133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

heildarstefnumótun í málefnum barna og unglinga.

223. mál
[15:27]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta var náttúrlega afleitt svar hjá hæstv. forsætisráðherra. Þetta var sama platan, þetta var sami söngurinn og síðustu tveir hæstv. forsætisráðherrar á undan honum hafa farið með við svipaðri fyrirspurn. Þetta var afleitt svar.

Að sjálfsögðu á inntakið í nýrri barna- og unglingastefnu að snúast að miklu leyti um forvarnir. Forvarnir gegn áfengi og fíkniefnum hvers konar. Það hefði verið mjög gaman að sjá hér glitta í nýja tóna í máli hæstv. forsætisráðherra í þeim málum. Það er uppi mjög hörð umræða í samfélaginu um það hvernig æ yngri börn og unglingar byrja að neyta fíkniefna og áfengis, löglegra og ólöglegra. Vandinn verður alltaf meiri og meiri. Það er talað um samfélagsbrest í þjóðfélaginu að þessu leyti.

Samt kemur hæstv. ráðherra og lætur eins og ekkert sé og fer með sömu gömlu þreyttu þuluna þar sem ekkert nýtt var að finna. Við eigum að móta nýja stefnu (Forseti hringir.) í þessum málum, virðulegi forseti.