síma- og gagnaflutningsþjónustu hér á landi óháð búsetu?

Einnig eru niðurstöður nýrrar skýrslu um samkeppni og fjarskiptaeftirlit á norrænum farsímamörkuðum sem ég vitnaði til áðan í samræmi við væntingar í kjölfar einkavæðingar á sölu Símans — fjórföld hækkun á farsímagjöldum.

Hvernig hyggst ráðherra bregðast við þeirri gífurlegu verðhækkun sem sú skýrsla leiðir í ljós að hér hafi orðið? Mun ráðherra beita sér fyrir nákvæmri úttekt á því hvernig þróun fjarskiptamála hefur orðið í raun á síðustu 4–5 árum miðað við þær væntingar sem við höfðum? Við fáum mótmæli og ábendingar um lélega þjónustu hvaðanæva að af landinu. Væntingar fólks um að fá betri fjarskiptaþjónustu eru miklar, enda er einn grunnur þess að við getum haldið hér uppi samkeppnishæfri búsetu um allt land einmitt fjarskiptin.

Ég óska eftir að hæstv. ráðherra svari þeim spurningum sem ég hef hér lagt fram, frú forseti.