133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga.

347. mál
[14:43]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú hafa sumar af þeim spurningum þegar komið fram sem ég hugðist spyrja en það eru þó ýmsar vangaveltur eftir.

Ég vil t.d. spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig fer um eignarhluta ef það verður niðurstaða íbúa í sveitarfélagi sem hefur sameinast að kljúfa sig aftur í sundur? Hvað gera menn varðandi eignarhlutann ef sveitarfélag sem hefur verið sameinað klofnar aftur upp í einhverjar einingar?

Í annan stað velti ég líka fyrir mér: Ef svo er að sú stofnun sem hér er um að ræða á að nálgast það að verða sem mest á viðskiptalegu sviði eins og slíkar stofnanir en hafa samt skattfrelsi og hægt verður að hafa algjörlega opin viðskipti um þessa eignarhluti, þá finnst mér svolítið horfið frá þeirri hugsun sem ég taldi að væri á bak við þessa lánastarfsemi til sveitarfélaganna, sem er að þjónusta á almannasviði og að veita sveitarfélögum sérstakan aðgang að fjármagni þegar þau hafa þurfa á því að halda. Ég held að þetta frumvarp þurfi að skoðast virkilega vel, hæstv. forseti, og að það sé ekki sjálfgefið að þetta geti gengið svona eftir eins og hæstv. ráðherra hefur lýst því.