133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

afkoma lunda og annarra sjófugla.

202. mál
[18:04]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði, það eru fleiri áhrifavaldar á lífríki hafsins en einungis maðurinn en ég kannast ekki við það, satt að segja, að ég hafi viljað skella skollaeyrum við þeirri röksemdafærslu. Ég held að það hafi oft komið fram, bæði í mínu máli og margra annarra, að þetta eru algild og almenn sannindi sem ég held að við þurfum í sjálfu sér ekkert að deila um. Þessi áhrif eru margslungin og margbrotin og menn getur greint á um hversu mikil eða víðtæk þau eru og þau eru örugglega mismunandi eftir árferði o.s.frv. En það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að auðvitað þarf að hyggja að þessum málum og það hefur verið gert.

Athuganir á afkomu og útbreiðslu ýsustofnsins, svo dæmi sé tekið, eru hluti af reglubundinni vöktun Hafrannsóknastofnunar á fiskstofnunum. Niðurstöður varðandi ýsuna eru þær að bæði er útbreiðslan vaxandi og aukning er í magni umhverfis allt land og þetta þekkjum við. Nýlega er hafin hjá Hafrannsóknastofnun rannsókn með það að markmiði að fá gleggri upplýsingar um fæðu ýsu eftir svæðum og árstímum og verður frekari gagna aflað með kerfisbundnum hætti á komandi missirum. Af þessu sjáum við að það er vaxandi áhersla einmitt á þennan þátt málsins og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður fagni því.

Rannsóknir Hafrannsóknastofnunar á sjófuglum hafa fyrst og fremst beinst að fæðu þeirra og fjölda. Um árabil hefur Arnþór Garðarsson, prófessor við líffræðiskor Háskóla Íslands, fylgst með afkomu sjófugla og hefur komið fram í athugunum hans að varpárangur margra tegunda hafi verið slakur síðastliðin tvö vor.

Ekki hefur verið athugað sérstaklega hvort tengja megi afkomu lunda og annarra sjófugla við útbreiðsluafkomu ýsustofnsins. Á hinn bóginn hafa verið gerðar athuganir af Hafrannsóknastofnun sem benda til þess að tengsl ýsu og sjófugla geti verið til staðar. Nefna má athugun sem hafði það markmið að athuga hvort át sjófugla á seiðum þorskfiska, þar með talinni ýsu, geti verið umtalsvert. Fyrirliggjandi niðurstöður benda ekki til þess að svo sé. Enn fremur geta tengsl ýsu og sjófugla verið vegna sameiginlegra fæðuhópa. Uppistaðan í fæðu lunda er síli og hjá öðrum tegundum sjófugla er síli ásamt loðnu og ljósátu mikilvægasta fæðan. Eldri rannsóknir Hafrannsóknastofnunar hafa sýnt að loðna, síli og ljósáta eru mikilvægir fæðuhópar ýsu en vægi þessara hópa í fæðunni er mjög mismikið eftir landshlutum og árstíma.

Í stuttu máli leiða handbærar niðurstöður úr fæðurannsóknum Hafrannsóknastofnunar í ljós að ýsa og sjófuglar nýta að hluta til sameiginlega fæðuhópa, a.m.k. á stundum. Þess ber þó að geta að umræddir fæðuhópar eru mikilvægir fyrir fjölda annarra tegunda í lífríki sjávar hér við land, þannig að hér vantar mikið á að unnt sé að draga víðtækar ályktanir um orsakasamhengið. Ég ítreka hins vegar, eins og fram kom fyrr í ræðu minni, að þessar rannsóknir standa yfir og að hafin er rannsókn sem hefur það markmið að varpa gleggra ljósi á upplýsingar um fæðu ýsu eftir svæðum og árstímum og áfram verður haldið á þeirri braut, sem ég geri ráð fyrir að geti þá væntanlega svarað betur spurningum hv. þingmanns.