133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[16:30]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Fjármálaráðherra sagði áðan að allir vildu Lilju kveðið hafa. Það er rétt en það er náttúrlega bara einn höfundur. Það er ein frumgerð. Annað eru eftirlíkingar. Höfundurinn í þessu máli og frumgerðin er tvímælalaust Samfylkingarinnar og eins og hér hefur komið fram í andsvörum og umræðum í tengslum við þau var asinn svo mikill á ríkisstjórninni eftir að Samfylkingin kom fram með sitt mál í upphafi þings í haust og það þurfti að vinna svo hratt í málinu að það var í rauninni ekki tilbúið og ekki tækt inn á þingið.

Fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins kemur núna inn í þingið eftir 16 ár í ríkisstjórn — Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með fjármálaráðuneytið í 16 ár — en hann kemur í þingið viku fyrir jólaleyfi þingsins, leitar eftir því að fá tekið upp viðamikið frumvarp um virðisauka, vörugjöld og gjald af áfengi og tóbaki, fá er það tekið hér upp með afbrigðum inn á dagskrá þingsins viku fyrir jólaleyfi þingsins og í þessu máli eru hvað, 12 milljarðar undir. Því er skellt hér inn með afbrigðum viku fyrir jólaleyfi. Eftir þau 16 ár sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í fjármálaráðuneytinu þarf að skella svona máli inn með afbrigðum viku fyrir jólaleyfi, fimm mánuðum fyrir kosningar.

Þetta segir náttúrlega allt sem segja þarf um það hvað mönnum brá í brún í stjórnarliðinu og ekki síst í Sjálfstæðisflokknum þegar Samfylkingin kom fram með þingsályktun sína í haust. Ég vil vekja athygli á því að þessi tillaga Samfylkingarinnar var 23. mál þingsins. Ég hef nú ekki fyrir framan mig frumvarp ríkisstjórnarinnar til þess að sjá númer hvað það mál er. En menn geta rétt ímyndað sér hvert númerið er á því því að það kom hérna með afbrigðum inn í síðustu viku. Okkar mál var 23. mál og það er ekki enn komið á dagskrá þingsins. Ég vek athygli á því að við höfum ekki enn mælt fyrir því. Nú ætla ég ekki að kenna forseta þingsins eða stjórn þingsins í sjálfu sér um það. Verið getur að það hafi verið reynt að koma því á dagskrá án þess að það hafi endilega tekist. En þetta segir okkur samt hvernig málum er háttað í þinginu, þ.e. að mál sem stjórnarandstaðan flytur á fyrstu dögum þingsins, kemur fram með, ná ekki inn á dagskrá. En svo kemur þingmál hér með afbrigðum frá fjármálaráðherra og við erum að ræða það hér, að vísu allt of seint fram komið.

Á tillögu Samfylkingarinnar til þingsályktunar og lagafrumvarpi fjármálaráðherra er talsverður munur. Bæði þessi mál fjalla um aðgerðir til að lækka matvælaverð. (Gripið fram í.) Munurinn er sá að í þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar er ekki aðeins lagt til að vörugjöld á matvæli verði felld niður heldur líka að tollar á matvælum verði felldir niður í áföngum og þar liggur einmitt stóri munurinn á okkar máli og því frumvarpi sem fjármálaráðherra mælir fyrir.

Eins og kom fram í andsvari þingmanns Samfylkingarinnar, Ágústs Ólafs Ágústssonar, þá er ekkert verið að taka á tollamálunum af hálfu ríkisstjórnarinnar. Fjármálaráðherra upplýsti að það væru svo flóknir útreikningar og flóknir samningar sem þyrfti til þess að leiða það mál til lykta að menn væru einfaldlega ekki tilbúnir með það. Það segir okkur aftur það sem hér hefur verið bent á, hvað mönnum brá í brún þegar Samfylkingin kom fram með sitt mál að þeir voru einfaldlega ekki tilbúnir með sín mál. Þeir voru ekki búnir að fara yfir útreikningana. Þeir voru ekki búnir að átta sig á því hvað þeir þyrftu að gera til þess að koma fram með heildstætt mál sem tæki á matvælaverði í gegnum vörugjöldin, í gegnum virðisaukaskattinn og í gegnum tollana eins og Samfylkingin lagði til.

Í máli Samfylkingarinnar, 23. máli á þinginu, var líka gert ráð fyrir því að teknar yrðu upp viðræður við bændur um það hvernig hægt væri að ganga frá sérstökum tímabundnum aðlögunarsamningi við þá til þess að mæta þeirri niðurfellingu tollverndar sem við lögðum til að kæmi í áföngum. Þetta er auðvitað alveg gríðarlega mikilvægt að gert sé vegna þess að ef til tollalækkana eða niðurfellingar á tollum kemur, sem er ekki gerð tillaga um í máli ríkisstjórnarinnar, þá hefur það auðvitað áhrif á íslenskan landbúnað og verður að mæta því með öðrum aðgerðum.

Samfylkingin lagði líka til í þingsályktunartillögu sinni að samkeppnis- og verðlagseftirlit á matvælamarkaðnum yrði stóraukið. Það er gríðarlega mikilvægt á sama tíma og lækkaður er virðisaukaskattur á matvælum og vörugjöldum að því sé fylgt vel eftir með virku samkeppnis- og verðlagseftirliti þannig að tryggt sé að þessar lækkanir komi neytendum í hag og að hvorki heildsalar né smásalar taki til sín stærri hlut vegna þess svigrúms sem þarna myndast. Það þarf að fylgja þessum tillögum í frumvarpinu vel eftir með virku samkeppnis- og verðlagseftirliti á matvælamarkaðnum og það gerðum við tillögu um í Samfylkingunni.

Eins og hér kom líka fram í andsvörunum er þetta ekki í fyrsta skipti núna í haust sem Samfylkingin lætur matvælaverðið til sín taka. Eiginlega má segja að Samfylkingin hafi átt upptökin að því að farið var að skoða þetta mál af einhverri alvöru þegar hún flutti tillögu sem samþykkt var á 128. löggjafarþingi um að athuga orsakir hás matvælaverðs á Íslandi. Samfylkingin flutti um þetta tillögu og fékk hana samþykkta. Forsætisráðherra fól þá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að vinna skýrslu um málið sem kom út á vordögum 2004.

Samfylkingin hefur líka flutt í tvígang frumvarp eins og fram kom í máli hv. þm. Ágúst Ólafs Ágústssonar, bæði á 130. og 131. löggjafarþingi um að lækka lægra þrep virðisaukaskatts úr 14% í 7%, en í því eru flest mikilvægustu matvæli landsmanna. Samfylkingin hefur því átt allt frumkvæði í þessu máli bæði með tillögunni um að vinna skýrslu um orsakir hás matvælaverðs og síðan með þeim tillögum sem hún hefur flutt um lækkun á virðisaukaskatti á matvælum.

Skýrslan sem ég vitnaði til áðan og unnin var af Hagfræðistofnun Háskólans sýndi svo ekki var um að villast að matarverð á Íslandi var með því hæsta í heiminum og 50% hærra en að meðaltali hjá nágrannaþjóðum innan ESB. Þetta hefur líka verið staðfest í öðrum skýrslum sem gerðar hafa verið. Ég vil vekja athygli á því að þrjár skýrslur hafa verið unnar um þetta mál og jafnmargar nefndir skipaðar til að skoða orsakir hás matvælaverðs á Íslandi og þær hafa í rauninni allar komist að sömu niðurstöðu í þeim efnum. Niðurstaða þessara úttekta allra hefur verið að aðalorsök hins geipiháa matvælaverðs á Íslandi séu innflutningstollar. Í þessum skýrslum kemur einnig fram að mismunandi ríkidæmi þjóða útskýri ekki þennan mikla verðmun enda eru margar af samkeppnisþjóðunum ríkari en Íslendingar og með meiri kaupmátt en mun lægra matvælaverð. Þetta hefur verið meginniðurstaðan og það er í rauninni ekki verið að takast á við þessa meginniðurstöðu í því frumvarpi fjármálaráðherra sem hér liggur fyrir heldur aðeins á litlum þætti málsins, sem er vörugjaldið og vissulega er mikils um vert að taka á því og virðisaukaskattinum. Eftir standa tollamálin óleyst og með öllu er óljóst hvernig ríkisstjórnin ætlar að takast á við það mál, bæði hvernig hún vill standa að því að lækka innflutningstollana og eins hvernig hún ætlar að standa að málum gagnvart landbúnaðinum sem auðvitað verður fyrir ákveðnum búsifjum ef ekkert er að gert þegar tollar eru lækkaðir á innfluttum landbúnaðarafurðum.

Þegar það hefur verið nefnt í umræðu um matvælaverð að matarkarfan hér sé 50% dýrari en að meðaltali í Evrópu hafa menn talað um að það væri villandi samanburður og að ekki sé rétt að taka meðaltal allra Evrópuríkja og bera saman við Ísland. Það má auðvitað til sanns vegar færa. Það á almennt við í þeim samanburði sem hér er ástundaður gjarnan á Alþingi þegar Evrópa á í hlut. Hins vegar hefur það líka komið fram — svo við tökum bara einstök lönd — þá hefur það komið fram meðal annars hjá verðlagseftirliti ASÍ að verð á matarkörfu með algengum undirstöðumatvælum skeri sig algjörlega úr í Reykjavík og Ósló þegar Norðurlöndin eru tekin saman og borið saman matvöruverð á Norðurlöndum. Í Reykjavík og Ósló er matvælaverð um 48–54% hærra en í Kaupmannahöfn og Helsinki og 85–90% hærra en í Stokkhólmi, svo bara Norðurlöndin séu tekin og sá samanburður notaður. Í fjölmörgum könnunum Neytendasamtakanna hefur þetta sama komið upp og þær sýna allt að 69% verðmun á matarkörfu í Reykjavík eða á Íslandi og á Norðurlöndunum.

Virðulegur forseti. Eins og ég sagði skipta tollar verulegu máli í því sambandi og ástæða er til að líta til þess í sambandi við tollana að í sjálfu sér hefur lækkun á tollum ekki mikla tekjurýrnun í för með sér fyrir ríkissjóð. Það kemur fram meðal annars í skýrslu formanns matvælaverðsnefndar að helmingslækkun á tollum mundi minnka tekjur ríkissjóðs um 145 millj. kr. en vegna veltuáhrifa kæmu um 900 millj. kr. aftur inn í ríkiskassann. Tollar eru því tvímælalaust leið sem verður að skoða af alvöru. Ríkisstjórnin verður að gera grein fyrir því fyrr en síðar hvernig hún ætlar að takast á við þau mál því að hún boðaði það þegar hún kom fram með þessar tillögur um lækkun á virðisaukaskatti og vörugjöldum að fylgja mundu með tillögur um tollalækkanir. En þær hafa enn ekki litið dagsins ljós.

Virðulegur forseti. Ég ætla í sjálfu sér ekki að fara yfir einstök efnisatriði í þessu máli. Það er nú til 1. umr. og fer í efnahags- og viðskiptanefnd og verður skoðað þar. Ég vil engu að síður geta þess hér og mér finnst að það verði að koma inn í umræðuna að í þessu frumvarpi er verið að leggja til, að ég held ákvæði til bráðabirgða — nú finn ég þetta ekki hér fyrir framan mig, virðulegur forseti — að það verði áfram veitt heimild til þess að veita þeim sem reka hópferðabifreiðar tvo þriðju hluta virðisaukaskatts, þ.e. að þeir fái tvo þriðju hluta virðisaukaskatts vegna kaupa á nýjum vögnum til hópferðaaksturs endurgreiddan samkvæmt þessu frumvarpi, að það ákvæði haldi áfram sem verið hefur inni í lögum að tveir þriðju hlutar virðisaukaskatts af nýjum hópferðabifreiðum verði endurgreiddur.

Þetta ákvæði nær ekki til almenningsvagna og ég hlýt, virðulegur forseti, að leggja á það áherslu að það verði skoðað í efnahags- og viðskiptanefnd að kaupendur almenningsvagna fái líka þessa endurgreiðslu á virðisaukaskatti á sama hátt og kaupendur hópferðabifreiða. Þessi leiðrétting á auðvitað að verða afturvirk til ársins 2001 þegar þetta ákvæði kom inn í lög um að kaupendur hópferðabifreiða skyldu fá virðisaukaskattinn endurgreiddan. Það er í raun mjög sérkennilegt að ríkisvaldið skuli þannig mismuna aðilum og annars vegar veita þeim sem kaupa hópferðabifreiðar afsláttinn eða endurgreiðsluna en ekki þeim sem reka almenningsvagna á höfuðborgarsvæðinu eða í öðrum sveitarfélögum landsins. Það er stefna þessarar ríkisstjórnar, hélt ég, að styðja við bakið á almenningssamgöngum og draga úr útblástursmengun vegna bifreiða. Þá skiptir auðvitað verulegu máli að staðið sé vel við bakið á þeim sem reka almenningssamgöngur, og það gera sveitarfélögin með ærnum tilkostnaði fyrir þau. Liður í því að styðja við bakið á þeim er að fella niður þennan virðisaukaskatt af almenningsvögnum rétt eins og hópferðabifreiðum og ég legg áherslu á það, virðulegur forseti, að það verði skoðað sérstaklega í efnahags- og viðskiptanefnd hvort ekki sé hægt að koma til móts við þá sem reka almenningsvagna. Það liggur fyrir og þingmenn hafa fengið ályktun frá ársfundi Strætó bs. frá 29. nóvember síðastliðnum þar sem ársfundur skorar á ríkisvaldið að leggja sitt af mörkum til að bæta rekstrarskilyrði almenningssamgangna og minnka þær álögur sem lagðar eru á starfsemina. Þar er annars vegar lögð áhersla á endurgreiðsluna á virðisaukaskattinum og svo að leiðréttur verði sá kostnaðarauki sem almenningssamgöngur urðu fyrir vegna brottfalls þungaskatts og upptöku olíugjalds.

Virðulegur forseti. Þetta vil ég að komi fram hér og verði skoðað í efnahags- og viðskiptanefnd.