133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

skólagjöld í opinberum háskólum.

152. mál
[14:53]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Áður en ég tek til við að svara spurningu hv. þingmanns sem hljóðar á þann veg: Er til athugunar í ráðuneytinu að veita opinberum háskólum heimild til innheimtu skólagjalda? verður því ekki á móti mælt að maður heyrir alltaf sömu gömlu ræðurnar en það er eins og að menn fylgist ekkert með hvernig framlög ríkisins til háskólanna hafa þróast á síðustu árum. Ég vil sérstaklega vekja athygli þingheims á því að hv. þingmaður minntist ekki einu orði á nýjustu töflurnar frá Hagstofu Íslands þar sem við erum komin á svipað ról varðandi framlög til háskóla og t.d. Norðmenn þar sem við erum komin með 1,6% af þjóðarframleiðslunni til háskólanna.

Ég hefði talið réttara að menn kæmu hingað upp og segðu það fagnaðarefni að við erum búin að stórauka framlög til háskólamála.

Háskólarnir þurfa meira. Við erum sammála um það. En það þýðir ekki að líta fram hjá því sem er þó verið að gera. Við höfum í rauninni skorið okkur úr hvað aðrar þjóðir varðar, við höfum ekki verið með takmarkanir varðandi aðgang í háskóla í sama mæli og t.d. Svíar. Eins og menn þekkja voru umsóknir inn í sænska háskóla á árinu 2005 122–123 þús. en plássin voru einungis 62 þús. Hér tökum við mun hærri prósentu af þeim sem sækja um pláss í háskóla. Við höfum á síðustu árum mætt, sem betur fer, stóraukinni þörf varðandi háskólanám. Við einsettum okkur það að fjölga háskólanemum. Okkur hefur tekist það þótt t.d. stjórnarandstaðan hafi verið mótfallin því að styrkja fjölbreytni í háskólakerfinu, m.a. með því að reka einkaháskóla samhliða opinberum.

Ég vil sérstaklega geta þess að þegar leitast er við að svara spurningu hv. þingmanns er að sjálfsögðu fjármögnun háskóla í sífelldri skoðun í ráðuneytinu. Ég veit að við hv. þingmaður erum sammála um að það þarf enn frekar að auka framlögin til háskóla en þó ekki eingöngu í gegnum ríkisvaldið heldur líka leita annarra leiða, eins og ég hef sagt, og þar hef ég sérstaklega tiltekið atvinnulífið. Sem betur fer hafa verið jákvæð teikn á lofti varðandi þátttöku atvinnulífsins, það er í æ ríkara mæli að átta sig á svonefndri samfélagslegri ábyrgð sem oft hefur verið nefnd og eykur framlög sín bæði til kennslu og rannsókna.

Rétt er að taka það fram að á síðasta þingi voru samþykkt ný lög um háskóla sem að mínu mati skipta afar miklu máli, rammalöggjöf sem setur sérstaklega fram mjög skýrar gæðakröfur um starfsemi háskóla og hvernig kennslu og uppbyggingu við viljum sjá innan háskólasamfélagsins, þá ekki síst með tilliti til þess að við þurfum að standast erlenda samkeppni. Við þurfum að stefna að því að okkar háskólar verði að sjálfsögðu í fremstu röð. Þar var ekki samþykkt gjaldtökuheimild og ekki fjallað um gjaldtökuheimildir í rammalöggjöfinni. Þá kom fram við umræðuna að sérstaklega yrði hugað að hugsanlegri gjaldtökuheimild við endurskoðun á lögunum um ríkisháskólana. Við sjáum fram á miklar breytingar á næstu vikum, hugsanlega, eða þá mánuðum varðandi t.d. Háskóla Íslands og hugsanlega sameiningu Háskóla Íslands við Kennaraháskóla Íslands sem ég vonast til að við fáum tækifæri til að fjalla um á þessu þingi.

Það má benda fyrirspyrjanda á að fjármögnun opinberra háskóla er mjög ofarlega á baugi í umræðum allra Evrópuþjóða varðandi háskólastigið, bæði innan Evrópu og þá innan OECD. Í því samhengi má sérstaklega vísa í skýrsluna sem hv. þingmaður kom inn á, m.a. um efnahagsmál á Íslandi sem var kynnt nýlega en þar var beinlínis lagt til að tekin yrðu upp skólagjöld í ríkisháskólum á Íslandi.

Í annarri nýútkominni skýrslu frá OECD er fjallað um fjármögnun háskólamenntunar. Þar er bent á að í flestum löndum hafi aukning útgjalda til háskólastigsins verið hraðari en aukning þjóðarframleiðslu og því hafi löndin átt erfitt með að bregðast við þessari auknu ásókn í háskólamenntun sem er risin en er þó hvergi meiri en hér. Þetta hefur hins vegar ekki átt við um Ísland þar sem mikill vöxtur í efnahagslífi þjóðarinnar síðustu ár hefur einmitt gert okkur kleift að auka framlög til háskólastigsins verulega og stuðla þannig að áframhaldandi þróun þess. Aukning okkar til háskólastigsins hefur verið meiri og hlutfallslega hraðari en á meðal annarra þjóða sem við berum okkur alla jafna saman við.

Ég veit að við hv. þingmaður höfum iðulega verið sömu skoðunar þegar við höfum rætt um málefni sem tengjast skólagjöldum. Það er ljóst að á yfirstandandi þingi verða skólagjöldin ekki tekin til umræðu og afgreiðslu hér, en við höfum bæði viðrað það að taka upp skólagjöld, m.a. á framhaldsháskólastigi, en að sjálfsögðu ekki fyrr en að ígrunduðu ráði.