133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

mislæg gatnamót á mótum Þingvallavegar og Vesturlandsvegar.

121. mál
[13:27]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að leggja fram þessa spurningu um gerð líklegra gatnamóta eða hringtorgs á mótum Þingvallavegar og Vesturlandsvegar.

Vegagerðin vinnur nú að hönnun hringtorgs á gatnamótum Þingvallavegar og Vesturlandsvegar. Gert er ráð fyrir að hönnun geti lokið á næstu mánuðum þannig að hægt verði að hefja framkvæmdir í vetur verði ákveðin til þess fjárveiting á fjárlögum og við endurskoðun samgönguáætlunar. Verði ákveðið að hringtorg sé heppileg lausn á þessum stað mun taka 1–2 mánuði að gera þau og verður það væntanlega gert næsta sumar.

Þetta verkefni er að mínu mati brýnt, eins og reyndar mjög mörg endurbótaverkefni á þjóðvegakerfi landsins, og þess vegna lagði ríkisstjórnin til við Alþingi að sett yrði fjárhæð inn í fjáraukalög til þess að ganga í framkvæmdir við sérstakar umferðaröryggisaðgerðir á Vesturlandsvegi, þar á meðal á Kjalarnesi, og sömuleiðis um Hellisheiði. Fyrir þinginu liggur sú tillaga að setja milljarð í það verkefni.

Ég fól Vegagerðinni að hefjast handa til að vinna tíma þá þegar við að undirbúa þetta og í því ljósi er vinnan hafin við hönnun hringtorgsins. Það er talin viðunandi lausn að setja hringtorg við Þingvallavegamótin og auka þar með öryggi á þessum stað.

Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að íbúar í Mosfellsdal heimsóttu samgönguráðuneytið ekki alls fyrir löngu til að ræða umferðaröryggismál á þessu svæði og í dalnum. Þau lögðu fram áskorun og undirskriftalista. Það er alltaf heilmikill stuðningur, held ég, fyrir okkur stjórnmálamenn að vita af stuðningi og vilja íbúa til þeirra aðgerða sem ráðist er í. Ég hef margsagt að við þyrftum að vinna að úrbótum á þessari leið og að því hefur verið unnið á undanförnum árum. Það er búið að breikka veginn í gegnum Mosfellsbæinn og þar hafa verið sett hringtorg til að auka flæðið og bæta ástand umferðarinnar. Mislæg gatnamót voru sett við gatnamót Vesturlandsvegar og Víkurvegar eins og þekkt er og vegurinn breikkaður upp að Skarhólabraut. Næstu verkefni eru þá að ljúka tvöfölduninni algerlega á milli Skarhólabrautarhringtorgsins og þess hringtorgs sem er fyrir ofan.

Þessi framkvæmd við Þingvallaveginn er sem sagt á dagskrá og ég vísa til þess að fjárlaganefnd hefur afgreitt frá sér tillögu um fjárveitingu. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en að þeir fjármunir verði til ráðstöfunar og að hægt verði að ljúka þessari mikilvægu framkvæmd næsta sumar þannig að það verði unnið að henni þegar best er og blíðast, þegar vorið kemur og hægt verður að vinna þetta eins hagkvæmt og kostur er.

Þetta er svar mitt, virðulegi forseti, og ég vænti þess að fregnirnar berist hratt upp í Mosfellsbæ. Það hefur gerst áður.