133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

afbrigði um dagskrármál.

[11:08]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Eins og kom fram í máli þingflokksformanns Samfylkingarinnar mun Samfylkingin greiða fyrir því að þetta mál geti komið hér á dagskrá með afbrigðum. Það gerum við bæði til þess að reyna að liðka fyrir þingstörfum en við gerum það líka vegna þess að hér er auðvitað á ferðinni mál sem hefur áhrif á kjör fólks í landinu og það skiptir máli að vel sé að því staðið og það vel undirbúið.

Þar kem ég kannski að merg málsins. Hann var einmitt að finna í ræðu hv. þm. Péturs Blöndals sem réttilega benti á það að þetta hefði áhrif á fjárlögin. Hvar erum við stödd í þessu þinghaldi? Við erum stödd viku fyrir jólaleyfi þingsins og þá er komið hingað með stórt skattamál með afbrigðum, mál sem hefur áhrif á fjárlögin sem koma til 3. umr. í næstu viku. Skipulagið á starfi ríkisstjórnarinnar og þinghaldinu er auðvitað alveg fáránlegt, það sést í hnotskurn í þessu máli. Stórt skattamál kemur inn í þingið með afbrigðum, mál sem er viðurhlutamikið og þarf mikillar skoðunar við en hefur bein áhrif á fjárlögin sem eru að koma til lokaafgreiðslu núna fyrir jólaleyfi. Þessi vinnubrögð eru engu lagi lík.

Þingmeirihlutinn og ríkisstjórnin verður að bera ábyrgð á svona vinnulagi en við munum ekki setja hindrun í veg þess að þetta mál geti komið til umræðu í þinginu og farið inn í nefnd. Við vitum hins vegar auðvitað ekkert hverjar lyktir málsins verða síðan þegar það kemur til skoðunar í nefndinni. Það getur vel verið að þar þurfi miklu meiri vinnu við en svo að það takist að ljúka því á einni viku.