133. löggjafarþing — 39. fundur,  4. des. 2006.

vörugjald, virðisaukaskattur og gjald af áfengi og tóbaki.

416. mál
[17:38]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Menn hafa komið víða við í þessari umræðu. Ég ætla að hefja mitt mál á að koma inn á ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, sem var ágæt. Hann kaus að fara aftur í tímann og rifja upp skattbreytingu frá því fyrir 19 árum og hugmyndir sem þá komu upp um að vera með eitt þrep til að afstýra því að göt yrðu í nýja kerfinu. Ég man líka vel eftir þeim viðbrögðum sem urðu við þeirri hugmynd þótt ég hafi ekki verið á þingi þá. Það er alltaf gott að hafa með í farteskinu reynsluna frá fyrri tíma og átta sig á því af hverju umræðan hefur orðið með tilteknum hætti, þessum en ekki hinum.

En ég minni á, af því að núna erum við m.a. að tala um virðisaukaskattslækkun, sem nýta á til að ná niður matarverði, að ég hef frá því að ég byrjaði á matarverðsumræðunni, frá ársbyrjun 2001, alltaf talað um almennar fjölþættar aðgerðir til að ná niður matarverði. Það er hollt fyrir okkur að vita af því, af því að matarverð er umtalsvert lægra í Danmörku en á Íslandi, að þar er 25% virðisaukaskattur á matvæli. Þetta snýst ekki bara um virðisaukaskattinn en það er sýnilegt og áþreifanlegt að lækka skatt, m.a. á matvæli, þegar maður vill ná niður verði.

Það er líka full ástæða til að benda á að í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi er virðisaukaskattur 12–14% og hefur verið að breytast á síðustu fjórum, fimm árum. Umtalsverð lækkun á matarverði varð bæði í Svíþjóð og Finnlandi eftir aðild að Evrópusambandinu. En matarverð í Noregi er á mjög svipuðum slóðum og á Íslandi í dag enda eiga þessar þjóðir margt sameiginlegt, bæði í landbúnaðarkerfi og skattkerfi auk þess sem þær standa báðar utan við Evrópusambandið og hafa hingað til ekki beitt kröftum sínum til að grípa til heimatilbúinna aðgerða sem mundu skila sér á svipaðan hátt í matarverði og gerist þegar löndin hafa gengið til liðs við Evrópusambandið.

Þetta vildi ég nefna í upphafi, virðulegi forseti. Svo vil ég, út af því að rætt var um neikvæðan tón Samfylkingarinnar, segja að það er ekki rétt, Samfylkingin lýsti nefnilega miklum stuðningi við áform ríkisstjórnarinnar strax 9. október þegar tillögur um matarverðslækkanir komu fram og hefur lýst sig fylgjandi því sem ríkisstjórnin gerir núna. En hún hefur öll þessi ár talað fyrir almennum aðgerðum til lækkunar og telur að gera eigi meira en hér er gert. Það er ekkert óeðlilegt, þegar um svo stórt mál er að ræða, að á það sé bent og gagnrýnt að tillögurnar um breytingar skuli koma fram 9. október og síðan þurfi að afgreiða málið með afbrigðum undir mánaðamót nóvember/desember. Menn eiga ekki að vera hörundsárir vegna þess. Það á að ýta við málum og gagnrýna það þegar ekki er haldið nógu vel á spilunum.

Áðan var því haldið fram að það væri óþarfi að horfa til baka og eigna sér tillögur fram og til baka. Ég ætla ekki að eigna mér neina tillögu en ætla samt að leyfa mér að horfa til baka um um það bil sex ár og m.a. benda á veturinn 2002–2003 þegar bæði Samfylking og Sjálfstæðisflokkur settu fram hugmyndir um 7% virðisaukaskatt á matvæli sem fyrsta skref til að ná niður matvælaverði. Auðvitað gerðu allir sér grein fyrir því að það að lækka matarverð úr 14 í 7% var ekki nema brot af því sem þurfti að gera til að ná niður matarverðinu sem er mun miklu hærra á Íslandi en annars staðar.

Um það hefur einnig verið talað fyrr í umræðunni, að auðvitað á að horfa á allt vöruverð en allir sem hafa eitthvað verslað á liðnum árum vita að aðrar vörur hafa lækkað umtalsvert. Það er ekki jafnmikill ávinningur af því í dag að kaupa vörur í útlöndum og það var áður fyrr. Það er allt annað að fara í rafmagnsvöruverslanir í dag en þegar ég var að byrja að búa, svo eitthvað sé nefnt varðandi þróun vöruverðs.

Ljóst er að það er fátt sem stjórnvöld gera til breytinga og til lækkunar sem hefur jafnvíðtæk áhrif og áhrif til góðs fyrir alla eins og að lækka matarverðið og það höfum við bent á. Og af því að ég sagði áðan að ég mundi líta sex ár til baka var það árið 2001 sem skriflegt svar ráðherra Hagstofunnar sýndi að þróun matvælavísitölu á Norðurlöndunum samanborið við Evrópusambandið hafði verið afar óhagstæð í öllum mælikvarða varðandi Ísland frá 1990–2001, mjög óhagstæð. Auðvitað skiptir það máli líka að reyna að átta sig á hvernig matarverðið var 1990 og kom í ljós eftir að farið var að rannsaka það að matarverð hafði líka þá verið hærra á Íslandi en í fyrrgreindum löndum. Þegar þróunin var skoðuð hafði matarverð verið að aukast og samanburður var æ óhagstæðari fyrir Ísland öll þessi ár, allan þennan áratug. Það var þess vegna og vegna þeirra upplýsinga sem undirrituð lagði fram sem fyrsta mál á haustþingi árið 2002 tillögu um að gera úttekt á orsökum matvælaverðsins. Búið var að sýna þá í samanburði hver munurinn var og einnig að kanna hve ólík tenging landanna á Evrópusambandið hefði þarna áhrif og farið var í að láta vinna skýrsluna á grundvelli þess að fyrir lá að allt að því 70% hærra matarverð væri hér en í Evrópu.

Ég verð að segja af því að ég er búin að vera bráðum 18 ár á þingi, að ég man ekki eftir að eitt þingmannamál hafi vakið viðlíka umræðu í samfélaginu og þessi tillaga gerði haustið 2002. Mjög fljótlega fór sú umræða að lifa sínu sjálfstæða lífi og hætti að vera á nokkurn hátt tengd við það að hún hefði hafist á Alþingi Íslendinga. Sú umræða stóð vikum saman í ræðu og riti í samfélaginu. Síðan þá hefur það verið þannig að með því að umræðunni hefur verið haldið vakandi á Alþingi hefur fólk verið mjög meðvitað um matarverðið og að hægt sé að breyta því.

Af því að verið er að tala um virðisaukaskattinn þá var það strax haustið 2003 fyrsta þingmál Samfylkingarinnar og 1. flutningsmaður var formaður flokksins, Össur Skarphéðinsson. Við lögðum til lækkun virðisaukaskatts úr 14% í 7%. Við bentum ítrekað á það í umræðu um matarverð að lækkun matarverðs hefði víðtækari áhrif en bara það að lækka útgjöld fjölskyldunnar umtalsvert eftir því hversu víðtækar aðgerðirnar væru sem gripið væri til vegna þess að matarverðið hefði áhrif á mælingu verðbólgu og neysluvísitöluna. Með því að lækka matarverðið lækkaði maður í rauninni verðbólguna eða mælieininguna. Svo núna þegar við erum búin að hlusta á umræðuna um fjárlög, hefur það komið aftur og aftur fram sem stóra málið í málflutningi þingmanna stjórnarflokkanna hve það sé stórkostlegt að af því að grípa eigi til þeirra aðgerða sem nú er verið að mæla fyrir, muni verðbólgan ekki mælast 4,5%, eins og áður hefði verið búið að kynna, heldur mundi hún bara verða 3% vegna áhrifa af breytingunum á því máli sem verið er að flytja hér.

Þetta var ekkert nýtt fyrir okkur. Þetta var það sem við sögðum þegar tillögur komu fram um að lækka tekjuskatt. Við lögðum það til að í stað þess að fara í lækkun tekjuskatts yrði einmitt farið í matarverðið af því að það hefði svo víðtæk áhrif, af því að það hefði áhrif á fjölskyldurnar, af því að það hefði áhrif fyrir þá sem hefðu allra lægstu tekjurnar sem tekjuskattslækkun hefði ekki og af því að það hefði áhrif á verðbólguna og þar með verðtryggingarmælingu allra lána fjölskyldnanna. Það munar um minna hjá fólki sem er kannski með 10 millj. kr. lán á herðunum, ungar fjölskyldur, að verðbólga mælist 3% en ekki 4,5%. Það munar um minna. En við töluðum fyrir daufum eyrum og á auðvitað að minna á það að við erum í þessi ár búin að tala fyrir daufum eyrum. Ríkisstjórnin hefur daufheyrst við þeim ábendingum okkar. Henni lá svo á að koma á stefnumörkun sinni um lækkun tekjuskatts, að það er ekki fyrr en hún er í raun hrakin til þess á þessu ári, að ákveðið er að fara í lækkun matvælaverðs.

Af hverju segi ég að ríkisstjórnin hafi verið hrakin til þess? Jú, þegar ég nefndi að við hefðum flutt hérna sem fyrsta þingmál árið 2002 tillögu um að leita orsaka matarverðs, var Hagfræðistofnun Háskóla Íslands falið það verkefni og stofnunin vann það verk og skilaði ítarlegri skýrslu sem fjallaði algerlega um hvað væri hægt að gera og hvað orsakaði matarverðið alveg upp í það að strangara verðlagseftirlit og samkeppniseftirlit þyrfti.

Veturinn eftir bar sú sem hér stendur fram fyrirspurn til allra ráðuneytanna sem tengdust ábendingum sem komu fram í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Og þá skyldi maður halda að stjórnarflokkar sem væru með einhverjar hugmyndir um að taka á matarverðinu væru farnir að skoða þær hugmyndir og ábendingar sem þar komu fram í ráðuneytum sínum, sem voru ábendingar allt frá málefnum fjármálaráðuneytisins upp í landbúnaðarráðuneyti, viðskiptaráðuneyti o.s.frv. Öll svörin sem bárust síðla vetrar sýndu að skýrslan hafði ekki verið opnuð. Hvergi var verið að skoða nokkurn skapaðan hlut, hvergi var verið að gera úttektir, hvergi verið að vinna með ábendingarnar. Það eina sem var svarað í landbúnaðarráðuneytinu var að í erlendum alþjóðlegum samningum væri verið að skoða tollamál og að öðru leyti væri ekki verið að skoða neitt slíkt hér heima og átti það við um ráðuneytin.

Ég hef alltaf sé það svo að það hafi tengst örvæntingu Framsóknarflokksins yfir fylgishruni að þáverandi forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, ákvað skyndilega að skoða þyrfti matarverðið. Hann kom með það í áramótaræðunni sjálfri um síðustu áramót, að ekki væri lengur hægt að láta það viðgangast að fjölskyldur á Íslandi þyrftu að borga miklu hærra verð fyrir matinn en fjölskyldur annars staðar og heldur væri ekki hægt að una við það að málefni fjölskyldunnar væru ekki sett í öndvegi, svo hann ákvað að setja nefndir í bæði málin, í málefni fjölskyldunnar og líðan hennar og nefnd í matarverðið, matarverðið þar sem allt lá fyrir í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Skemmst er frá því að segja að um leið og þeir sem valdir voru til að fara yfir málin fóru að skoða hvað þyrfti að gera og hvað væri hægt að gera og settu fram tillögu, sem hefði reyndar ekki komið fram ef formaður matvælanefndarinnar hefði ekki haft þann kjark til að bera, þegar hann náði ekki samstöðu í nefndinni að skila áliti, að vera einn og sjálfur á þeim tillögum sem voru settar fram, þá hefði sennilega ekkert gerst. Ef hann hefði ekki haft þann kjark til að bera að senda frá sér tillögur og afgreiðslu frá nefndinni þó hún væri ósamstiga, þá hefði sennilega ekkert gerst. Þess vegna lít ég eiginlega svo á að formaður matvælanefndarinnar hafi verið sá maður sem kannski spilar stærst hlutverk núna í því að á þessum kosningavetri drífa menn sig í að setja fram tillögur til breytinga sem eiga að koma til framkvæmda korteri fyrir kosningar. En það vill svo til að sá flokkur sem væntanlega mun verða í aðalhlutverki í næstu ríkisstjórn er sammála þeim aðgerðum og mun byggja áfram við þessar tillögur og mun halda áfram með það mál og fylgja því eftir sem ekki er að finna í frumvarpi fjármálaráðherra en er að finna í tillögum okkar.

Við getum alveg skilið að mönnum hafi fundist það hljóma miklu betur að segja að menn felli niður vörugjöld en sleppi honum á sykri og sætindum. Við í Samfylkingunni erum algerlega sammála því að mjög mikilvægt er að reyna að vera með þann boðskap til þjóðarinnar að dregið sé úr neyslu á sykri og sætindum. En það kom líka fram og er alger staðreynd og mikil áhersla er lögð á það í skýrslu matvælanefndar, að breytingar á vörugjöldunum missa algerlega marks ef byrjað er að toga út úr þeim sætindin vegna þess að það er eiginlega sykur í öllu sem er að finna í eldhúsinu okkar. Þess vegna er það þannig að lækkun vörugjalda, sem var lögð mikil áhersla á í skýrslunni, verður talsvert marklaus ef taka á sykurinn út úr. Þess vegna var það að þrátt fyrir að við í Samfylkingunni deilum því sjónarmiði stjórnarflokkanna að mikilvægt sé að draga úr sykurneyslu mundi vera skynsamlegra með tilliti til vinnubragða að fella öll vörugjöld á matvæli niður. Það er líka athyglisvert og full ástæða til að benda á að fram hefur komið að t.d. gosdrykkir, sem eru sennilega það sem hefur verst áhrif á krakkana okkar og ekki síst unglingana þegar um er að ræða neyslu sykurs og óhollustu, munu líklega ekki falla undir þá tillögu fjármálaráðherra. Ef það er rétt er það mjög alvarlegt mál og full ástæða til að efnahags- og viðskiptanefnd skoði það, því ef það er einhver ein matvælategund sem hefur meiri áhrif en önnur á sykurneyslu unglinga þá er það gosdrykkjaneysla því hún er gífurleg.

Við höfum lagt fram sömu tillögu og stjórnarflokkarnir um að virðisaukaskattur verði samræmdur og verði 7%, en við höfum líka lagt til að tollar á matvæli verði felldir niður í áföngum. Við höfum lagt til að gerður verði tímabundinn aðlögunarsamningur þegar tekið er fyrsta skref á tollalækkun og síðan verði fyrirkomulagi stuðnings við landbúnað breytt. Auðvitað tekur það sinn tíma en mjög mikilvægt er að sú breyting verði unnin í samvinnu við bændur. Ljóst er að bændur eru hræddir við umræðuna um lækkað matarverð og þeir eru hræddir við allar breytingar sem snúa að þeim. Þeir eru hræddir við að eitthvað verði tekið í burtu sem þeir þekkja og ekkert annað komi í staðinn. En við vitum það öll, við erum öll með bændur í fjölskyldum okkar og þekkjum vel til, en við vitum líka að í sumum tilfellum skilar sáralítill hluti af verðinu sér til bóndans. Því er mjög mikilvægt að þora að endurskoða slíka hluti og fara í tollabreytingar sem kosta ríkissjóð ekki mikið en vigta þungt og fara jafnframt í nýjar og öðruvísi aðgerðir til stuðnings þeim sem lifa í sveitum.

Að lokum þetta, virðulegi forseti. Það sem er gott við þá tillögu sem hér er, er að við erum að gera það sjálf sem gerist meira eða minna við aðild t.d. þeirra landa sem gerast aðilar að Evrópusambandinu. Við erum sjálf að skoða hvernig við getum gert hlutina. Hverju getum við breytt til að það verði til hagsbóta fyrir fólkið í landinu okkar? Þetta er eitt skrefið í því. Þó að okkur í Samfylkingunni finnist skrefið ekki nógu stórt munum við styðja þetta og vinna að heilindum í málinu í efnahags- og viðskiptanefnd.