133. löggjafarþing — 36. fundur,  24. nóv. 2006.

umferðarlög.

381. mál
[16:59]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Baldursdóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um umferðarlög, nr. 50/1987. Meðflutningsmenn eru Pétur H. Blöndal og Þuríður Backman.

Breytingin sem mælt er fyrir felur í sér að í stað orðanna 17 ára í a-lið 2. mgr. 48. gr. laganna kemur 18 ára. Frumvarpið felur í sér að lögin taki gildi 1. júlí 2007. Ákvæði til bráðabirgða hljóðar þannig:

Þrátt fyrir ákvæði laga þessara skulu aldursmörk a-liðar 2. mgr. 48. gr. vera 17 ára og einn mánuður frá gildistöku laganna og gilda í tvo mánuði. Þessi aldursmörk skulu hækka um einn mánuð á tveggja mánaða fresti og gilda í tvo mánuði í senn uns 18 ára aldursmörkum er náð.

Ég mun útskýra þetta nánar í lok ræðu minnar.

Virðulegi forseti. Umræður um ökuleyfisaldur á Íslandi eru ekki nýjar af nálinni á Alþingi Íslendinga. Málið er sérstaklega skoðað í skýrslu dómsmálaráðherra frá árinu 2001. Með breytingu á umferðarlögum árið 2002 var ákveðið að fara þá leið að gefa út bráðabirgðaökuskírteini sem gildir í tvö ár, og fái handhafi slíks skírteinis ekki punkta vegna umferðarlagabrota samfellt í 12 mánuði er heimilt að gefa út fullnaðarökuskírteini. Með þessari breytingu var litið svo á að fyrsta árið með ökuskírteini væri eins konar reynslutími áður en fullnaðarskírteini væri fengið.

Undanfarin ár, virðulegi forseti, hafa ökumenn á aldrinum 17–18 ára átt hlut að mörgum umferðarslysum vegna glæfralegs aksturslags. Í kjölfar hrinu alvarlegra umferðarslysa, jafnvel banaslysa, hefjast gjarnan miklar umræður í samfélaginu um það með hvaða hætti hægt sé að sporna við þessari vá. Ýmsar hugmyndir hafa verið reifaðar og hefur ríkisstjórnin nú nýlega samþykkt frumvarp samgönguráðherra um breytingar á umferðarlögum sem allar miða að því að sporna við hraða- og ofsaakstri ungra ökumanna.

Það frumvarp, frú forseti, sem hér er mælt fyrir gengur lengra að því leytinu að í því felst að ökuréttindi fengi enginn fyrr en hann hefði náð að lágmarki 18 ára aldri. Hér er ekki spurning um hvort breyting sem þessi sé æskileg, heldur er það ábyrgð þeirra fullorðnu og Alþingis að láta einskis ófreistað til að forða börnum undir 18 ára aldri frá því að valda sjálfum sér og öðrum skaða.

Fjölmörg rök renna stoðum undir mikilvægi þessarar lagabreytingar. Hér skulu nefnd þau veigamestu sem varpa munu enn frekar ljósi á það af hverju 17 ára unglingur á ekki erindi undir stýri.

Að aka bifreið við misjafnar og oft erfiðar aðstæður, eins og þekktar eru hér á Íslandi, krefst ákveðins vitsmuna- og félagsþroska. Þess vegna er mikilvægt að hafa þroskasálfræði unglinga til hliðsjónar þegar fjallað er um hvenær unglingar hafa mögulega fyrst öðlast tilskilinn þroska til að stjórna ökutæki með þeirri ábyrgð sem því fylgir í umferðinni.

Vitað er að einstaklingar taka út mikinn hluta líkamlegs og andlegs þroska fyrstu 20 ár ævi sinnar. Hversu hratt viðkomandi fer í gegnum þroskaferilinn er bæði einstaklings- og kynjabundið, sem og aðstæðubundið. Enda þótt líkamlegur þroski ungmenna sé hvað sýnilegastur á þessum árum, tekur vitsmuna- og félagsþroski unglingsins stöðugum breytingum og munar mikið um hvert ár sem nær dregur fullorðinsárunum. Ef litið er nánar á þennan aldur er það almenn vitneskja að meðal einkenna unglingsáranna sé ákveðin tilhneiging — ég segi ákveðin tilhneiging — til áhættuhegðunar, áhrifagirni og hvatvísi. Unglingar hafa ekki öðlast nema takmarkaða almenna lífsreynslu og hafa ekki heldur þann vitsmuna- og félagsþroska sem þarf til að geta lagt raunhæft mat á flókin ytri áreiti og aðstæður. Upplifun þeirra og skynjun á hættum í umhverfi sínu er oftast nær frábrugðin skynjun og upplifun fullþroska einstaklings. Önnur og ég vil segja ekki óalgeng einkenni þessa aldursskeiðs er óttaleysi, margir unglingar skynja hvorki mikilvægi þess að vera varkár né mikilvægi þess að hugsa gaumgæfilega áður en framkvæmt er. Sökum þroska- og reynsluleysis sjá margir á þessu aldursskeiði ekki tengsl orsakar og afleiðingar nógu skýrt.

Annað ekki óþekkt einkenni þessa aldursskeiðs, frú forseti, er að unglingar upplifa gjarnan að ekkert illt geti hent þá. Þeir líta jafnvel léttvægum augum á atriði sem fullorðnir líta alvarlegum augum. Enda þótt foreldrar og aðrir fullorðnir sem umgangast unglingana geri sitt besta til að uppfræða og vara þá við ófyrirsjáanlegum hættum og mikilvægi þess að gæta að sér ná viðvörunarorðin því miður ekki alltaf eyrum þeirra. Staðreyndin er sú að því nær sem dregur fullorðinsárum dregur úr þessi einkennum. Dómgreind dýpkar, innsæi eykst og einstaklingurinn verður hæfari með hverju ári sem líður til að setja sig í spor annarra, meta aðstæður, gera áætlanir og sjá fyrir möguleg orsakatengsl.

Víkjum nú ögn nánar að félagsþroska þessa aldursskeiðs en ítrekað hefur verið sýnt fram á með sálfræði- og félagslegum rannsóknum að því eldri sem unglingurinn verður því minni líkur eru á að hann láti undan félagaþrýstingi eða hafi yfir höfuð þörf fyrir að sýna sig fyrir félögum sínum. Út frá sjónarmiðum þroskasálfræðinnar er því auðvelt að leiða líkum að því að 18 ára unglingar séu mun hæfari til að taka ábyrgð á sér og sínu lífi en þegar þeir voru 17 ára. Hvert ár á þessu tímaskeiði, frú forseti, getur þannig skipt sköpum hvað varðar nauðsynlegan þroska til að geta tekið þá lágmarksábyrgð sem stjórnun ökutækis í umferðinni krefst.

Önnur veigamikil rök sem styðja frumvarp þetta er sú staðreynd að börn eru í samfélagi okkar skilgreind sem börn þar til þau hafa náð 18 ára aldri. Árið 1997 voru samþykkt lög á hinu háa Alþingi sem kveða á um að ungt fólk fái hvorki sjálfræði né fjárræði fyrr en 18 ára. Árum saman hafði viðmiðið verið 16 ár. Sú breyting að hækka sjálfræðisaldurinn úr 16 árum í 18 var ekki gerð út í bláinn, heldur af því að Alþingi taldi það nauðsynlegt hagsmunum barna og unglinga. Breytingin var gerð svo að fullorðnir gætu haldið verndarhendi yfir börnunum þar til að álitið var að þau gætu byrjað að axla sjálfsábyrgð. Þess vegna skýtur skökku við að unnt sé að fela 17 ára barni — já, ég segi barni — þá ábyrgð að aka bifreið þegar það getur hvorki tekið sjálfstæða ákvörðun um að festa kaup á ökutæki né hefur það rétt til að ráðstafa eigin fé. Okkur ber að létta þessari ábyrgð af unglingunum og forða á sama tíma mörgum þeirra frá því að skaða sjálfa sig og aðra með því að stjórna ökutæki áður en þau hafa náð tilskildum þroska.

Frú forseti. Enda þótt þetta mál sé að mínu mati og fjölmargra annarra lífsspursmál skal áréttað að hér er ekki verið að dæma alla unga ökumenn sem ábyrgðarlausa. Því fer fjarri. Þótt tilhlökkun sé mikil eftir að fá ökuréttindi eru margir nýir bílprófshafar fullir kvíða þegar þeir fara í sínar fyrstu ökuferðir. Þeir gera sér far um að sýna fyllstu aðgætni og eru sérstaklega varkárir fyrstu mánuðina í umferðinni meðan þeir eru að þjálfa aksturshæfni sína og átta sig á aðstæðum. Með því að hækka lágmarksaldurinn í 18 ár má auðveldlega leiða líkum að því að þessi „upphafsvarkárni“ færist einnig upp um eitt ár.

Frú forseti. Það er nokkuð ljóst að ekki munu allir taka frumvarpi þessu fagnandi. Þau ungmenni sem nú nálgast 17 ára afmælisdag sinn og hafa ákveðið að taka bílpróf strax þegar þeim áfanga er náð eru ef til vill uggandi. Eins má reikna með að heyra óánægjuraddir frá landsbyggðarfólki sem komið hefur með þau mótrök að verði frumvarp þetta að lögum muni það valda unglingum og fjölskyldum þeirra á landsbyggðinni miklum óþægindum. Þar eru aðstæður með öðrum hætti, vegalengdir stundum meiri og samgöngumöguleikar færri. Ég vil ekki, frú forseti, gera lítið úr þessum rökum og ég get vel skilið þessi sjónarmið. En hvort er veigameira, þægindi eða mannslíf? Við vitum að slysin eiga sér stað og munu því miður halda áfram að eiga sér stað. Hversu mörg og hversu alvarleg vitum við ekki en verði þetta frumvarp að lögum sem leiða mun til þess að koma í veg fyrir þótt ekki væri nema eitt bílslys af völdum 17 ára ungmennis er tilgangi þeirra náð.

Eins og sést, frú forseti, hvernig sem á málið er litið, hvort sem með þessari umræðu eða annarri sem hefur að gera með velferð og heilsu barna og unglinga undir 18 ára aldri, er það skylda okkar að hafa vit fyrir þeim og búa þeim aðstæður sem eru best til þess fallnar að vernda þau sem og aðra vegfarendur í umferðinni. Verði frumvarp þetta að lögum mun heilum árgangi verða forðað frá því að geta slasast eða látið lífið undir stýri eða verða fyrir þeirri ógæfu að aðrir slasist eða látist í umferðinni af þeirra völdum.

Frú forseti. Eins og ég gat um í upphafi er í bráðabirgðaákvæði þessa frumvarps gert ráð fyrir að aldursmörkin verði hækkuð í þrepum, þ.e. um einn mánuð á tveggja mánaða fresti. Með þessum hætti kemur þessi aðgerð mildilega til framkvæmda, enda engin sanngirni í því að unglingur sem verður 17 ára daginn eftir gildistöku laganna þurfi að bíða í heilt ár eftir að fá ökuskírteini. Að sama skapi yrði slæmt ef ökukennsla og sú sérþekking sem henni fylgir félli niður í nærri heilt ár. Markmið laganna mundi með þessu nást á tæpum tveimur árum. Til að útskýra þetta betur í lokin, frú forseti, er framkvæmdin með þeim hætti að þeir sem verða 17 ára þann mánuð sem lögin taka fyrst gildi og næsta mánuð á eftir öðlast rétt til að taka bílpróf 17 ára og eins mánaðar. Þeir sem verða 17 ára næstu tvo mánuði þar á eftir öðlast bílprófsrétt 17 ára og tveggja mánaða og þannig áfram koll af kolli. Með þessari aðlögun er gert ráð fyrir að lögin taki að fullu gildi 1. maí 2009.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarp þetta verði að lokinni umfjöllun hér flutt til 2. umr.