133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[14:38]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort þetta var sem kallað er á enskri tungu „Freudian slip“ að hæstv. fjármálaráðherra nefndi sjálfur hugtakið „einbeittan brotavilja“. Það var ekki ég sem nefndi það. Það var hæstv. fjármálaráðherra sem notaði þau orð, væntanlega til að lýsa þeirri háttsemi sem hann er hér uppvís að. Það er hugsanlegt að það megi samt sem áður kalla þetta því nafni sem hæstv. ráðherra gaf því, einbeittur brotavilji.

Þegar horft er til þess að það segir beinlínis í þeirri samþykkt sem efnahags- og viðskiptanefnd gerði og lagði fyrir þingið og það samþykkti fyrir tveimur árum, að einungis ætti að framlengja gjaldið um tvö ár og leita síðan annarra leiða. Í hverju gæti þá hinn einbeitti brotavilji falist? Jú, þeirri staðreynd að ekki var hafist handa við að framkvæma vilja þingsins um að leita nýrra leiða fyrr en núna nýlega.

Hæstv. ráðherra segir frá því að sett hafi verið á stofn nefnd til að gera það fyrir skömmu, þegar hartnær tvö ár eru liðin frá því að þingið gerði samþykkt um að slíkt skyldi gert. Hugsanlega telst það einbeittur brotavilji hjá hæstv. ríkisstjórn að hafa með þessum hætti smokrað fram af sér þeirri kvöð að leggjast í þá vinnu.

Hæstv. ráðherra kvaðst ekki hafa upplýsingar um hvað þetta verk ætti að kosta miðað við hina upphaflegu áætlun. Það hefur aldrei komið fram. En það er hins vegar hægt að reikna það út, miðað við hið upphaflega frumvarp, sem lagði til að gjaldið ætti einungis að vara í fjögur ár, þ.e. að það væri líklegt eða menn teldu að það kostaði 650 millj.

Það kemur fram í fylgiskjali fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu að kostnaðurinn er kominn upp í 2,4 milljarða. Þetta er fjórföld hækkun frá því sem upphaflega var stefnt að. Maður spyr því: Hvað er hér á ferðinni?