133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

miðstöð mæðraverndar.

[15:39]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Hv. 4. þm. Suðvest. spyr fjögurra spurninga og svo aukaspurningar í lokin. Í fyrsta lagi: Hvaða rök lágu að baki því að Landspítali – háskólasjúkrahús rifti samningi við Miðstöð mæðraverndar sem gilda átti til ársins 2009?

Eftir að Heilsuverndarstöðin var seld og húsnæðisforsendur breyttust fóru fram viðræður milli Landspítala – háskólasjúkrahúss, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og ráðuneytisins sem leiddu til þeirrar niðurstöðu sem nú er orðin. Rökin eru að hluta til faglegs eðlis og skýrast af þeim vilja heilbrigðisyfirvalda að konur fái sem besta þjónustu á viðeigandi þjónustustigi.

Það má líka draga fram að fyrir tiltekinn hóp kvenna — ég undirstrika tiltekinn hóp kvenna — sem skilgreindur er í áhættuhópi úti á heilsugæslustöðvunum er einfaldara að komast strax inn á LSH og njóta þjónustunnar þar þannig að ekki verði um aukaviðkomustað að ræða í ferlinu. Þetta eru meginástæðurnar fyrir því að þjónustunni verður núna fyrir komið með nýjum hætti, þ.e. skýr greinarmunur verður gerður á milli kvenna sem eru í áhættumeðgöngu, og þær fá þá þjónustu á viðeigandi stað, þ.e. LSH, og svo þeirra kvenna sem eru ekki í áhættumeðgöngu, sem er meginfjöldinn, en þær fá þjónustu á heilsugæslustöðvunum. Þetta nýja fyrirkomulag er í fullu samræmi við klínískar leiðbeiningar landlæknis um meðgönguvernd.

Í öðru lagi er spurt: Telur ráðherra að Miðstöð mæðraverndar hafi ekki sinnt starfi sínu og konum á meðgöngu sem skyldi?

Miðstöð mæðraverndar sinnti skyldum sínum prýðilega í samræmi við það sem til var ætlast. Miðstöðin er sterkur bakhjarl við uppbyggingu mæðraverndar á heilsugæslustöðvunum og veitti öfluga og aðgengilega ráðgjafarþjónustu. Í upphafi leituðu fleiri konur til Miðstöðvar mæðraverndar en gert hafði verið ráð fyrir, bæði konur í eðlilegri meðgöngu og áhættumeðgöngu. Heilsugæslustöðvarnar, sem hefur vaxið fiskur um hrygg á undanförnum árum, hafa í vaxandi mæli tekið við eftirliti kvenna í eðlilegri meðgöngu. Þetta hefur m.a. gerst vegna þess að heilsugæslan hefur eflst mjög faglega á þessu sviði með ráðningu fleiri ljósmæðra á stöðvunum.

Mjög miklar breytingar hafa átt sér stað á undanförnum áratug gagnvart mæðraverndinni. Fyrir áratug fóru um 40% kvennanna sem fóru í mæðravernd á Landspítalann, 30% fóru á mæðradeild Heilsuverndarstöðvarinnar og einungis um 25% samtals á heilsugæslustöðvarnar. Það hefur auðvitað orðið gífurleg breyting. Núna viljum við færa þessa þjónustu eins og hægt er út á heilsugæslustöðvarnar, það er skrefið sem verið er að stíga. Það má segja að u.þ.b. tveir þriðju þeirra kvenna sem hafa fengið þjónustu á Miðstöð mæðraverndar muni núna fá þjónustu á heilsugæslustöðvunum, en einn þriðji, þ.e. þær sem eru í áhættumeðgöngunni, mun fara á LSH. Það er verið að gera þarna skýran greinarmun á milli, að veita þjónustuna á viðeigandi þjónustustigi og aðallega í heilsugæslunni en einungis lítill hluti fer inn á LSH. Það verða um 15% allra, þ.e. þær sem eru í áhættumeðgöngu.

Með því fyrirkomulagi sem núna er verið að koma á fót og er í fullu samræmi við svokallaðar NICE-leiðbeiningar, sem eru breskar klínískar leiðbeiningar, tel ég að þjónustan við barnshafandi konur verði að mörgu leyti betri og umfram allt markvissari en áður. Samkvæmt þessu er lagt til að konur sem ekki eru í áhættu eigi að sækja sér þjónustu í grunnþjónustunni, í heilsugæslunni, sem núna er mjög vel í stakk búin til að sinna þessu hlutverki en þær sem eru í áhættu fá sérhæfðustu þjónustuna hjá kvennasviði LSH. Þannig er gert ráð fyrir að þungaðar konur sem eru ekki í neinni áhættu sæki mæðravernd á nærliggjandi heilsugæslustöð en konur með skilgreinda áhættuþætti sæki mæðravernd til LSH þar sem sérhæft eftirlit fæðingarlækna og ljósmæðra fer fram.

Mikil áhersla verður að sjálfsögðu lögð á samfellda þjónustu, bæði á heilsugæslustöðvunum og líka innan LSH. Starfið á heilsugæslustöðvunum verður eflt enn frekar og mun njóta öflugs stuðnings Miðstöðvar mæðraverndar.

Ákveðinn hluti þessara kvenna þarf á mjög sérhæfðri þjónustu að halda og ég tel eðlilegt að hún fari fram á LSH. Í heildina vil ég segja að þetta verður einfaldari og markvissari þjónusta og að mínu mati verður þessi breyting til þess að við munum sjá betri þjónustu. Sú niðurstaða byggist að miklu leyti á því að gott samstarf takist á milli LSH og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Ég vil taka það sérstaklega fram að það samstarf hefur verið mjög gott og ég þakka sérstaklega fyrir það. Það er auðvitað forsendan fyrir því að þessi þjónusta verði efld.