133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[16:21]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla nú ekki að blanda mér í 1. umr. um þennan meinta tilgangslausa ásetning hæstv. fjármálaráðherra. En ég legg áherslu á að það er mikilvægt að þetta frumvarp verði samþykkt til að fjárlögin standist. Ég gleðst enn fremur yfir þessari skattalækkun sem er upp á 10,5 milljarða á ári.

En ég vil benda á að hér er verið að ræða frumvarp fram í tímann sem er óvenjulegt og þess vegna er ekkert skrýtið þegar menn vilja svo gera skattlagningu veitingahúsanna samræmda, 7%, að einhverjar skekkjur komi fram. Ég felst alveg á það að skoða málið í hv. efnahags- og viðskiptanefnd hvað þetta varðar.

En mig langaði til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra um áhrif þessa frumvarps á verðlag og hvort menn hafi nýlega endurreiknað það, því þetta mun jú lækka t.d. verð á veitingahúsum um 14% slétt, lækkun úr 24,5% niður í 7% virðisaukaskatt, mun lækka alla matvöru á veitingahúsum um 14%.