133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

hrefna og botnfiskur.

229. mál
[18:24]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er örugglega rétt sem hér hefur komið fram að þessar rannsóknir eru heilmikilli óvissu undirorpnar eins og við þekkjum bara í hafrannsóknum almennt. Þar eru heilmiklir óvissuþættir sem menn þurfa að gera sér grein fyrir. Þess vegna er ákveðið óvissuvægi reiknað inn í allar forsendur þegar menn skoða þessi mál og það þurfa menn að hafa í huga.

Engu að síður held ég að sú rannsókn sem hér hefur staðið yfir síðustu þrjú árin sé að varpa miklu ljósi á myndina. Við erum að gera rannsóknir á hrefnunni, sérstaklega á áhrifum fæðusamsetningar hennar. Við sjáum þegar ákveðna mynd í þessu sambandi. Þær tölur sem ég fór yfir áðan sýna okkur svart á hvítu áhrif hrefnustofnsins á lífríkið í hafinu og þess vegna skiptir þetta allt saman miklu máli.

Það er út af fyrir sig alveg rétt að það má kannski deila um þessa nálgun varðandi botnfiskinn í ljósi þess sem sagt var áðan um hrefnuna en það breytir ekki hinu að það verður líka að hafa í huga þetta fæðusamhengi, þetta samhengi lífríkisins sem við ræddum hér reyndar í fyrri fyrirspurn. Þegar hrefnan á í samkeppni við okkur um aðrar fisktegundir og þegar hún á í samkeppni við fisktegundir um fæðuna hefur það auðvitað áhrif á afrakstur þeirra fisktegunda. Það er þýðingarmikið og þess vegna er svo mikilvægt að menn velti upp öllum þessum hliðum þó að það út af fyrir sig skýri ekki myndina að fullu. Það sýnir okkur fyrst og fremst að það eru mjög margar breytur sem við þurfum að taka tillit til, svo sem afrán fiskanna sjálfra, það er augljóst mál, það eru áhrifin af vaxandi hvalastofnum, áhrifin af sjófuglunum og áhrifin af veiðunum. Allt þetta þarf að vega saman og þess vegna þurfum við að hafa þessa heildarmynd algjörlega fyrir okkur.