133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skráning og mat fasteigna.

350. mál
[15:26]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég held að allir þeir þingmenn sem talað hafa í dag séu sammála um að það verkefni sem frumvarpið varðar er aðfinnsluvert að því leyti til að það hefur vaxið stjórnlaust. Ég hef velt því upp í umræðunni hvort ekki eigi að láta nótt sem nemur og setja punkt aftan við verkið, þessa gjaldtöku.

Þá hef ég vísað til þess að í umræðum áður, á fyrri þingum, hefur komið í ljós alveg einlægur vilji þingmanna Sjálfstæðisflokksins til að hætta slíkri skattheimtu. Því það er ekkert annað en skattheimta sem hér er á ferðinni.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur á ágætan hátt mótmælt því að hægt væri að ljúka því verki núna og ég hef tekið undir þá skoðun. Það er ekki hægt, eins og hv. þingmaður orðaði það, að stíga af þessum hesti í miðri á, hvað þá að söðla yfir á annan.

En ég reifaði þá hugmynd áðan hvort ekki væri gerlegt að þingmenn sammæltust um að láta nefndina, sem hæstv. fjármálaráðherra hefur loksins og vonum seinna sett á stofn og á að leita annarra leiða varðandi tekjur fyrir þetta verkefni, ljúka sínu verki áður en menn taka endanlega ákvörðun um hvort eigi að halda áfram þessu umsýslugjaldi. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar hefur sagt að við þurfum að ljúka fjárlögum og því sé það tæknilega mjög erfitt.

En er það svo, frú forseti? Ég spyr hæstv. ráðherra og eftir atvikum formann efnahags- og viðskiptanefndar, sem á eftir að stýra þessu máli í gegnum nefndina: Er ekki mögulegt að menn sammælist um að framlengja umsýslugjaldinu, t.d. til þriggja, fjögurra mánaða en að þeim tíma loknum taka þá til skoðunar þær tillögur sem frá nefnd hæstv. ráðherra koma og skoða hvort þar séu ekki einhverjar leiðir sem séu betur færar en þessar? Ég spyr þessa tvo hv. þingmenn og hæstv. ráðherra: Hvað mælir því í gegn að sú leið sé farin? Þá er í reynd verið að setja sólarlagsákvæði varðandi umsýslugjaldið og setja þrýsting á nefndina um að skila verki sínu. Ég held að þetta sé leið sem við ættum að skoða.

Sömuleiðis vil ég að það komi alveg skýrt fram af minni hálfu að ég tel að ekkert gruggugt sé á ferðinni hvað varðar meðferð fjármuna í þessu máli nema síður væri. Ég ber fullt traust til heiðarleika allra þeirra sem að málinu koma. Við höfum hins vegar ákveðin tæki í stjórnsýslunni til að kanna hvort rétt sé að verkefnum staðið. Stjórnsýsluúttektum Ríkisendurskoðunar hefur verið beitt til að veita ríkisstofnunum aðhald og til að finna veikleika og læra af þeim.

Það er hugmynd mín og tillaga að gerður verði reki að því að Ríkisendurskoðun taki fyrir stjórnsýsluúttekt á umræddu verki alveg frá upphafi. Menn þurfa þá að skoða hvernig til þess var stofnað. Hvaða áætlanir menn gerðu og á hvern hátt þeim hefur verið framfylgt. Það heitir að veita ríkinu aðhald. Það er hlutverk okkar. Ef einhverjir ættu að þekkja og taka undir það þá eru það þeir hv. þingmenn sem sitja hér í hliðarherbergi og hlýða á mál mitt, þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Því það eru fyrst og fremst þeir sem hafa talað um nauðsyn þess að veita ríkinu aðhald. Þess þá heldur þegar menn eru sammála því sem hv. þm. Ásta Möller kallaði lögmál hérna áðan, að verkefni á vegum ríkisins hlytu að vaxa og bólgna út. Þess þá heldur þegar árum saman hafa legið fyrir vísbendingar um að þetta verk er að vaxa stjórnlaust. Það er enginn sem sér fyrir endann á því og enginn veit hvað það kostar.

Ég er alveg sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal að undirstaða nútímakapítalisma og nútímamarkaðsbúskapar er einmitt skráning fasteigna, sem eru andlag veðhæfni og eru í raun skilgreining eignar. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, að þetta stendur þróun markaðsbúskapar fyrir þrifum í ýmsum vanþróaðri ríkjum heimsins. Við þekkjum það frá Afríku þar sem menn geta ekki fengið lán til að reyna að hrinda í framkvæmd ýmsum hugmyndum sem þeir fá, góðum viðskiptahugmyndum, af því að þeir geta ekki skilgreint það land sem þeir telja sig eiga. Þar er enginn opinber aðili sem getur gert það fyrir þá. Að því leytinu til er þetta alveg hárrétt hjá hv. þingmanni og fín hugmynd hjá honum, að svona óskaplega fín kerfi gætu verið framlag okkar til þess að stuðla að þróun markaðsbúskapar í sumum þessara ríkja. En mig langar til að spyrja hv. þingmann. Var eitthvað að hinum íslenska kapítalisma fyrir daga þessa kerfis? Að sjálfsögðu ekki, nei.

Með þessu er ég ekki að halda því fram að kerfið sem hér er verið að byggja sé vont eða slæmt. En ég er hins vegar að segja að markaðsbúskapurinn þróaðist á ákaflega eðlilegan hátt áður en þetta kerfi kom til og hefði gert það með nákvæmlega sama hætti þótt menn hefðu ekki kastað hérna 3 milljörðum í þetta. Ég ætla ekki að fara út í grunsemdir mínar um af hverju menn réðust í þetta verkefni. En ég held að það hafi ekki verið gert með hagsmuni íslensks kapítalisma fyrir augum, miklu frekar einhverra annarra hagsmuna.

Það þýðir ekki tæknilega séð að það kerfi sem búið er að verja til bráðum 2,5 milljörðum af fjármunum íslenskra skattborgara, sé ekki vel úr garði gert. En það er hugsanlegt eins og fram hefur komið að það sé allt of vel úr garði gert og þarna sé verið að búa út lúxuskerfi sem við þurfum ekkert á að halda. Ég veit það ekki. Vegna þess að á engu stigi málsins hafa komið fram nægilega vel skilgreindar upplýsingar um hvað þetta gengur út á né heldur hvað veldur þeim mikla kostnaði sem hefur nú þegar stafað af verkinu.

Mér þótti það býsna merkilegt sem hv. þm. Ásta Möller sagði áðan. Hún rifjaði það upp að fyrir nákvæmlega einni viku hefði hún setið ráðstefnu þar sem forsvarsmenn áðurnefnds fyrirtækis upplýstu ráðstefnuna um að nú væri bara eftir 7% af því verki sem menn ætluðu sér að vinna. Þá hlýtur óhjákvæmilega að vakna eftirfarandi spurning. Ef 7% af verkinu eru eftir, hvernig í ósköpunum stendur þá á því að til þeirra 7% þarf að verja sem, samkvæmt upplýsingum frá fjárlagaskrifstofu ráðuneytisins sem liggja fyrir í fylgiskjali með frumvarpinu, kostar fjórðunginn af þeirri heildartölu sem þar kemur fram að verkið muni kosta? Þetta er mjög skrýtin spurning og ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á þessu?

Hæstv. ráðherra sagði í upphafi að verkið hefði orðið dýrara en menn gerðu ráð fyrir vegna þess að misvísandi upplýsingar hafi verið í hinni gömlu fasteignaskrá annars vegar og hins vegar í þinglýsingarskrá hinna ýmsu embætta. Það er alveg rétt. Það hefur komið fram. En hins vegar er hægt að meta það hversu miklu skeikar þarna. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að í upphafi gerðu menn ráð fyrir að misvísunin sem þarna væri á ferðinni milli þessara tveggja tegunda skráa væri 10%. Reyndin hafi verið sú hins vegar að þarna hafi skeikað 15–33%. Hægt er að taka meðaltal af því og þá losar það rösklega 20%. Með öðrum orðum, það sem skeikar frá hinni upphaflegu áætlun er samkvæmt því um 100%, þ.e. að hin upphaflega misvísun er tvöfalt meiri en menn gerðu ráð fyrir í upphafi. Samkvæmt því mætti ætla að kostnaðurinn yrði tvöfalt meiri. Með öðrum orðum, kostnaðurinn yrði þá 1.300 milljónir miðað við hina upphaflegu áætlun sem hægt var að draga út á sínum tíma í umræðum í þinginu.

Hins vegar kemur í ljós, miðað við þær upplýsingar sem fylgja í skjalinu frá fjármálaráðuneytinu, að heildarkostnaðurinn er ekki 1.300 milljónir heldur að minnsta kosti 2.450. Þá spyr maður: Hvernig í ósköpunum á þá að skýra mun upp á hartnær 1.200 milljónir? Hvað veldur honum? Hæstv. ráðherra þarf að skýra það fyrir okkur til að við getum með eðlilegum hætti staðið að samþykkt frumvarpsins. Ekki er hægt að koma hingað og ætlast til þess að þingheimur samþykki áframhaldi tímabundins skatts án þess að vita af hverju framhaldið stafar. Hvers vegna þurfum við að gera þetta?

Hv. þm. Pétur H. Blöndal lýsti miklum efasemdum við samþykkt þessa máls fyrir tveimur árum, að réttlætanlegt væri að gera þetta. Hv. þingmaður átti þá frumkvæðið að því, ef ég man rétt, með öðrum félaga okkar, hv. þm. Ögmundi Jónassyni og líklega fleiri þingmönnum úr efnahags- og viðskiptanefnd, að þessum skatti yrði einungis haldið áfram í tvö ár. Hv. þingmaður lýsti því þá í ræðu, ef mitt roskna minni brestur ekki, að hann sæi að minnsta kosti þrjár aðrar leiðir til að mæta þeim kostnaði. Ég hlýt að spyrja hv. þingmann: Er hann þeirrar skoðunar enn þá að til séu aðrar leiðir?

Mér finnst merkilegt að þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, stuðningsmenn hæstv. fjármálaráðherra, sem ég er líka á minn hátt, skuli fallast á það með mér og öðrum þingmönnum stjórnarandstöðunnar, sem hafa gagnrýnt þetta, að málið sé aðfinnsluvert. Eða eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði, það hefur farið úr böndum. Og ef það er svo að mál er aðfinnsluvert og hefur farið úr böndum, ætla þingmenn þá bara að koma hingað eins og ekkert hafi í skorist og ýta á sinn græna hnapp og samþykkja slíka vitleysu áfram? Er það þannig sem menn vinna í Sjálfstæðisflokknum? Það er að minnsta kosti ekki þannig sem menn segja í Sambandi ungra sjálfstæðismanna, sem sumir þeirra ágætu manna eru aldir upp með tiltölulega þokkalegum hætti, að hlutirnir eigi að gerast. Samband ungra sjálfstæðismanna, þar sem hv. þm. Birgir Ármannsson, einn af talsmönnum Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum, hlaut sitt pólitíska uppeldi, hefur margsinnis varað menn við því að leyfa ríkinu að vaxa stjórnlaust í gegnum verkefni af þessum toga. Nú erum við hérna með mál sem í hnotskurn er allt það sem varast vann. Hvað ætla þá þessir ungu þingmenn Sjálfstæðisflokksins að gera? Ætla þeir bara að sitja og brosa og kíma og finnast þetta sniðugt?

Frú forseti. Sá brandari sem þessir ágætu þingmenn eru núna að brosa að, kostar skattgreiðendur 2,5 milljarða. Hann átti að kosta 600 milljónir í upphafi. Enginn þeirra getur komið hingað og svarað þeirri spurningu minni hvernig á því stóð að menn eyddu 1.800 milljónum umfram. Það er enginn sem getur svarað því. Ætlar hv. þm. Pétur H. Blöndal sem hér hefur verið árvökull aðgæslumaður skattborgara að koma hingað og segja: Ja, það er ekki hægt annað en að samþykkja þetta. Af því að það þarf að gera áður en árinu sleppir? Svona vinna menn ekki í dag. Menn hljóta að skoða þetta og læra að minnsta kosti af reynslunni.

En hæstv. fjármálaráðherra virðist ekkert læra af reynslunni vegna þess að þegar við þingmenn óskum eftir því að menn beiti þeim tækjum stjórnsýslunnar sem við höfum, þó ekki væri nema að læra af hugsanlegum mistökum, og köllum til Ríkisendurskoðun til að fara yfir verkferilinn, þá sér hann enga sérstaka ástæðu til þess. Hugsanlega ef hún sér eitthvað í yfirferð sinni yfir meðferð fjármuna.

Það er enginn að tala um að það hafi með óvönduðum eða óheiðarlegum hætti verið farið með fjármuni. Það sem menn eru hins vegar að tala um er að menn leggja út í ákveðið verkefni sem þeir hafa ekki hugmynd um hvað kostar og eru ekki einu sinni vissir um tilganginn í upphafi, jafnvel þó að hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem hefur skoðað þetta í krók og kring, segi að þetta sé rosalega fínt kerfi, eða eins og hv. þingmaður sagði, hugsanlega of gott.

Þetta finnst mér, frú forseti, vera mergurinn málsins. Þetta verk allt er dæmi um verkefni á vegum ríkisins sem hefur bólgnað stjórnlaust. Það er auðvitað í stíl við það að rekstur ríkisins hefur aldrei þanist út með jafnóhóflegum hraða og einmitt í tíð fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, ekki bara þessa, heldur líka þeirra sem á undan fóru, þ.e. frá því að fyrrverandi fjármálaráðherra, Friðrik Sophusson, kom sér í aðra bithaga. Þá urðu ákveðin kaflaskipti. Eftir það er mín tilfinning sú að hlutirnir hafi verið miklu losaralegri. Þetta er dæmi um það.

Frú forseti. Ég rifja það líka upp þegar við ræddum þetta fyrir nokkrum þingum og veltum fyrir okkur af hverju húseigendur einir séu látnir greiða þetta. Af hverju eru það ekki ýmsir aðrir aðilar málsins? Þá var m.a. talað um að húseigendur væru hvort eð er að borga skattana og ríkið þyrfti á þessu að halda, m.a. til að geta lagt á eignarskatta.

Jæja, frú forseti. Nú er búið að leggja af eignarskatta þannig að ekki er hægt að beita þeirri röksemd lengur. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í einu andsvari fyrr í dag að ef menn væru að velta því fyrir sér hvar ætti að bera niður varðandi greiðendur, þá væri hægt að skoða hina nýju nefnd ráðuneytisins og samsetningu hennar og draga af því ályktun. Það er alveg hárrétt hjá honum. Fram kemur að þar situr t.d. fulltrúi tryggingafélaganna. Einnig hefur komið fram í umræðunni að lánastofnanir hafa mikinn hag af umræddri skrá. Þá spyr maður hæstv. fjármálaráðherra: Er þá ekki eðlilegt að tryggingafélögin greiði einhvern hluta af þessu? Og í öðru lagi, að lánastofnanir, sem hafa þennan mikla hag af þessu, komi líka að því að greiða kostnaðinn?

Ég vil að síðustu, frú forseti, spyrja hæstv. ráðherra eftirfarandi spurningar, ef hann mætti vera að því að hlýða á mál mitt, frú forseti: Hversu stór hluti af því umsýslugjaldi sem við erum að ræða um fer til stofnkostnaðar og hversu stór hluti fer til rekstrar? Þetta er algjört lykilatriði að við vitum þegar við erum að samþykkja hugsanlega framlengingu á gjaldinu. Það tíðkast ekki bara í rekstri fyrirtækja heldur í öllum reikningsskilum ríkisins að fram komi, þegar menn eru í svona verki, hvað reksturinn er stór hluti af þessu og hvað er stofnkostnaður mikill hluti? Það hefur ekki nokkur maður getað dregið það upp úr hinu opinbera. En það eru algjör lykilatriði. Það hlýtur að þurfa að koma fram.

Í annan stað vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær gerir hann ráð fyrir að þessu gjaldi ljúki? Í mínum huga er þetta ekkert annað en skattheimta. Ég tel að þarna sé ríkið með laumulegum hætti að verða sér úti um fé sem er hægt að skilgreina á annan hátt en sem skatt. Það getur hæstv. ráðherra notað m.a. til að lækka formlega skattheimtu sem framkvæmd er á annan máta. En jafnan var talað um þetta og skilgreint af hálfu ríkisins sem tímabundið gjald og því hefur verið framlengt aftur og aftur. Og því spyr ég: Hvenær telur hæstv. ráðherra að þessu sleppi?

Af því að hæstv. ráðherra sagði áðan að það væri ekki rétt að af hálfu ráðuneytisins hefði verið seint í rass gripið með að leita leiða til nýrrar og annarrar tekjuöflunar, sagði að það væri ekki rétt að slík vinna hefði ekki verið í gangi áður en nefndin var sett upp, þá langar mig að spyrja: Hvaða leiðir komu þá helst til álita? Eða voru hugsanlega engar hugmyndir eftir þá vinnu sem hæstv. ráðherra sagði að innt hefði verið af hendi í ráðuneytinu?

Að lokum spyr ég hæstv. ráðherra. Hvenær gerir hann ráð fyrir að sú nefnd sem hann setti á laggirnar nýlega ljúki störfum?