133. löggjafarþing — 31. fundur,  21. nóv. 2006.

stjórnarskipunarlög.

12. mál
[19:35]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað alveg gilt sjónarmið sem hv. þingmaður bendir á og sjálfsagt að ræða það í þaula og skoða það, m.a. við meðferð málsins í þingnefnd.

Við þessa breytingu er tvennt sem mér sýnist að menn geti í raun gert. Menn geta haft óbreytt fyrirkomulag með þingræði, þ.e. þingbundna ríkisstjórn sem fyrst og fremst er mynduð af stjórnmálaflokkunum eða þingflokkunum sem eru kosnir í alþingiskosningum. Það fylgir því auðvitað að þeir flokkar sem komast í ríkisstjórn og velja ráðherra styrkja sitt lið um sem nemur ráðherrunum. Það hlýtur að vera. Það getur ekki farið öðruvísi og ég sé ekki neina leið hjá því, ef menn ætla að hafa þetta kerfi á annað borð vegna þeirra kosta sem það felur í sér að öðru leyti.

Hina leiðina væri líka hægt að hugsa sér til mótvægis við þessa breytingu og hún hefur svo sem verið sett fram áður. Ég held að hún hafi verið sett fram hér í þingsölum í frumvarpsformi fyrir nokkuð löngu síðan, að kjósa líka til framkvæmdarvaldsins. Ekki bara til löggjafarvaldsins með þingkosningum, heldur kjósa líka til framkvæmdarvaldsins með sérstökum kosningum sem miða að því að kjósa að lokum forsætisráðherra sem síðan mundi velja sér ríkisstjórn. Þetta er fyrirkomulag sem þekkist erlendis, t.d. í Bandaríkjunum og ég held ég megi segja í Frakklandi.