133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[16:43]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við erum hér við lokaumræðu um fjáraukalögin og hefur víða verið komið við. Ég hlýddi síðast á ræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar og hún var að mörgu leyti mjög merkileg. Hann fór ákaflega vel yfir menntamálin og ýmislegt í þeim málum og get ég þess vegna nánast algjörlega sleppt því að fjalla um menntamál í ræðu minni. Þeim hafa verið gerð mjög góð skil og ekki ástæða til að taka annan hálftíma í það af minni hálfu. Þar er búið að draga fram þær áherslur sem við þurfum að horfa til varðandi þróun menntamála hér á landi til framtíðar litið og þá stefnumótun og átak sem við munum vissulega þurfa að stefna að.

Það er hins vegar svoleiðis, hæstv. forseti, að stjórnarandstaðan hefur valið sér það sem forgangsmál við fjárlagavinnuna núna í haust að fylgja eftir stefnumótun sinni frá því í upphafi þings í velferðarmálum. Ég ætla í ræðu minni að byrja á að fjalla nokkuð um velferðarmálin í víðu samhengi og gera þeim nokkur skil við 3. umr. fjáraukalaga.

Hægt væri vissulega að leggjast í það að velta sér sérstaklega upp úr fjáraukalagaafgreiðslunni sem slíkri, en þar er líka búið að segja á skilmerkilegan hátt ýmislegt eins og það að sum atriði eigi ekkert endilega heima í fjáraukalögum en eigi að vera í fjárlögunum hverju sinni að því er varðar að ná utan um það sem menn telja að þurfi til til að standa við það að við getum verið með nokkurn veginn fyrirsjáanlegan rekstur á þeim stofnunum sem við ætlum okkur að reka og til að þær stofnanir nái að vinna þau verkefni sem við viljum að þær vinni og skili af sér án þess að það fylgi jafnframt með að stofnanir safni upp skuldum á milli ára sem ættu að okkar viti að vera nokkuð fyrirsjáanlegar.

Það er heldur ekki eðlilegt að við tökum ekki á því að stofnanir geti rekið sig án þess að beinlínis sé hægt að lesa það út úr afgreiðslu fjárlaga að slíkar stofnanir muni vera í fjáraukalögum ársins á eftir fyrir viðkomandi ár og síðan jafnvel að það ekki dugi til þannig að ekki sé tekið á þeim vanda sem til staðar er. Eða þá í annan stað að ríkisstjórnin hafi skýra stefnu um að viðkomandi stofnanir skuli skera niður starfsemi sína eða beita mjög miklu aðhaldi í starfsemi sinni. Forstöðumenn stofnana reyna að leysa verk sín af hendi og vafalaust hafa forstöðumenn og starfsfólk stofnananna sýn á það og stefnu hvert eðlilegt sé að stefna miðað við það sem sagt hefur verið undanfarin ár og þá aðstöðu sem fjárfest hefur verið í.

Áður en ég fer í að ræða almennt um velferðarmálin vil ég nefna eitt atriði sem snýr að svona máli en það er sjúkrahúsið á Akranesi. Mér finnst ástæða til þess, af því að ég lít svo á að sjúkrahúsið á Akranesi hafi verið ákaflega vel rekið á undanförnum árum og hafi að mörgu leyti sýnt framúrskarandi starf bæði í rekstri og þjónustu. Ég minnist þess að hæstv. forseti, sem nú situr í forsetastól, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, veitti sjúkrahússtofnuninni á Akranesi sérstök viðurkenningarverðlaun fyrir árangur í starfi og góða þjónustu. Ég held að allir hafi verið sammála um það þegar þau voru veitt. Stofnunin hefur hins vegar haldið áfram að reyna að bæta þjónustu sína og hefur leyst mörg verk ágætlega af hendi, hefur tekið virkan og öflugan þátt í að reyna að höggva á biðlista, t.d. hvað varðar liðskiptaaðgerðir, aukið afköst sín þar um 70 aðgerðir á þessu ári umfram það sem var. Það hlýtur að hafa dregið úr biðlistum, t.d. í Reykjavík hvað slíkar aðgerðir snertir, og auðvitað kostar það einhverja fjármuni að taka þannig til verka. Þarna erum við að nota aðstöðu og þekkingu sem er til staðar og væntanlega að hjálpast sameiginlega til við að létta á sjúkrahúsunum í Reykjavík við að vinna að aðgerðum er snerta liðskipti og minnka þar af leiðandi og stytta biðlista.

Á sjúkrahúsinu á Akranesi var aðstaða sængurkvenna einnig endurbætt nýlega, eftir því sem ég best veit, og aðstaða til fæðingarhjálpar og hefur fæðingum á þeirri stofnun fjölgað. Starfsemin hefur því aukist og ég hygg að menn hafi verið sammála um að þannig skyldi það gerast. En nú hagar svo til að stofnunin er rekin með halla. Menn komu frá stofnuninni og gerðu okkur grein fyrir því í fjárlaganefnd að þannig væri það og menn yrðu þá að taka afstöðu til þess hvort stofnunin gæti haldið áfram að bæta starfsemi sína eða a.m.k. að veita sömu þjónustu og hún veitir á þessu ári eða hvort stefna eigi að því að draga saman í starfseminni á næsta ári.

Því miður held ég að niðurstaðan sé sú, hæstv. forseti, að allar horfur séu á því að draga þurfi úr starfseminni á næsta ári að óbreyttum fjárveitingum. Held ég þó að aukið hafi verið í og muni koma fram í fjárlögum um 10 millj. kr., ef ég man rétt, og að hallinn sem var tæpar 40 milljónir muni enda í kannski 27 milljónum á næsta ári. Það er líka óásættanleg staða fyrir þá sem reka sjúkrahúsið og einnig fyrir okkur sem fjöllum um slíkar rekstrarhorfur og fjárveitingar, að horfa til þess að vita ekki hvort stofnunin getur haldið áfram að veita þá góðu þjónustu sem hún hefur veitt og hvort stofnunin getur aukið við hana, heldur standa frammi fyrir því nú, þegar komið hefur fram hallarekstur, m.a. vegna aukinna verkefna og aukinnar þjónustu, að stofnunin þurfi aftur að draga saman seglin og minnka starfsemi sem ef til vill mun draga úr þeirri þjónustu sem hefur verið vaxandi, því hún hefur verið aukin og bætt á undanförnum árum. Þetta er auðvitað afar bagalegt.

Víða er þörf í heilbrigðiskerfinu og víða er svo sem verið að veita fjármuni til heilbrigðisstofnana. Ég minni á sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítala – háskólasjúkrahús sem fær rúman milljarð í fjáraukanum. Það er svo sem sums staðar verið að bæta í. Þarna er að vísu aðeins bætt í en það dugar engan veginn til þess að hallinn sé tekinn það niður að menn standi ekki frammi fyrir einhvers konar aðhaldi eða niðurskurði. Vonandi tekst nú að lagfæra þá stöðu þannig að sjúkrahúsið geti að minnsta kosti veitt sambærilega þjónustu og það hefur veitt á þessu ári. Ég vænti þess, hæstv. forseti, að það verði kannski gert í fjárlögum fyrir næsta ár þó að hallinn fari að hluta til yfir áramót. Þetta vildi ég sagt hafa varðandi þetta atriði. Tek þetta svona sem dæmi um stofnun sem ég tel og held að sé vel rekin og ég held að við öll í fjárlaganefnd höfum ekki getað myndað okkur þá skoðun eftir viðtal við forstöðumenn stofnunarinnar og af þeim gögnum sem við fengum, að stofnunin sé illa rekin eða hafi ekki veitt góða þjónustu. Þetta er spurning um aukafjárveitingar eða samdrátt í starfsemi stofnunarinnar. Því verðum við í síðasta lagi að svara við lok afgreiðslu fjárlaganna fyrir næsta ár því að ekki er gert ráð fyrir að lagfæra stöðu stofnunarinnar í fjáraukanum að mínu viti til að stofnunin sjái til þess að hún hafi eðlilegan og góðan rekstur á næsta ári.

Það er náttúrlega leitt þegar stofnanir sem árum saman hafa verið reknar innan fjárlaga en hafa verið að auka þjónustu sína þurfa að draga úr henni. Það verður þá að liggja fyrir einhver stefnumótun um það í heilbrigðisráðuneytinu að þannig eigi það að vera, að menn vilji draga úr hjá viðkomandi stofnun. Ég fæ ekki alveg heim og saman rökin í því, því ég held að full þörf sé á þessum sérstöku þáttum sem sjúkrahúsið á Akranesi hefur verið að bæta sig í, annars vegar í liðskiptaaðgerðum og hins vegar í fæðingarhjálp. Þetta er spurning sem við stöndum frammi fyrir, hæstv. forseti, og eðlilegt að hún sé nefnd í þessari umræðu sem dæmi um að við horfum á vanda sem við ættum að taka á en gerum ekki og færum hann yfir áramót. Það getur þýtt að svo haldi áfram og menn verði jafnvel með þann vanda áfram á næsta ári inni í fjárlögum eða fjáraukalögum.

Ég sagði í upphafi ræðu minnar að ég ætlaði að ræða nokkuð um velferðarmálin að þessu sinni við lokaumræðu fjáraukalaganna. Ég hef, hæstv. forseti, og minn flokkur gengið út frá því í okkar pólitísku sýn að við vildum hafa öflugt og gott velferðarkerfi í landinu. Það væri markmið að hafa öflugt og gott velferðarkerfi. Þar af leiðandi hljótum við líka sem stjórnmálaafl að hafa svarað því, þar sem gott velferðarkerfi kostar fjármuni, að vildum tryggja það að velferðarkerfið gæti fengið þá fjármuni að hægt væri að veita góða og eðlilega þjónustu og að þeir sem þurfa á aðstoð að halda í velferðarkerfinu geti fengið hana og lifað af henni mannsæmandi lífi. Þeim spurningum hljótum við að hafa svarað jákvætt og við höfum gert það í Frjálslynda flokknum. Við viljum sem sagt gott og öflugt velferðarkerfi og við viljum sjá fyrir fjármagni til að hægt sé að standa þannig að málum að fólk geti haft eðlilega og góða velferð í lífi sínu og komist af.

Ég hef stundum orðað það svo að velferðarkerfið ætti að vera þannig upp byggt að enginn Íslendingur þyrfti á því að halda að ganga við betlistaf til að komast af og það held ég að sé markmið. Stjórnarandstaðan tók þá merku afstöðu á síðasta hausti að svara þeirri spurningu með jái að tryggingakerfi til framtíðar skuli vera þannig að það veiti fólki mannsæmandi líf.

Í samræmi við það lögðum við á liðnu hausti fram stefnumótun um það hvernig við teldum að þyrfti að stíga fyrsta skrefið varðandi lagfæringu á kjörum eldri borgara og öryrkja. Við lögðum fram sérstakar tillögur í því efni, þ.e. að strax yrði tekist á við verkefnið af þó nokkrum myndugleika 1. janúar næstkomandi. Við lögðum ýmsar tillögur fram sameiginlega fram í hv. Alþingi og við höfum svo fylgt þeim eftir við fjárlagaumræðu næsta árs. Við fluttum ákveðnar tillögur í fjárlögunum við 2. umr. um að auka þyrfti fjárveitingar inn í þessa liði, þ.e. tekjutryggingu aldraðra og öryrkja, að draga þyrfti úr skerðingarmörkum, opna frítekjumark upp að 75 þús. kr. o.s.frv., lagfæra vasapeninga, lagfæra greiðslur til fólks á stofnunum og afnema tekjutengingar og síðan að öryrkjar sem yrðu eldri borgarar við 67 ára aldur héldu sérstakri örorkuuppbót. Þetta var meginefni tillagna stjórnarandstöðunnar og er í samræmi við það sem ég sagði áðan, þ.e. að við viljum stefna til þess að þeir sem þurfa á því að halda að fá greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, hvort sem það eru eldri borgarar eða öryrkjar, komist af á tekjum sínum og til framtíðar verði síðan gert sérstakt átak í því að meta hvað einstakir lífeyrisþegar þurfa til framfærslu, þ.e. einhleypir, hjón, öryrkjar með mismunandi stöðu o.s.frv. Til framtíðar viljum við í stjórnarandstöðuflokkunum svara því að þangað viljum við stefna þegar þessari endurskipulagningu verður lokið — það getur auðvitað tekið einhver ár — þannig að allir sem ekki eiga möguleika á að afla sér tekna eða eiga tekjur annars staðar að úr þjóðfélaginu, t.d. í lífeyrissjóðum, séreignasjóðum eða fjármagnstekjur, geti komist af í kerfinu. Við höfum út af fyrir sig ekki sagt í stefnumótun okkar að við ætlum að fella niður allar tekjutengingar. En við höfum sagt: Tekjutengingarnar eins og þær eru í dag eru óeðlilegar. Þær eru 45%, þ.e. skerðingarreglurnar hjá Tryggingastofnun og við höfum lagt til í fyrsta skrefi að þær færu strax niður í 35%. Við höfum svo sem ekki tekið nákvæma afstöðu um hvaða skref við viljum stíga næst. En við höfum þó lýst því í greinargerð með tillögum okkar að það þyrfti að skoða sérstaklega lífeyristekjur fólks einnig með tilliti til þess að lífeyristekjur skertu ekki tryggingabætur. Við höfum einnig bent á að við slíka útfærslu til framtíðar væri mjög eðlilegt að útfæra það með þeim hætti að skerðingar væru ekki jafnbrattar og þær eru í dag, kæmu nánast að lífeyrisþegum á einhverri ákveðinni krónutölu og þar með hæfist skerðing upp á 45% eða 35% heldur væri hægt að útbúa regluna þannig að þegar skerðing ætti að koma til samkvæmt þeirri samsetningu sem menn vildu hafa þá hæfist hún á miklu lægri prósentutölu en 35 eða 45 eins og nú gildir. Við höfum bent á að þetta mætti taka í þrepum þegar lífeyrir eða atvinnutekjur væru orðnar yfir eitthvert ákveðið mark og þá kæmi skerðingin inn sem kannski 9% á tekur yfir 60 þúsund eða 70 þúsund eða 50 þúsund eða hvaða tölu sem menn setja þar inn og síðan kannski 18% á næstu 10 þús. kr. þar á eftir. Það væri þá ekki fyrr en menn væru komnir verulega upp í tekjum sem skerðingarnar væru farnar að ná þeim tölum sem hafa verið í gildi hér á landi á undanförnum árum.

Ég ætla ekki að rekja sögu tryggingakerfisins að þessu leyti. En hægt er að minna á að ekki eru mörg ár síðan skerðingarreglan var 67% í tryggingakerfinu. En þá var að vísu ákveðið frítekjumark. Það var svo fellt út og settur inn tekjutryggingarauki og sérstök heimilisuppbót í staðinn og út á þá framsetningu hafa menn haldið því fram að það væri sérstakt frítekjumark gagnvart tekjutryggingunni, þ.e. vegna þess að það þyrfti ákveðnar tekjur þegar menn væru búnir að eyða með skerðingarreglunni og komnir að tekjutryggingunni. Það er auðvitað hægt að kalla það frítekjumark á undan tekjutryggingu þegar búið er að eyða heimilisuppbót og sérstakri tekjutryggingu. En ég held að eldri borgurum og öryrkjum sem fá þessar samsettu lágmarksbætur Tryggingastofnunar finnist það ekki neitt sérstakt frítekjumark þegar þeir horfa fyrst á heimilisuppbótina hverfa og síðan á sérstöku tekjutrygginguna. Ég hef því aldrei skilið þessa röksemd sem hefur oft verið flutt af stjórnarliðum um sérstakt frítekjumark í tryggingakerfinu eins og það er, en því hefur stundum verið haldið fram að það væri þannig.

Hæstv. forseti. Tryggingakerfið er geysilega flókið og er í raun allt of flókið. Það stefnir vonandi í að við einföldum það með því að steypa saman tryggingaflokkum sem heita tekjutrygging og sérstök tekjutrygging eða tekjutryggingarauki í einn flokk sem heitir ný tekjutrygging. Í sumar var samið um sérstaka greiðslu til viðbótar fyrir þá sem lægstar hafa bæturnar upp á 15 þús. kr. og hefur það síðan verið fimmti bótaflokkurinn, þ.e. sérgreiðsla samkvæmt samkomulagi frá því í júlí, held ég hafi verið. En það fellur niður um næstu áramót þannig að eldri borgarar munu upplifa það að bótaflokkarnir í tryggingakerfinu verða þrír. Þeir verða gamli ellilífeyririnn sem núna er 24 þús. kr., hin nýja tekjutrygging sem við erum hér að leggja til að verði 85 þús. kr. í okkar tillögum og 86 þús. fyrir öryrkja, en ríkisstjórnin felldi þá tillögu við 2. umr. fjárlaganna. Þar af leiðandi, ef þeir ætla að halda sér við þá afstöðu við afgreiðslu fjárlaganna, mun þessi upphæð ekki verða 85 þús. heldur 78 þús. og einhverjar krónur eins og ríkisstjórnin hefur lagt til í sínum tillögupakka.

Við höfum lagt til 75 þús. kr. frítekjumark og að vasapeningar hækki um 50% eða um 11 þús. kr. rúmar og verði tæplega 34 þús. kr. Síðan var ég búinn að nefna aðrar tillögur sem ekki eru beinlínis krónutölutengdar, til dæmis niðurfellingu miðað við tekjur maka en það er auðvitað mjög breytilegt eftir því hvernig tekjuskiptingin er annars vegar milli lífeyrisþegans og hins vegar makans eða hvort báðir eru lífeyrisþegar eða makinn með háar eða lágar tekjur o.s.frv. Þetta kerfi er allt mjög flókið og ekki er undarlegt þó að eldri borgarar og öryrkjar eigi erfitt með að átta sig á útfærslu þessa kerfis. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að taka þetta kerfi til gagngerrar endurskoðunar og lagfæra og við teljum enga ástæðu til þess að bíða eftir því að stíga fyrstu markverðu skrefin. Þess vegna höfum við einmitt lagt til að þetta verði gert núna um áramót. Ég sagði áðan: Við viljum öflugt og gott velferðarkerfi og við vitum að gott velferðarkerfi kostar fjármuni. Stjórnarandstaðan er tilbúin að leggja þá fjármuni inn í þetta kerfi til þess að fólk geti lifað af því. Þess vegna höfum við lagt þetta til og það mun kosta ríkissjóðinn okkar 7,4 milljarða á næsta ári að uppfylla þessa tillögu. Við höfum einfaldlega sagt já við því. Þannig á það að vera. Sú er forgangsröðun stjórnarandstöðunnar í velferðarmálum að við göngum til þess leiks að taka 7,4 milljarða til viðbótar til að tryggja betri afkomu fólks sem þarf að lifa af lífeyrisbótum. Það er auðvitað sérstök stefnumótun í velferðarmálum og velferðarkerfinu og við gerum okkur vissulega grein fyrir því að þó að nokkuð vel ári hjá ríkissjóði nú meðal annars vegna þess að ríkissjóður hefur fengið það sem ég vil kalla mikið af eyðslufé í sína sjóði, þ.e. fé sem rennur inn í ríkissjóð vegna þess að eyðslan í þjóðfélaginu er mikil og spennan mikil, þá getum við engan veginn gert ráð fyrir því til framtíðar, hæstv. forseti, að þannig verði það um aldur og ævi. Þess vegna getum við á komandi árum þurft að fást við það að skattkerfið okkar þarf að bera uppi þann kostnaðarauka sem við leggjum til og við gerum okkur fyllilega grein fyrir því.

Hæstv. forseti. Ég hef sagt það í ræðu og riti og get endurtekið það hér að ef við sem höfum það gott og erum með miklar tekjur þurfum að greiða hærri skatta til að halda uppi eðlilegu velferðarkerfi og því velferðarkerfi sem við viljum sjá og stefna að þá segi ég bara já við því. Það er ekki flóknara en það. Ef það þarf hærri skatta til að hafa hér eðlilegt og gott velferðarkerfi þá hljótum við sem leggjum til breytingar að segja já við því ef það er nauðsynlegt. Hins vegar velur sér auðvitað hver ríkisstjórn á sínum tíma sín forgangsatriði og það er misjafnt hvernig menn leggja upp stefnu sína varðandi það hvernig þeir vilja ráðstafa fjármunum. Það er líka misjafnt hvernig ríkisstjórnir og stjórnmálaflokkar leggja upp sínar skattastefnur. Í því sambandi langar mig, hæstv. forseti, að víkja að því að alla vega við í Frjálslynda flokknum lögðum það til fyrir síðustu alþingiskosningar, miðað við að til væru þeir 16 milljarðar sem þá var veifað af ríkisstjórnarflokkunum sem væri auðvelt að nota til skattalækkana hjá launþegum, þ.e. ef þeir væru til og í hendi þá lögðum við til að þessir 16 milljarðar yrðu notaðir til að hækka persónuafsláttinn því það væri sú aðferð við skattalækkanir sem við vildum stefna til vegna þess að við töldum og teljum enn að það leiði til aukins jöfnuðar í þjóðfélaginu og lagi stöðu þeirra sem minna bera úr býtum og þar með eldri borgara og öryrkja og annars fólks sem hefur minni tekjur. Það hefði sem sagt híft upp betur rauntekjur þessara hópa heldur en skattastefna ríkisstjórnarinnar og forgangsröðunin í henni.

En við höfum ekki ráðið stefnunni í skattamálum. Það hefur ríkisstjórnin gert og hún hefur valið allt aðrar áherslur. Fyrsta áhersla ríkisstjórnarinnar var sú að velja það að leggja algerlega niður hátekjuskatt, bara leggja hann algerlega niður. Nú geta menn deilt um það hvort hátekjuskattur eigi að vera 7%, 5% eða einhver önnur tala og menn geta líka deilt um það hvort það séu hátekjur að vera með 400 þús. kr. á mánuði, 500 þús. kr. eða 600 þús. kr. En stefnumótun ríkisstjórnarinnar um að setja þetta í forgang og fella niður hátekjuskattsþrepin í áföngum á nokkrum árum er auðvitað stefnumótun um að þeir sem hafa hæstu tekjurnar í þjóðfélaginu eigi að borga minna eftir skattbreytingarinnar heldur en áður var — svo einfalt er það — því að lágtekjufólkið var ekki að borga hátekjuskatt. Þetta gera menn á sama tíma og misvægið eykst í þjóðfélaginu og það dregur í sundur, þ.e. hér verða til mikil hálaunastörf og launaþróun hjá fólki sem hefur sjálftöku í launum gengur í allt aðra hátt en hinna sem eru á almennum vinnumarkaði. Það hefði varla skaðað milljónkrónumanninn þó hann hefði borgað 5% hátekjuskatt. Það hefði varla sett hann á hliðina. Ef það hefði hins vegar orðið til þess að við efldum velferðarkerfið frekar þá hefði ég sagt já við því, þ.e. ef spurningin snerist eingöngu um þann valkost.

Næsta skref ríkisstjórnarinnar var að fara í flata prósentulækkun í skatti í stað þess að fara persónuafsláttarleiðina og það hefur verið stefna ríkisstjórnarinnar allt þetta kjörtímabil. ASÍ knúði hins vegar ríkisstjórnina til að breyta 1% af þessum 4% sem hún ætlaði að lækka skattana með niður í það að færa það 1% og fjármuni sem þar voru yfir í það að hækka persónuafsláttinn og þar með skattleysismörkin. Það mun sennilega duga til þess að skattleysismörkin fara á næsta ári úr 78–79 þús. kr. sem þau eru í dag rétt upp fyrir 90 þús. kr. Um það munar fyrir þá sem eru með 110–130 þús kr. í tekjur eða þaðan af minna. Það munar um það. Það hefði verið ákaflega auðvelt hæstv. forseti að marka þá stefnu á sínum tíma, úr því að svona miklir fjármunir voru til, 16 milljarðar til að setja í lækkun tekjuskattanna, þ.e. að fara þá leið að setja meiri hluta þess inn í persónuafsláttinn og þar með koma skattleysismörkunum yfir 100 þús. kr. og meira að segja þó nokkuð yfir þær. En það var ekki gert vegna þess að það er jú ríkisstjórnin sem ræður för og keyrir fram sína stefnu.

Þó að þess sé einstöku sinnum saknað, m.a. síðast í umræðu um fjárlögin við 2. umr., að stjórnarandstaðan hafi flutt fáar tillögur til breytinga þá var það nú samt svo, hæstv. forseti, að á síðasta ári fluttum við 42 tillögur og þær voru allar felldar, hver einasta. Núna fluttum við þrjár og þær voru felldar en þær sneru eingöngu að velferðarmálum sem ég hef gert að meginefni í ræðu minni.

Hæstv. forseti. Það hefur verið venja við afgreiðslu fjárlaga og stefnumótun ríkisstjórnar á undanförnum árum, að ekki hefur verið tekið mikið tillit til tillagna stjórnarandstöðunnar hvort sem það hefur verið í velferðarmálum, skattamálum eða öðrum málum. Þess vegna þarf viðhorfsbreytingu við stjórn landsins ef vera á breyting á þeirri stefnu. Þá viðhorfsbreytingu er sennilega eingöngu hægt að knýja fram með því að fólk kjósi öðruvísi í næstu kosningum í maí í vor en það hefur gert undanfarin ár og felli þá sem hafa setið við völd á undanförnum árum. Mér virðist, hæstv. forseti, að þannig þurfi hlutirnir að ganga fram og vænti þess að kjósendur fari að velta því fyrir sér í alvöru með hvaða hætti þeir ætla að ná fram breyttum áherslum við stefnumótun, m.a. í velferðar- og skattamálum hér á landi.

Hæstv. forseti. Við viljum vissulega gera margt í þjóðfélagi okkar en við höfum misjafna sýn á hvað við viljum setja í forgang og þannig er það. Við í Frjálslynda flokknum höfum þá sýn t.d. að við viljum gott og öruggt samgöngukerfi. Það greinir sjálfsagt enga þingmenn á um að vilja það en menn hafa þó mismunandi sýn á það hvað teljist helst til bóta við samgöngubætur. Þá er ég að tala um það sem ég kalla varanlegar samgöngubætur sem duga okkur til markverðra áfanga inn í framtíðina, bæði í því að stytta vegalengdir milli svæða og landshluta og einnig til að auka umferðaröryggi. Þá hljótum við að spyrja okkur, hv. þingmenn: Hver hefur reynslan verið? Hvað er það sem hefur verið að færa okkur aukið öryggi í umferðinni á undanförnum árum? Hvað er það sem hefur verið að stytta flutningstíma eða ferðatíma fólks um landið og um leið veitt fólki aukið öryggi?

Við í Frjálslynda flokknum höfum svarað því á ákveðinn hátt. Við höfum búið til ályktun um það sem við höfum flutt í hv. þingi að við teldum að til framtíðar ætti að horfa til þess að fara undir þau fjöll sem við þurfum að fara undir, þar sem erfiðustu fjallvegirnir eru, í stað þess að vera að gera vegi yfir fjöll. Við höfum einnig svarað því að stytta ætti vegalengdir þar sem mögulegt er, m.a. með því að fara yfir firði þar sem því yrði við komið, enda eðlilega þá staðið að vegagerð og öðru slíku með tilliti til náttúrunnar en ekki að lengja leiðir, t.d. með því að teygja sig fyrir fjarðarbotna og fara yfir fjöll og hálsa.

Við höfum sagt að hægt sé að auka mikið umferðaröryggi með því að gera verulegar endurbætur á gatnakerfi, m.a. út frá Reykjavík og höfum minnst á Sundabraut í því sambandi. Við bentum á Reykjanesbraut á sínum tíma sem núna hillir undir að verði með tvær akreinar í hvora átt og aðskildar akstursleiðir. Við höfum bent á Vesturlandsveg og Suðurlandsveg en þetta eru þær tvær leiðir sem mestur umferðarþunginn er á.

Ég held að þingmenn greini ekkert endilega á um þetta en það spurning um hvernig menn vilja raða þessu upp í forgangsröð. Ég get sagt það fyrir mína parta að ég vil frekar keyra eitt ár á malarkafla og fá varanlega lausn en að fara einhverja leið sem dugar ekki til þess að veita það umferðaröryggi eða samgönguöryggi sem sóst er eftir. Við getum bara velt þessu upp með nokkrum dæmum.

Hvalfjarðargöng. Ég hygg að ekkert dauðaslys hafi verið í Hvalfjarðargöngum. Ég hygg líka að áður en þau komu hafi það verið árvisst að fólk dó í umferð í Hvalfirði, við að aka fyrir Hvalfjörð.

Vestfjarðagöng. Sama sagan þar, ekkert slys, sem betur fer, sem telst alvarlegt eða dauðaslys. Meðan við þurftum að fara yfir fjöllin dó fólk við að komast þær leiðir.

Ég held að við verðum að horfa á þessi atriði, hæstv. forseti, en þau kosta fjármuni og þau kosta að við setjum fjármunina á ákveðna stefnu og að saman fari stefnumótun okkar varðandi fjárlög og fjáraukalög hvers árs og hvert við viljum stefna.

Í tillögu Frjálslynda flokksins er talað um að við þurfum að gera sennilega ein 14 jarðgöng til viðbótar á Íslandi til að koma öllum leiðum sem núna eru yfir fjallvegi á láglendisvegi undir 200 metra hæð yfir sjó og ná þar með fram miklu umferðaröryggi og mikilli styttingu veganna. Ef það kostar 700 milljónir að gera hvern kílómetra í jarðgöngum og ef kílómetrarnir eru um 60 þá eru það 42 milljarðar sem þarf í slíka áætlun. Þá er spurning: Hvað ætla menn að gera þetta á mörgum árum og hvað þarf að tryggja mikla forgangsröðun fjármuna í það? Þetta held ég að menn eigi að gera og vonandi verður tekist á við það í nýrri samgönguáætlun að svara svona grundvallarspurningum varðandi stefnumótun okkar til framtíðar. Það getur ekki verið, hæstv. forseti, að við Íslendingar þurfum alltaf að finna upp hjólið. Nánast allar þjóðir sem búa í fjöllóttu landslagi — og nægir þá að nefna þá sem næstir okkur eru, Færeyinga, Norðmenn — hafa leyst samgöngur sínar með því að gera jarðgöng, og þannig er það auðvitað víða annars staðar í fjöllóttu landslagi. Það er sú aðferð sem hefur dugað til til að leysa samgöngubætur þjóðvegakerfisins.

Ég hvet því til þess, hæstv. forseti, að til framtíðar horfum við til þess og stýrum saman fjárlögum og fjáraukalögum hvers árs miðað við það hvaða markverðar framkvæmdir og raunhæfar umbætur út frá öryggisþætti og umferðarþætti við viljum gera í samgöngumálum og tengjum saman fjárlög og fjárlagagerð og samgönguáætlanir að þessu leyti.

Það hefur verið svo á undanförnum árum, hæstv. forseti, að í fjárlögum, sérstaklega á kosningaári, hafa stundum verið markaðar miklar tekjur til að setja í samgöngubætur. Það hefur hins vegar verið þannig að þegar frá kosningaárinu líður hefur dregið úr fjárveitingunum og hægt á framkvæmdum. Síðan er aftur gefið í á næsta kosningaári. Þetta eru ekki mjög markviss vinnubrögð, hæstv. forseti, og þau þarfnast endurskoðunar við og menn eiga að ræða þá stöðu eins og hún er.

Það er kannski tvennt, hæstv. forseti, tvö stutt dæmi sem ég vil ræða um varðandi fjárlög og samgöngur, sem eru nokkuð nálægt okkur í tíma. Reyndar er annað dæmið þannig að það er skollið á og veldur því að samgöngur eru ekki eðlilegar og það er ferjuhöfnin á Brjánslæk. Keypt var ný ferja til að sigla yfir Breiðafjörð sem var mun stærra skip en það sem fyrir var. Það þarf öðruvísi aðstöðu eða aukna aðstöðu á höfninni á Brjánslæk til að komast þar upp að í flestum eðlilegum veðrum. Þetta sáu menn nánast strax og skipið fór að sigla frá Stykkishólmi til Brjánslækjar. En þetta eru þær vetrarsamgöngur, stundum þær einu sem fólkið í Vesturbyggð og á Tálknafirði þarf að búa við til að komast inn á suðvesturhorn landsins, því að fjallvegurinn sem lagður var yfir Klettháls er náttúrlega háður þeim náttúrutakmörkunum sem þar hafa verið í þúsund ár og breyttust ekkert við nýjan veg. Þar gerir alltaf vitlaust veður þegar gerir vont veður og alveg sérstakur forgangur að það verður alltaf snælduvitlaust veður á Kletthálsi, hvort sem hann blæs að norðaustan, austan eða sunnan og suðvestan. Þannig er það bara og þetta vissu menn auðvitað fyrir og hefði átt að fara undir Kletthálsinn einum hjalla neðar og fara þar með göng í gegn frekar en að gera þann veg sem gerður var, því að hann veitir ekki það umferðaröryggi sem sóst var eftir. Þetta var mönnum bent á, m.a. af þeim sem hér stendur sem flutti um þetta sérstakar tillögur hér á þingi og ræddi um þetta við vegagerðamenn þegar að þessu var stefnt. Því miður var ekki hlustað á þetta og ekki var heldur hlustað á heimamenn sem þekktu þetta svæði og þennan fjallveg. Þess vegna sitja menn enn þá uppi með það að í vondum veðrum, á splunkunýjum uppbyggðum vegi yfir Klettháls er hann kolófær, oft með fyrstu vegum sem verður ófær. Þetta áttu allir að geta vitað. Þannig er nú það, hæstv. forseti.

Núna sitjum við sem sagt uppi með það að ferjuhöfnin á Brjánslæk getur ekki tekið við þessu skipi með fullkomnu öryggi þegar eitthvað er að veðri vegna þess að skipið er stærra en fyrra skip og höfnin hefur ekkert breyst. Vinda þarf bráðan bug að því, hæstv. forseti, að lagfæra höfnina ef fullt gagn á að verða að þeim samgöngum sem fást með ferjusiglingum yfir Breiðafjörð. Fólk þarf auðvitað að geta treyst á þetta að vetrarlagi í flestöllum veðrum þó að komi stundum þannig veður að ekki sé hundi út sigandi hvað þá heldur fólki. Þá ferðast menn náttúrlega ekki hvort sem er á bílum eða skipum. En að öllu öðru leyti þarf þetta að vera þannig að menn geti treyst á samgöngurnar.

Á þessu þarf að taka, hæstv. forseti, og væntanlega og vonandi verður það gert því að nú er einmitt komin upp sú staða sem m.a. sá sem hér stendur varaði við á fjórðungsþingi Vestfirðinga í haust, að ef ekkert yrði að gert mundi það gerast í fyrstu veðrum að siglingar féllu niður. Hver maður sæi það í hendi sinni sem væri búinn að reyna kannski einu sinni, tvisvar að komast norður yfir Breiðafjörð og væri snúið við rétt við hafnargarðinn vegna þess að þar væri ekki fært að, að menn legðu ekki oft í slíkar ferðir. Það er engin sérstök skemmtisigling að sigla yfir Breiðafjörð í vondum veðrum og menn sækjast ekkert sérstaklega eftir þeim viðsnúningi að sigla í sex tíma sem ferðin tekur fram og til baka. Slíkt fyrirkomulag gerir það að verkum að ef óöryggið í ferðatíðninni er slíkt að fólk geti ekki treyst á það mun bara draga úr því að menn sækist eftir að fara með ferjunni. Þá munu menn reyna frekar að brjótast eftir þjóðvegunum og þá kannski stundum við aðstæður sem eru ekki til þess fallnar og geta kallað á slys, hæstv. forseti, það hljóta allir að gera sér ljóst.

Síðan er eitt atriði að lokum, hæstv. forseti, sem ég vil tengja samgöngumálum en er líka öryggisatriði fyrir fólk á Íslandi. Það er svokölluð norðaustur-suðvesturbraut á flugvellinum í Reykjavík og gagnast helst þegar er erfiður útsynningur, en til stendur að loka þeirri braut og það verður sjálfsagt gert.

Í Keflavík er einnig norðaustur-suðvesturbraut og henni var lokað fyrir nokkrum árum. Ef það reynist svo að menn ætli að loka suðvestur-norðausturbrautinni á flugvellinum í Reykjavík þarf að opna brautina á Keflavíkurflugvelli þannig að það sé neyðarbraut þegar veðuraðstæður eru með þeim hætti sem ég lýsti og þegar sérstaklega þarf á slíkri braut að halda sem hefur þessa stefnu, norðaustur/suðvestur, til að flugvélar geti lent. Þetta þurfa menn að skoða og hugsa sérstaklega fyrir næsta ár og taka það inn í fjárlagafrumvarp næsta árs og gera áætlanir um hvar slík öryggisbraut á að vera til staðar. Hún verður að vera til staðar á öðrum hvorum staðnum, upp á annað er vart bjóðandi, hæstv. forseti.

Hæstv. forseti. Ég ætla að láta staðar numið í máli mínu og vænti þess að menn horfi til þess sem ég hef verið að segja.