133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[15:24]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ærleg svör af hennar hálfu, ég gat ekki búist við því að hún svaraði ýmsum spurningum mínum gleggra en hún gerði.

Hins vegar langar mig til þess að spyrja hana hvort hún sé ekki sammála mér um það að þetta verkefni sé dæmi um stjórnlausa útþenslu ríkisins. Þarna leggja menn af stað með verk sem var umdeilanlegt í upphafi að mínu viti, en okkur kann að greina á um það. Hitt er alveg ljóst að það vex og bólgnar með ótrúlegum hætti, verður margfalt dýrara en að var stefnt og það er ekkert sem bendir til þess að verkinu sé að ljúka, menn hafa talið það árum saman. Er þetta þess vegna ekki, frú forseti, dæmi um verkefni á vegum ríkisins sem í fyrsta lagi hefði betur verið komið annars staðar og í öðru lagi virðist vaxa stjórnlaust?