133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[13:33]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta frumvarp. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sem var talsmaður minni hlutans í efnahags- og viðskiptanefnd um þetta mál hefur þegar gert ágætlega grein fyrir afstöðu okkar en þó ætla ég að fara nokkrum orðum um málið.

Við erum að ræða breytingartillögu við lög um tekjuskatt, nr. 90/2003, og málið snýr að vaxtabótum. Eins og kunnugt er eiga þeir rétt til vaxtabóta sem greiða vaxtagjöld af lánum vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota og einnig þeir sem hafa keypt eignarhlut í kaupleiguíbúðum. Þessar vaxtabætur ráðast af ýmsum breytum. Þær ráðast af eignum fólks og þá skiptir fasteignamatið sköpum. Þær taka mið af tekjum einstaklinganna og skuldum þeirra. Spurningin er hvernig þetta spilast síðan saman.

Nú gerðist það og hefur gerst á síðustu mánuðum og missirum að fasteignamatið hefur rokið upp úr öllu valdi. Það hefur hækkað stórlega. Það þýddi að þeir sem höfðu tekið lán til kaupa á eignum eru skyndilega komnir með miklu meiri eign handa milli. Eignin er orðið miklu verðmætari en hún áður var enda þótt skuldirnar séu hinar sömu og jafnvel þótt tekjurnar séu svipaðar.

Nú er það svo að fólk er yfirleitt ekki að kaupa íbúðarhúsnæði sem fjárfestingu heldur sem íverustað. Auðvitað ganga íverustaðir kaupum og sölum eftir atvikum en þetta er yfirleitt áfangastaður sem fólk heldur inn í með sig og sína. Við þessa sprengingu á fasteignamarkaðnum, hækkun fasteignamats, þá skertust tekjurnar eða greiðslurnar sem menn áttu rétt til í vaxtabótakerfinu og af þeim sökum ákvað Alþýðusamband Íslands við endurskoðun kjarasamninga síðastliðið sumar að taka málið sérstaklega upp. Það var leitað eftir samkomulagi við stjórnvöld um hækkun, breytingu á skerðingarmörkunum, þannig að þau tækju mið af hinum breytta veruleika á fasteignamarkaði.

Í viðræðunum í sumar lagði ríkisstjórnin fram tillögu um að hækka eignastuðlana talsvert, um 25% en sérfræðingar Alþýðusambandsins töldu ekki nóg að gert og það náðist ekki samkomulag um málið. Lyktir urðu hins vegar þær að ríkisstjórnin gaf út yfirlýsingu, hinn 22. júní, þar sem segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin lýsir sig reiðubúna til að endurskoða ákvæði laga um vaxtabætur ef í ljós kemur við niðurstöðu álagningar í ágúst nk. að hækkun fasteignaverðs á árinu 2005 hefur leitt til marktækrar skerðingar á vaxtabótum.“

Í bréfi sem efnahags- og viðskiptanefnd barst frá Alþýðusambandinu fyrir fáeinum dögum, 17. nóvember segir, með leyfi forseta, m.a.:

„Það var og er skilningur fulltrúa ASÍ á yfirlýsingunni“ þ.e. þeirri sem hér var vitnað til „að á grundvelli hennar eigi að finna leið til að gera þá sem verða fyrir marktækri skerðingu nokkurn vegin jafnsetta og ef ekki hefði komið til þessi mikla hækkun fasteignamats.

Í viðræðum aðila í sumar nefndu ráðherrar þá hugmynd að hækka eignastuðla um 25% og málið væri þannig úr sögunni. Á það féllust fulltrúar ASÍ ekki og bentu á að málið þarfnaðist frekari skoðunar. Hækkun á eignastuðlum um 25% dugir ekki. Aðilar urðu því ásáttir um að nýta tímann til hausts til að skoða málið og að samráð yrði haft við ASÍ. Því miður hefur ekkert orðið af slíku samráði.“

Í bréfinu tilgreinir síðan Alþýðusambandið ástæður fyrir því eða færir fyrir því rök að sambandið telji að hækkun eignastuðla um 25% dugi ekki. Í gögnum Alþýðusambandsins er tekið dæmi sem hv. þingmaður, framsögumaður minni hlutans í þessu máli fór ágætlega í gegnum áðan, og þar er vísað til þess að fólk sem festi kaup á eign fyrir 25 millj. kr., sem gæti verið fjögurra herbergja íbúð þess vegna, tók lán fyrir þeirri eign og er með tiltölulega svipaðar tekjur, verður af vaxtabótum vegna hækkunar á fasteignamatinu. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fór í gegnum þetta dæmi. Ég er með það hérna fyrir framan mig. Ég ætla ekki að tefja umræðuna með því að hafa það upp aftur.

Ágreiningurinn um þetta mál snýst eiginlega um tvennt: Það snýst að sjálfsögðu um innihaldið, þ.e. hvort dugi að hækka eignastuðlana um 25% eða hvort þurfi að hækka þá enn meira. Alþýðusambandið hefur í því sambandi nefnt 80% án þess þó að sambandið hengi sig í þá tölu. En spurningin snýst um það hvor talan færi okkur nær þeim markmiðum sem menn ræddu í sumar við endurskoðun kjarasamninga. En þetta snýst einnig um vinnubrögð, um aðkomu Alþýðusambandsins að þessum viðræðum. Við höfum fengið nokkuð misvísandi upplýsingar um þetta efni. Okkur er annars vegar sagt frá fundum sem aðilar hafi átt þar sem þeir hafi ræðst við, að því er virðist fyrst og fremst um samskipti en eftir því sem ég fæ best skilið þá hefur ekki verið orðið við óskum Alþýðusambandsins um að sérfræðingar sambandsins annars vegar og fjármálaráðuneytisins hins vegar settust yfir málið með öll þau gögn sem til þarf til að freista þess að komast að niðurstöðum.

Við tókum þetta mál upp og höfum rætt það ítrekað á fundum í efnahags- og viðskiptanefnd og það varð samkomulag um það í nefndinni að hún legði sitt til þess eða mæltist til þess að aðilar settust yfir málið, þetta var í fyrradag, en ég heyri það á fulltrúum Alþýðusambandsins að fundirnir hafi ekki skilað því sem væntingar hafi staðið til af þeirra hálfu enda hafi sennilega þurft meiri tíma til vinnslu á málinu og af þeim sökum höfum við lagt áherslu á gagnrýni okkar í garð ríkisstjórnarinnar og þá einkum fjármálaráðuneytisins fyrir að standa ekki að þessu máli eins og efni standa til. Það sem hefði þurft að gerast er að aðilar hefðu þurft að sitja í haust og fara yfir þau gögn sem menn síðan reisa tillögur sínar á. Við gagnrýnum harkalega þessi vinnubrögð. Þetta er eiginlega mergurinn málsins í gagnrýni okkar.

Að öðru leyti vil ég gera rök og málflutning hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að mínum. Hún talaði fyrir hönd okkar í minni hlutanum í stjórnarandstöðunni í þessu máli og ég hef ekki miklu við það að bæta.