133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[15:19]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ásta Möller kemur hér fram með ákaflega mikilvægar upplýsingar. Hún greinir frá því að fyrir skömmu hafi hún verið á ráðstefnu þar sem forsvarsmenn fyrirtækisins sem um ræðir, Landskrár fasteigna, upplýstu hversu mikið væri eftir af verkinu. Það kom fram í máli þingmannsins að á ráðstefnunni hefði því verið haldið fram af forstöðumönnum verksins að 93% væri lokið, eftir væru 7%.

Þá spyr ég eftirfarandi spurningar: Hvernig má það vera, ef einungis er eftir að vinna 7% verksins, að til þess þurfi að verja fjórðungi heildarupphæðarinnar sem fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofunnar að verkið muni kosta miðað við þau verklok sem þar eru gefin upp? Mér er það með öllu óskiljanlegt. Ég hlýt að varpa þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort hún telji þá ekki eðlilegt að í meðferð efnahags- og viðskiptanefndar verði kallað á forustumenn ríkisstofnunarinnar og þeir krafnir skýringa á því hvers vegna allt þetta fé þurfi til.

Í annan stað langar mig til að spyrja þennan árvökula þingmann hvort henni finnist það ekki undarlegt að í öllu þessi bixi kemur hvergi fram hversu mikið af þessu umsýslugjaldi rennur til reksturs landskrárinnar og hversu mikið fer beinlínis í stofnkostnað. Mér finnst það óeðlilegt. Ég vil fá að sjá greiningu á því en hún liggur einfaldlega ekki fyrir.

Í þriðja lagi spyr ég hv. þingmann hvort hún sé þeirrar skoðunar að hér sé einungis um að ræða tímabundið gjald og hvort það muni falla niður og þá, eftir atvikum, ef hún telur að þetta sé tímabundið gjald, hver eigi að greiða kostnaðinn af því að starfrækja síðan landskrána.