133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:30]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Allt er þetta spurning um túlkun orða. Ég sagði í ræðu minni að hv. þingmaður væri brott rekinn úr Samfylkingunni. Ég held að hann hafi kosið að skrifa uppsagnarbréfið sjálfur. En það er eins og við önnur starfslok að mönnum gefst kostur á því nema að hv. þingmaður hafi vitað það á undan öðrum hv. þingmönnum Samfylkingarinnar að kjósendur treystu honum ekki, að kjósendur treystu ekki þingmönnum Samfylkingarinnar, að mati formanns flokksins, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.

Það eru sérkennileg skilaboð, eins og ég hef áður getið um, að formaður flokks skuli koma fram með þeim hætti gagnvart þingmönnum sínum enda sést að hv. þm. Einar Már Sigurðarson, sem situr hér í salnum, er hinn beygðasti og nánast kominn undir borð eftir ræðu formanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Það verður ekki hátt risið á hv. þingmanni þegar hann fer að koma upp í ræðustól og reyna að skýra út fyrir þingi og þjóð hvernig á að vera hægt að treysta honum fyrir ríkisfjármálunum ef formaður flokksins, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, lýsir því yfir að kjósendur hafi ekki traust á honum frekar en öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar.