133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

hrefna og botnfiskur.

229. mál
[18:13]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Þessi fyrirspurn tengist einnig fiskveiðistjórnarkerfinu, því furðulega kerfi sem við höfum komið á hér á landi og byggir á mjög vafasömum áætlunarbúskap í undirdjúpunum. Fyrirspurnin er svohljóðandi:

Hvað er áætlað að hrefnustofninn í miðhluta Atlantshafsins sem heldur sig við Ísland éti mikið af botnfiski árlega?

Kannski sjá menn ekki alveg samhengið á milli kvótakerfisins og þessara fyrirspurna en ég reikna með að svarið við þessari fyrirspurn verði að það sé gríðarlega mikið af botnfiski. Það hefur verið reiknað út að hrefnustofninn einn og sér éti vel á aðra milljón tonna árlega af fiski. Kannski er eitthvað lítið af því botnfiskur en samt sem áður er um gríðarlegt magn að ræða. Það má líta til þess að spendýr hafsins, hvalir og selir, og fuglar himinsins éta margfalt meira magn af sjávarfangi en maðurinn veiðir. Afli á síðasta ári var um 1,5 millj. tonn. Það er því miklu meira magn sem þessi spendýr og fuglar taka. En líti menn á orkuflæðið í hafinu þá sér hver maður að áhrif mannsins eru mjög lítil miðað við áhrifin sem spendýrin hafa og gleymum því ekki að spendýrin og fuglarnir eru samt sem áður aukaleikarar, aðalleikararnir í þessu samspili og orkuflæðinu eru fiskarnir sjálfir sem éta hverjir aðra og þar gufar upp mesta orkan. (Gripið fram í.)

Hæstv. sjávarútvegsráðherra ætti að skoða þessa umræðu og líta til þess þegar við sjáum þessar háu tölur og magnið sem spendýrin éta hvers vegna menn standi þá niðri á bryggju og mæli upp úr trillunum fiska upp á einhver kíló með ærnum eftirlitskostnaði, það er verið að telja upp úr bátunum. Menn eru jafnvel að leigja veiðiheimildir fyrir háar upphæðir í einhverju kerfi sem stenst enga líffræði þegar hlutirnir eru skoðaðir raunsætt. Við tökum miklu minna en spendýrin og fuglarnir, sem samt sem áður eru aukaleikarar, og þess vegna er þessi ofstýring og stjórn sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir algerlega óskiljanleg.