133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

tekjuskattur.

22. mál
[13:48]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að þeir sem eru ábyrgir fyrir óforsvaranlegum vinnubrögðum í þessu máli eigi að hafa svolítið hægt um sig, og það á við um hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, hv. þm. Pétur H. Blöndal.

Hjá hjónum byrjar skerðing þegar nettóeign er einungis rúmar 6 millj. kr. (Gripið fram í.) og verður eftir þessa breytingu 8 millj. kr. Vaxtabætur hverfa núna með öllu þegar nettóeign nær 9,8 milljónum. Þannig er það núna. Við erum í rauninni ekki að tala um mikla eign ef við horfum til veruleikans á fasteignamarkaðnum, þá er ekki um mikið að ræða. Það er bara staðreyndin. Ef við á annað borð viljum að fólk eigi sitt húsnæði, þá verðum við að horfa á hvort íslensku lágtekju- og millitekjufólki er það yfirleitt kleift. Vaxtabótakerfið verður að taka mið af því og horfa á veruleikann eins og hann er. Síðan þegar okkur er sagt að fólk hafi hagnast svo mikið á fasteignahækkuninni, ef menn sitja í íbúð sem þeir hafa fest kaup á og ætla ekki að fara þaðan, una hag sínum vel, þá gildir einu hvað fasteignaverðið hækkar ef kaup fólksins hefur ekki hækkað að sama skapi. Það er fyrst og fremst breytan í því samspili sem hefur áhrif á vaxtabæturnar sem hefur hækkað, sprengst upp á við, er verðið á fasteigninni, þá hefur ekkert gerst annað en að kjör fjölskyldunnar eða einstaklingsins eftir atvikum hafa rýrnað.