133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[17:24]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að undirstrika það sem ég held að sé aðalatriðið í þessu máli, að verðlagning á vörunni ræðst af kaupgetu almennings. Hún ræðst ekki af uppsöfnuðum framleiðslukostnaði, við erum löngu komin út úr því hagkerfi að verðlagning á vöru sé ákvörðuð með því að leggja saman einstaka kostnaðarliði og setja á einhverja hæfilega þóknun. Við búum í markaðshagkerfi þar sem verðlagning ákvarðast af kaupgetunni og engu öðru þannig að þegar við lækkum skattlagningu ríkissjóðs er ekkert víst að sú lækkun skili sér í lægra verði, sérstaklega ef kaupmáttur almennings lækkar ekki, heldur vex miklu fremur. Hættan á því að þetta týnist á leiðinni er veruleg og Alþingi verður að skoða málið í því ljósi að tryggja að skattalækkunin skili sér þangað sem hún á að fara.