133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

374. mál
[17:38]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Með frumvarpi þessu er lögð til viðbót við 36. gr. laganna sem fjallar um fjárfestingar lífeyrissjóða.

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 36. gr. laganna eru engar takmarkanir á því hversu stór hluti af eignasafni lífeyrissjóðs getur verið í skráðum ríkisskuldabréfum eða skuldabréfum sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs. Séu slík bréf óskráð er lífeyrissjóði hins vegar, skv. 3. mgr. 36. gr., óheimilt að fjárfesta fyrir meira en sem nemur 10% af hreinni eign sjóðsins í slíkum bréfum.

Samkvæmt orðalagi 36. gr. laganna snýr ákvæðið í heild sinni fyrst og fremst að fjárfestingum lífeyrissjóða. Hins vegar varðar greinin að efni til samsetningu á eignasafni sjóðanna og hefur greinin því áhrif á eignir sjóðanna óháð því hvort um beinar fjárfestingar sé að ræða eða ekki, til að mynda þegar tiltekin bréf eru afhent lífeyrissjóði vegna uppgjörs á skuldbindingum. Af þeim sökum getur lífeyrissjóði, vegna núgildandi takmörkunar 3. mgr. 36. gr., verið óheimilt að eiga ríkisskuldabréf og skuldabréf sem tryggð eru með ábyrgð ríkissjóðs en ekki eru skráð á skipulegum markaði, umfram 10% af hreinni eign sjóðsins. Með vísan til þessa er með frumvarpi þessu lagt til að bætt verði við 3. mgr. 36. gr. laganna ákvæði sem kveður á um að í þeim tilvikum þegar bakábyrgðaraðili lífeyrissjóðs, sem nýtur bakábyrgðar ríkis, sveitarfélaga eða banka, greiðir inn á skuldbindingu sína við sjóðinn með verðbréfum skv. 1. tölul. 1. mgr. 36. gr., sem ekki eru skráð á skipulegum markaði, þá skuli sjóðnum heimilt að taka við og eiga slík verðbréf óháð takmörkunum skv. 1. málsl. 3. mgr. 36. gr. Þessi breyting er í samræmi við önnur ákvæði greinarinnar og gengur ekki gegn þeim almennu varúðarsjónarmiðum sem liggja að baki ákvæðum um fjárfestingar lífeyrissjóða.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.