133. löggjafarþing — 35. fundur,  24. nóv. 2006.

Flugmálastjórn Íslands.

390. mál
[15:51]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í athugasemdum við þetta lagafrumvarp, um breytingu á lögum um Flugmálastjórn Íslands, segir að hún sé m.a. afleiðing af þeirri ákvörðun eða samþykkt á Alþingi síðastliðið vor að skipta Flugmálastjórn upp og stofna hlutafélag um flugvallarekstur og flugleiðsöguþjónustu, nokkuð sem ég er enn meira sannfærður um nú en þá að sé röng ákvörðun, að fara út í einkavæðingu og markaðsvæðingu á þessum þáttum, flugvallarekstri og flugleiðsögu.

Verið er að leita eftir tekjugrunni fyrir þessa starfsemi og þá velti ég því fyrir mér í fyrsta lagi, hvort hæstv. ráðherra gæti greint aðeins frá því hver breytingin er en segir hér að verið sé að fella niður heimildir til skattlagningar sem áður voru inni. Í öðru lagi, hverjum er endanlega ætlað að greiða þann kostnað sem hér er verið að leggja til? Mér sýnist að það séu kannski fyrst og fremst flugrekstrarhafar og þeir sem eru með flugvelli og aðra starfsemi á vegum flugs og flugþjónustu. Hlýtur þá ekki kostnaðurinn að lenda endanlega á notendum flugsins, farþegum og öðrum? Erum við ekki bara að samþykkja eða opna fyrir aukna markaðsvæðingu og auknar gjaldtökuheimildir sem lenda endanlega á farþegunum og geta leitt til enn hærra verðs á þessari þjónustu og skerða þannig samkeppnishæfni hennar?