133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

sakaferill erlends vinnuafls.

304. mál
[14:46]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra talaði nokkuð um lönd hinna svokölluðu þriðju ríkja. Ég þóttist vita að þar væru ákveðnar reglur í gildi og spurði þar af leiðandi ekki um það. Hins vegar held ég að þá sé óhætt að túlka svarið hjá hæstv. ráðherra þannig að stjórnvöld eða yfirvöld kanni ekki hugsanlega sakaferla þeirra sem koma hingað frá EES-löndunum nema þá kannski ef einhver mjög rík ástæða er til. Hæstv. ráðherra leiðréttir mig ef ég veð í villu og svíma hvað þetta varðar.

Það liggur þá fyrir að þeir sem koma hingað hafa mjög víðtæk réttindi, ef svo má segja, og stjórnvöld hafa ekki heimildir til að ganga eftir þessu. Þá vitum við það. Þetta hlýtur að vera svolítið bagalegt að vissu leyti þegar hingað koma svona margir erlendir ríkisborgarar því að þó að tíðni afbrota meðal þeirra hér á landi sé kannski ekkert hærri en hjá Íslendingum hljóta afbrot þeirra á meðal að bætast ofan á þau afbrot sem við þó þegar erum að kljást við hjá íslenskum ríkisborgurum.

Svo að ég spyrji nú hreint út: Hafa íslensk yfirvöld séð ástæðu til að fara nánar ofan í saumana á hugsanlegum sakaferlum þeirra sem hingað hafa komið eftir 1. maí sl. frá þessum tilteknu löndum sem gengu í Evrópusambandið árið 2004?