133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

359. mál
[16:37]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég nefndi í ræðu minni að Íslendingar hefðu sýnt mikið frumkvæði í að hita öll sín híbýli með mengunarlausri orku, þ.e. jarðvarma aðallega og að einhverju leyti með rafmagni. Ég held að það sé nánast ekkert húsnæði nema kannski einhverjir sumarbústaðir sem eru hitaðir upp með gasi og kol eru varla til lengur. Við höfum því sýnt mikið frumkvæði í þeim efnum.

Svo erum við að sýna mikið frumkvæði núna og það er eitthvað sem menn gleyma. Við erum að framleiða ál með mengunarlausri orku, raforku, sem er að keppa við ál úti í heimi sem að mestu leyti — ég held að það séu 80–90% — notar rafmagn sem framleitt er með kolum, olíu eða gasi. Á því sviði höfum við sýnt mjög mikið frumkvæði í að minnka koldíoxíðsmengun á jörðinni og alveg sérstaklega þegar það kemur í ljós núna, eins og upplýsingar hafa borist um, að við flytjum út meiri orku í formi áls en við flytjum inn af olíu og bensíni. Það þýðir að við erum eiginlega í þeim skilningi slétt gagnvart umheiminum. Ef við snúum þessu við má segja að öll orka sem við framleiðum sé jafnmikil og sú orka sem við notum á bíla og skip, þ.e. olíu og gas. Við erum því í rauninni að nota mengunarlausa orku að öllu leyti.

Ég hugsa að í framtíðinni, sérstaklega eftir að sú skýrsla barst sem við heyrðum um daginn um stöðu jarðar, að kröfur muni koma á Ísland um að virkja enn meira og nota enn meira þá mengunarlausu orku sem er að keppa við orku sem framleidd er með frumorkugjöfum sem valda mjög mikilli mengun.