133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

347. mál
[14:34]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

Lánasjóður sveitarfélaga var stofnaður með lögum nr. 35/1966 en starfar nú samkvæmt lögum nr. 136/2004. Sjóðurinn hefur frá stofnun verið óskipt sameign allra sveitarfélaga á Íslandi og hefur hann það hlutverk að tryggja sveitarfélögum, stofnunum þeirra og fyrirtækjum lánsfé á hagstæðum kjörum með veitingu lána eða ábyrgða. Sjóðurinn er t.d. sérlega mikilvægur fyrir þau sveitarfélög sem verst standa en þar njóta öll sveitarfélög sömu kjara öfugt við almennan fjármagnsmarkað.

Með setningu laga nr. 136/2004 var lagaumhverfi lánasjóðsins breytt til samræmis við almenn starfsskilyrði fjármálafyrirtækja á fjármálamarkaði eftir því sem fært var, meðal annars með niðurfellingu á ákvæðum um árleg framlög til hans úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og frá ríkissjóði. Í tengslum við niðurfellingu þessara framlaga var beinum afskiptum ríkisins af rekstri lánasjóðsins hætt og öll ábyrgð á stjórn hans og rekstri færð til sveitarfélaganna. Þá var Lánasjóði sveitarfélaga gert að starfa sem lánafyrirtæki samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki á grundvelli starfsleyfis Fjármálaeftirlitsins og undir eftirliti þess fékk hann starfsleyfi í ágúst 2005. Verði frumvarp þetta að lögum verða tekin frekari skref í átt að aðlögun lánasjóðsins að almennum starfsskilyrðum fjármálafyrirtækja.

Megininntak frumvarpsins er eftirfarandi:

1. Kveðið er á um skiptingu eigin fjár lánasjóðsins. Gert er ráð fyrir að íbúafjöldi sveitarfélaga á hverju ári frá 1967 ráði skiptingu á þeim hluta eigin fjár lánasjóðsins sem myndaður er af framlögum úr jöfnunarsjóði og ríkissjóði á hverju ári frá stofnun lánasjóðsins en útistandandi lán um áramót hvert ár ráði skiptingu á þeim hluta eigin fjár sem myndaður er af öðrum rekstrartekjum hvers árs að frádregnum rekstrarkostnaði.

2. Stofnað verði opinbert hlutafélag um rekstur Lánasjóðs sveitarfélaga en félagið verði alfarið í eigu sveitarfélaga í samræmi við framangreinda skiptingu eigin fjár lánasjóðsins.

3. Takmörkun verður á meðferð hlutafjár. Hlutafé getur eingöngu verið í eigu sveitarfélaga og stofnana eða fyrirtækja að fullu í eigu þeirra. Hámarksatkvæðisréttur eins hluthafa mun miðast við 15% og ekki verða heimiluð nein viðskipti með eignarhluti í tvö ár frá gildistöku laganna eins og þau eru áætluð, þ.e. til ársloka 2008, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lög þessi taki gildi 1. janúar nk.

Kveðið er á um að tilteknar ívilnanir sem Lánasjóður sveitarfélaga nýtur vegna almannaþjónustuhlutverks haldi gildi sínu. Lánasjóðurinn mun áfram hafa það hlutverk að tryggja sveitarfélögum hagstæðustu lánakjör sem fáanleg eru á hverjum tíma. Þrátt fyrir þá formbreytingu að stofnað verði opinbert hlutafélag um sjóðinn er gert ráð fyrir að tiltekin sérákvæði sem um hann gilda verði áfram í lögum.

Frá stofnun hefur lánasjóðurinn aldrei tapað útláni sem skýrist m.a. af sérákvæði í sveitarstjórnarlögum um að sveitarfélög geti veitt honum veð í tekjum sínum. Afar mikilvægt er að þetta ákvæði verði áfram í gildi. Einnig er gert ráð fyrir að lagaákvæði um skattfrelsi sjóðsins verði áfram í gildi verði frumvarpið að lögum.

Rétt er að minna á að við setningu laga um Lánasjóð sveitarfélaga, nr. 136/2004, setti Alþingi það skilyrði að hafin yrði vinna við að skilgreina eignarhald á sjóðnum. Þeirri vinnu er nú lokið og ríkti algjör samstaða á ársfundi sjóðsins, sem haldinn var í september sl., um þá skiptingu. Sama má segja um tillögu stjórnar um að breyta sjóðnum í opinbert hlutafélag í eigu allra sveitarfélaga.

Ég vil undir lok máls míns vekja athygli á því að auk hefðbundinnar kostnaðarumsagnar fjármálaráðuneytisins sem fylgir þessu frumvarpi fylgir einnig umsögn skrifstofu sveitarstjórnarmála í félagsmálaráðuneytinu þar sem fjallað er um efnahagsleg áhrif frumvarpsins á sveitarfélögin.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. félagsmálanefndar.