133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

búseta í iðnaðarhúsnæði.

[10:46]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að þetta mál hefur á sér lagalegar hliðar og þetta mál hefur líka á sér siðferðilegar hliðar. Það má bæta einni hliðinni við og það er hin mannlega hlið, tilfinningahliðin, því að þetta snýst um fólk. Það er einmitt mjög mikilvægt að fjalla um þetta á faglegan hátt af því að þetta snýst um aðstæður fólks, hina mannlegu hlið. Þess vegna finnst mér það í rauninni jaðra við siðleysi af hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni að rífa málið úr faglegum farvegi félagsmálanefndar, þar sem hann sat sjálfur, þar sem faglega er unnið að þessu máli í þverpólitískri sátt til að finna hina faglegu lausn og skilgreina málið. Þess vegna skilur maður ekki hvað vakir fyrir hv. þingmanni að rífa málið úr þessum faglega farvegi nema til þess að þjóna lýðskrumshugsun sinni og popúlisma sem hann er orðinn þekktur fyrir.

Ég held að það ætti einmitt að þakka hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur, formanni félagsmálanefndar, fyrir frumkvæðið í þessu máli, að láta félagsmálanefnd taka málið upp, beina því í þann faglega farveg sem er nauðsynlegt að verði gert í svona viðkvæmum málum frekar en að vera með það í lýðskrumi eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson gerir sig sekan um, og ekki í fyrsta sinn.