133. löggjafarþing — 38. fundur,  30. nóv. 2006.

ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf.

376. mál
[19:45]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Við höldum áfram umræðu um breytingar á lögum um ráðstöfun á söluandvirði Símans. Nokkur ástæða er til að ræða um þau málefni sem hér eru sett fram að gerðar verði breytingar á.

Nokkur umræða hefur orðið um vegamálin í tengslum við frumvarpið og þau undarlegu vinnubrögð sem hafa viðgengist hér árum saman í vegamálum. Við sem höfum fylgst með þeim málum í gegnum tíðina í valdatíð þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr höfum séð alveg ótrúlegar æfingar og breytingar á fyrirætlunum í vegamálum í gegnum árin. Núna síðast var ákveðið að hægja á, ekki bara að hægja á, heldur stöðva framkvæmdir í vegamálum. Þetta var gert á síðasta ári. Miklar umræður urðu í Norðvesturkjördæmi um þær ákvarðanir og hvaða rök væru fyrir þeim og hvaða áhrif yrðu af þeim ákvörðunum sem ríkisstjórnin tók.

Stjórnarþingmenn Norðvesturkjördæmis og hæstv. ráðherra héldu því fram alveg hiklaust í umræðum og samtölum við þingmenn og aðra, sem vildu vita hvaða áhrif yrðu af þessu, að þetta mundi ekki breyta neinu hvað varðaði framkvæmdir í Norðvesturkjördæmi. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson orðaði það einhvern veginn þannig að framkvæmdir í Norðvesturkjördæmi mundu ekki tefjast um einn einasta dag vegna þeirra ákvarðana. Nú kemur frumvarp og það er þannig orðað í athugasemdum með frumvarpinu, með leyfi hæstv. forseta:

„Í tengslum við fjárlagagerð fyrir árið 2007 ákvað ríkisstjórnin í ágúst 2006 að fresta framkvæmdum á árinu 2007 umfram það sem áður hafði verið ákveðið. Breytingar í frumvarpinu eru í samræmi við þær ákvarðanir ríkisstjórnarinnar og einnig við ákvæði frumvarps til fjárlaga 2007 og frumvarps til fjáraukalaga 2006.“

Ég nefni þetta vegna þess að hér er sérstaklega fjallað um Tröllatunguveg, um Arnkötludal, og þar er skorið niður vegafé til þess verkefnis um helming á árinu 2007 og þeir fjármunir fluttir yfir á árið 2008. Það hlýtur að vekja upp spurningar um hvernig staðið verði að því máli. Ég verð að viðurkenna að mér finnst ástæða til að hafa af því áhyggjur að ekki verði staðið að málum eins og lofað var. Talað var um að bjóða þetta verkefni út strax upp úr áramótum og framkvæmdum mundi ljúka á árinu 2008. Nú er ákveðið að einungis skuli vera 200 milljónir í stað 400 milljóna til verkefnisins á árinu 2007, en meiri fjármunir á árinu 2008 og lok verkefnisins verði áfram eins og ákveðið hafði verið.

Maður hlýtur að spyrja. Hvernig stendur á þessum æfingum með fjármagn til vegalagningar þarna? Ég held að skilja verði þetta þannig að þarna séu menn í raun að viðurkenna það sem staðreynd að þetta verkefni mun frestast, það muni dragast. Þess vegna er ástæða til að halda að það sé ekki endilega heldur að marka það sem verið er að halda fram, að verklokin muni ekki dragast. Mér finnst mjög slæmt að svona skuli vera staðið að málum.

Þá er um það að ræða líka að verið er að leggja til breytingar á fjármunum til fjarskiptamála. Ég sé ástæðu til að spyrja eftir því hvernig stendur á þeim flutningi fjármagns á milli áranna 2007 og 2006, 500 millj. kr. Nú erum við á þeim tímapunkti að 1. desember er á morgun. Það er ekki líklegt að hægt sé að gera mikið í fjarskiptamálum á þeim tíma sem eftir lifir af árinu. Og erfitt að sjá fyrir sér að hægt sé að ráðstafa hálfum milljarði á þeim tíma.

Ég held að kalla verði eftir svörum hæstv. ráðherra samgöngumála um hvernig á þessu standi. Hvaða framkvæmdir það séu sem þarna eigi að koma til sem hægt er ljúka. Hvaða fjárfestingar eru það sem hægt er að taka ákvarðanir um núna á þeim tíma sem eftir lifir af þessu ári? Allt ber þetta vott um að menn hafi staðið illa að skipulagningu verkefna og full ástæða er til að fá fram hvað hefur verið að gerast.

Hæstv. samgönguráðherra nefndi það sem hann hefur reyndar verið að nefna á undanförnum dögum, að nú standi til stórátak í vegagerð. Það er eins og maður kannist við það orðalag frá fyrri dögum. Það hefur nefnilega verið blásið til stórátaks í vegagerð við upphaf hvers einasta kjörtímabils á undanförnum árum. En jafnoft hefur ákvörðun verið tekin um að skera niður fjármagn til vegagerðar í framhaldi af því að ríkisstjórn hefur sest að völdum og þá hefur verið tekið til hendinni við að breyta þeim áætlunum sem fyrir hafa legið.

Hæstv. ráðherra sagði áðan í ræðu sinni að það hefði verið hárrétt að hægja á, eins og hann kallaði það. Reyndar var ekki tekin ákvörðun um að hægja á neinu. Tekin var ákvörðun um að stöðva útboð á nýjum verkefnum. Eins og ég sagði áðan var málum lýst þannig fyrir okkur þingmönnum í Norðvesturkjördæmi að það hefði engin áhrif á fyrirhugaðar framkvæmdir þar. Hér er verið að staðfesta að það hefur að minnsta kosti áhrif á þennan veg, um Arnkötludal, sem ég var að tala um.

Það hlýtur líka að vekja athygli þegar skorið er niður svo gríðarlega mikið fjármagn til Sundabrautar eins og raun ber vitni. Því að á árinu 2007 var meiningin að í það verkefni færu 2,5 milljarðar (Gripið fram í.) — 1,5 milljarðar voru ætlaðir í það verkefni, ég biðst afsökunar á mismæli mínu. En nú er meiningin að einungis 100 millj. kr. verði til þess verkefnis á næsta ári.

Skýringin á því er sú að ekki sé búið að undirbúa framkvæmdir þar með þeim hætti að hægt sé að nýta þessa fjármuni. Gott og vel. Á því skal auðvitað tekið mark. En á maður þá líka að taka mark á því að hægt sé í stað þess að nýta 2,5 milljarða á árinu 2008 í framkvæmdir þarna, að þá sé hægt að nýta þar 3,9 milljarða? Það sé bara hægt að flytja þessa fjármuni þarna á milli ára og það passi þá að bæta því við sem ekki er hægt að nýta á næsta ári yfir í það þarnæsta.

Ég verð að segja eins og er að ákveðin tortryggni vaknar gagnvart því að þarna séu í raun enn ein röng skilaboðin á ferðinni hvað þessi verkefni varðar.

Þetta eru málefni sem hafa verið og verða ævinlega til mikillar umræðu á Alþingi. Auðvitað hafa menn mikinn áhuga á samgöngumálum og að samgöngur í landinu komist í viðunandi horf. Að fólkið úti á landsbyggðinni fái möguleika til að komast á milli byggðarlaga og um landið með eðlilegum hætti. Upp á það vantar æðimikið víða. Það hefur orðið mönnum mikil vonbrigði á undanförnum árum hversu hægt þetta hefur gengið, að koma vegakerfinu í viðunandi horf.

Það sem er svo ef til vill enn verra er að það sem menn hafa haft fyrir sið á undanförnum árum að lýsa sem miklum afrekum í vegamálum, þ.e. þeim framkvæmdum sem þó hafa verið gerðar, að á undanförnum árum hefur verið að koma í ljós að þarfirnar fyrir auknar framkvæmdir hafa aukist miklu hraðar en framkvæmdirnar, sem þó hafa verið gerðar, vega upp á móti.

Ég hygg að við stöndum verr núna hvað vegakerfið varðar og þær kröfur sem eðlilegt er að gera til þess heldur en við höfum gert á undanförnum árum. Svo mikil hefur aukning umferðar orðið. Svo mikil hefur aukning þungaflutninga orðið í landinu að við höfum ekki haft undan.

Ég held að það væri ráð að hæstv. samgönguráðherra hætti að halda hinar stóru ræður um afrekin í vegamálum úr því hann er enn einu sinni kominn fram á sjónarsviðið með að tala um stórátak í vegamálum. Þörfin fyrir þetta stóra átak í vegamálum, eftir öll hin stóru átökin í vegamálum sem hæstv. ráðherra hefur lýst á undanförnum árum, segir okkur það að menn hafa ekki haft undan þörfinni sem hefur verið að myndast á nýjum framkvæmdum og betra viðhaldi á vegum landsins.

Það má líkja hæstv. samgönguráðherra að öðru leyti við ökumann sem ýmist gefur bensínið í botn eða snarbremsar. Það er ekki gott ökulag og slíkir menn eru teknir úr umferðinni í okkar landi ef þeir haga sér þannig að hætta skapast. Ég tel að veruleg hætta hafi skapast. Hún hefur komið niður á byggðarlögunum í landinu. Hún hefur komið niður þar. Auðvitað eru allir sammála um að vegamálin skipti mestu þegar menn velta fyrir sér hvernig hægt er að tryggja byggð í landinu. Það óöryggi sem fólk býr við gagnvart vegamálum í landinu, gagnvart framkvæmdum í vegamálum, að menn geta ekki treyst loforðum um endurbætur í vegamálum, það er hættulegt og það hefur valdið óöryggi fólks á landsbyggðinni og landflótta. Ef Íslendingar koma ekki samgöngumálum í þannig horf að fólkið á landsbyggðinni geti búið við, þá mun aldrei enda taka sú byggðaröskun sem uppi hefur verið á undanförnum árum.

Mér finnst að líka sé ástæða til að ræða þetta mál út frá heiðarleika stjórnmálamanna vegna þess að stjórnmálamenn hafa á undanförnum árum gengið fram með hin stóru loforð um samgöngubætur sem jafnóðum hafa verið tekin til baka, hægt á þeim eða hafa jafnvel verið skorin niður, eins og hér hefur verið lýst í dag.

Ekki er mikil virðing borin fyrir fólkinu á þeim landsvæðum þegar svona er að málum staðið. Ég er líka á þeirri skoðun að það sé ákaflega óskynsamlegt að ganga ekki fram og koma á betri vegasamgöngum en raun ber vitni. Ég held að sú fjárfesting sé gríðarlega mikils virði. Hún tryggi að menn nýti landið, nýti möguleikana sem landið okkar býður upp á, ef þarna er vel að málum staðið og að sama skapi komi í veg fyrir þá nýtingu og hafi af okkur möguleika landsins ef ekki er vel að málum staðið.

Ég ætla ekki að hafa orð mín miklu lengri um þetta. Ég sé ástæðu til að gera þessar athugasemdir og benda á að meira að segja þessi tillaga er ótrúverðug. Það er t.d. ekki líklegt að þeir fjármunir sem verið er að ýta fram á árið 2008 vegna Sundabrautar nýtist. Ég tel ástæðu til að hæstv. ráðherra útskýri það, á hverju hann byggir þá tillögu sem þar liggur fyrir. Á hvaða framkvæmdaáætlun það er byggt að hægt sé að nýta 3,9 milljarða á árinu 2008 úr því að ekki er hægt að nýta nema 100 millj. á árinu 2007.

Þetta er það sem ég vildi segja, hæstv. forseti, um málið. Ég vonast til þess að hæstv. samgönguráðherra útskýri þetta betur og ég endurtek, ég geri kröfu um að gerð verði grein fyrir hvernig á að ráðstafa þessum hálfa milljarði sem er fluttur núna af árinu 2007 til ársins 2006 vegna fjarskiptanna. Og líka hvernig eigi að sjá til þess að það sé öruggt að hægt sé að standa við verklok hvað varðar veginn um Arnkötludal.