133. löggjafarþing — 33. fundur,  22. nóv. 2006.

dýralæknar og heilbrigðisþjónusta við dýr.

298. mál
[19:04]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, að Austurland er víðfeðmt og vegalengdir þar langar. Það þekkjum við. Ríkisvaldið kemur til móts við það með peninga til að greiða niður akstur o.s.frv. Hins vegar liggur skýrt fyrir að opinber eftirlitsstörf eru minni á Austurlandi en þau voru. Sláturhúsunum hefur fækkað og minna er að gera í hinu opinbera eftirliti. Þeim verkefnum hefur fækkað og í ljósi þess hafa menn viljað prófa þetta með þessum hætti, en ekkert síður af því að auðvitað gerist það um allt land að þar setjast að menntaðir menn í mörgum greinum. Þar hafa sest að menntaðir dýralæknar og starfa auðvitað við ýmislegt á búi sínu eða í einhverju öðru en vilja veita þjónustu einnig. Þannig er það á þessu svæði.

Ég fylgist auðvitað með þessu. Ég hef heyrt þær raddir sem fram komu hjá hv. þingmanni. Ég virði þær og tel mjög mikilvægt að fara yfir þá stöðu með Búnaðarsambandi og bændasamtökum. Ég get einungis heitið hv. þingmanni því að eftir þessa umræðu mun ég fara yfir stöðu málsins enn á ný, hvað bændur á þessu svæði segja um málið og hvort þeir telji aðgang sinn að dýralæknum nægan. Ég met síðan málið út frá því.