133. löggjafarþing — 34. fundur,  23. nóv. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[17:56]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór hörðum orðum um framkvæmd fjárlaga. Mér fannst hv. þingmaður tala óvarlega. Það er vissulega svo að á hverju ári er mikið vandamál varðandi framkvæmd fjárlaga, mjög margar stofnanir eiga í erfiðleikum með það.

Stærsti vandinn á þessu ári og sá mesti við að glíma var Landspítali – háskólasjúkrahús. Þess vegna verðum við með við lokaafgreiðslu fjáraukalaga einn milljarð kr. til þeirrar stofnunar til að taka niður þann halla sem hefur orðið á árinu. Þetta er stærsti hallinn. Við erum líka með fleiri tillögur við 3. umr. fjárlaga sem koma inn á einar 20–30 heilbrigðisstofnanir, en heilbrigðisstofnanir hafa átt í miklum erfiðleikum á þessu ári. Það er ekki síst vegna þeirra launabreytinga sem áttu sér stað á árinu og í lok síðasta árs, þegar borgarstjórinn í Reykjavík stóð fyrir því að hækka laun umönnunarstétta, sem áttu að heita svo, hækka laun sem gengu upp allan launastigann eins og sjá má alls staðar hvar sem menn vilja skoða það, menn geta t.d. skoðað heimasíðu Eflingar, þar kemur það mjög skýrt fram. Þetta olli okkur miklum erfiðleikum og margt fleira sem við erum að reyna að eiga við á hverju ári og tekst í mörgum tilfellum þó að víða sé alltaf pottur brotinn, það er alveg hárrétt. En ég held að hv. þingmaður hafi farið heldur geyst með stóryrðum sínum um þessa hluti.

Þingmaðurinn sagði líka að ríkisstjórnin hefði gersamlega brugðist við að nota fjárlögin til að stýra efnahagsmálunum og benti þá enn og aftur á Seðlabankann. Ég spyr enn og aftur: Hvað er það sem ríkisstjórnin átti að gera til að stjórna efnahagsmálunum? Átti hún að fara að tillögum Seðlabankans um að skera niður kaupmátt Íslendinga? Var ríkisstjórnin að gera rangt í því að fara ekki að tillögum Seðlabankans um þetta? Ég vildu mjög gjarnan heyra svar hv. þingmanns.