133. löggjafarþing — 40. fundur,  5. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:36]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það hefur á margan hátt verið fróðlegt að fylgjast með 3. umr. um fjárlög fyrir árið 2007 þótt margt hafi áður gengið á líkt því sem nú er verður þó að segja að hinn sérstaki ræðustíll og málflutningur ungliðadeildar Framsóknarflokksins hafi sett svip á umræðuna. Það er greinilega komin gífurleg samkeppni á milli hv. þingmanna Guðjóns Ólafs Jónssonar og Birkis J. Jónssonar um hvor tali meira og hvor geti þakkað sér fleiri erindi sem hafa notið velvildar meiri hluta fjárlaganefndar.

Það er t.d. alveg ljóst, taki maður bókstaflega ræður þeirra hv. þingmanna, að Sjálfstæðisflokkurinn er áhrifalaus flokkur hvað varðar fjárlög og að mér heyrðist á stundum í ræðum hv. þingmanna virtist Sjálfstæðisflokkurinn varla hluti af ríkisstjórninni lengur. (GÓJ: Ertu ekki feginn?) Málið snýst ekki um hvar feginleikinn liggur í þessu sambandi. Ég er eingöngu að velta fyrir mér innihaldinu í ræðum hv. þingmanna. Ef menn tækju mark á því sem þar hefur verið sagt mundu menn draga þessa ályktun. En þetta eru auðvitað eðlileg varnarviðbrögð manna sem verið hafa í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur auðvitað ráðið för og kengbeygt Framsóknarflokkinn trekk í trekk og virðist ekkert lát ætla að verða á því. Við megum búast við því að áfram verði haldið á þeirri leið.

Ég verð að hryggja hv. þingmenn með því að segja að þeir hafa ekki náð að setja nein met í þessari yfirferð sinni yfir fjárlögin. Við sem höfum verið örfáum árum lengur á þingi munum eftir því að annar fyrrverandi hv. þingmaður fór mun lengra í yfirferð um tillögur meiri hluta fjárlaganefndar og náði að koma við á fleiri stöðum á landinu en þeir samanlagt náðu, þótt ég tæki fyrir síðustu 3–4 ræður þeirra. Hv. þingmenn verða því að bæta sig verulega ef þeir ætla að komast á spjöld sögunnar og þótt ekki væri nema að komast með tærnar þar sem viðkomandi fyrrverandi þingmaður hafði hælana. Þar þurfa þeir töluvert í að bæta.

Hins vegar verður að segja, um hinn sérkennilega ræðustíl, að hann hlýtur að vera þjálfaður í einhverjum ungliðabúðum Framsóknarflokksins. Í flestum flokkum væri þetta líklega flokkað undir skemmtiatriði en ég veit ekki hvort skemmtiatriði, svo löng sem sumar ræður hv. þingmanna hafa verið, mundu slá í gegn nema í einhverjum sérstökum hópum sérvaldra framsóknarmanna. (Gripið fram í: Þeir eru kannski einir á fundum.) Það er rétt, virðulegi forseti, hjá hv. þingmanni. Ef hv. þingmenn eru einir geta þeir fullnægt því að skemmta öllum sem viðstaddir eru, hafi þeir sérstaklega gaman af því að hlusta á sjálfan sig. Það yrði alveg sérstaklega góður árangur að því leyti. Þannig held ég að þetta hafi verið síðastliðna klukkustund. Það hlýtur að vera skýringin á þessum mikla og öfluga málflutningi sem var þó nokkuð einsleitur og ofnotkun nokkurra orða sem ég ætla ekki að hafa eftir var mjög áberandi.

En mér þótti fróðlegt þegar hv. þingmaður gekk svo langt í að benda á hvílík áhrif hann hefði orðið á afgreiðslu mála í fjárlaganefnd að hann tilgreindi sérstaklega að hv. þingmaður hefði heimsótt ákveðna stofnun og þar með hafi legið ljóst fyrir hver árangurinn varð af þeirri heimsókn. Það skipti milljónum. Það skipti milljónum fyrir viðkomandi stofnun að hv. þingmaður hafi komið þar í heimsókn. Þetta er alveg sérstakur árangur og lofsvert að hv. þingmaður upplifi stöðu sína með þessum hætti. (GÓJ: Hvaða stofnun var þetta?) Minni mitt nær, hv. þingmaður, til þess að nefna hið ágæta samfélag Reykjavíkurakademíuna í þessu sambandi. Þar kom þetta sérlega skýrt fram. En ef hv. þingmaður hefur lifað sig svo skarpt inn í ræðu sína að hann muni ekki hvað sagt var þá er eðlilegt að aðstoða hv. þingmann við að rifja það upp.

Þannig er mál með vexti, virðulegi forseti, að það er ekkert gamanmál hvernig fjallað er um fjárlög ríkisins á stundum. Ég verð því miður að segja það að hlutar úr ræðum ungliðadeildar Framsóknarflokksins eru með þeim hætti að það er eiginlega ekki við hæfi þegar við ræðum jafnmikilvæg mál og fjárlög. (GÓJ: Er við hæfi að sitja hjá?) Það sorglegt, frú forseti, þegar hv. þingmenn hafa ekki annað til málanna að leggja en að vekja athygli á því að þeir séu sérstakir áhrifamenn í einstökum fjárveitingum fyrir utan það að ráðast að þingmönnum stjórnarandstöðunnar vegna þeirrar línu sem þeir hafa ákveðið varðandi svo mikilvæga löggjöf sem fjárlögin, þ.e. að vekja athygli á ábyrgðarleysi stjórnvalda með því að sitja hjá. Nýjasta dæmið í því samhengi var þegar hæstv. fjármálaráðherra mælti loksins í gær fyrir máli um breytingar á virðisaukaskatti og ýmsu öðru sem því fylgir. Þá kom í ljós að ekki væri nóg með að málið væri algerlega á seinustu stundu. Frumvarpið tengist að sjálfsögðu fjárlögunum og ef menn legðu metnað sinn í verklagið þá væri búið að afgreiða það frumvarp áður en við færum í lokaumræðu um fjárlög næsta árs. Slík eru áhrif frumvarpsins á fjárlögin.

En það hvarflar ekki að stjórnarmeirihlutanum á þingi að bæta vinnubrögðin af þeirri einföldu ástæðu að virðing þeirra, eða réttara sagt virðingarleysi þeirra við fjárlögin, passar ekki inn í þá mynd. Þrátt fyrir að hæstv. fjármálaráðherra hafi viðurkennt það í gær að svo illa væri staðið að málum að frumvarpið væri í heild sinni a.m.k. ekki tækt til þinglegrar afgreiðslu vegna þess að í því lægju þegar fyrir ákveðnir hlutir, strax við 1. umr., sem gerðu að verkum að ekki yrði hægt að ljúka vinnu við frumvarpið á næstu dögum, þrátt fyrir að hæstv. ráðherra hafi óskað þess að að yrði afgreitt fyrir jól.

Hæstv. ráðherra kvað upp úr með að eðlilegt væri að láta hluta frumvarpsins bíða þrátt fyrir að auðvitað hafi það áhrif á fjárlögin. Það hefur að vísu ekki áhrif á niðurstöðutölur en það hefur áhrif á ýmsa liði fjárlaganna og eins og ég sagði áðan. En væri einhver metnaður og fagleg vinnubrögð hjá meiri hlutanum í fjárlagagerð og fjárlagaafgreiðslu þá mundi það að sjálfsögðu ekki hvarfla að meiri hlutanum að afgreiða fjárlögin út úr þinginu áður en frumvarpið um virðisaukaskatt og fleiri gjöld væri afgreitt. En það er ekki einu sinni til umræðu. Það hvarflar ekki að meiri hlutanum að biðjast afsökunar á vinnubrögðum sínum, eðlilega ekki. Svo samdauna eru þeir orðnir vinnubrögðunum og virðing þeirra gagnvart fjárlögunum er þannig að þetta skiptir þá engu máli. Það skiptir þá engu máli þótt það sé vitað, á morgun þegar búast má við að við afgreiðum fjárlögin, að fjárlögin augljóslega standast ekki og það verði væntanlega staðfest nokkrum dögum síðar.

Þrátt fyrir að meiri hlutinn láti yfirleitt sem þetta séu hinir glæsilegustu pappírar og gífurlega vel sé að öllu staðið þá vita þeir að sjálfsögðu, eftir alla þá yfirferð og umræðu sem átt hefur sér stað undanfarin ár, að fjárlögin eru ekki þau lög sem þau eiga að vera. Þau eru ekki unnin út frá þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að hægt sé að tryggja að þau virki sem önnur lög. Þess vegna er virðingin ekki meiri fyrir lögunum.

Það má nefna annað dæmi, að vísu ekki stórt, sem sýnir í raun líka hversu óvönduð vinnubrögðin eru. Ég man eiginlega ekki eftir jafnsérkennilegu dæmi að minnsta kosti mörg ár. Þannig var að við 2. umr. um fjárlög ársins 2007 kom meiri hluti fjárlaganefndar með tillögur um að Vatnasafn í Stykkishólmi fengi tvisvar sinnum 20 millj. kr. Það var sem sagt á tveimur fjárlagaliðum, 20 millj. kr. á hvorn lið. Einhver órói myndaðist í stjórnarmeirihlutanum og talið var að þarna væri líklega um einhver mistök að ræða og snarlega var dreift tillögu frá formanni nefndarinnar um að annar liðurinn, þ.e. 20 millj. kr. yrðu strax teknar til baka. Þannig var þetta samþykkt í lok 2. umr. af stjórnarmeirihlutanum. Nú hins vegar liggur fyrir enn ein tillagan um þetta ágæta Vatnasafn í Stykkishólmi. Nú skal bæta við 10 millj. kr. Það er því búið að vera tvisvar sinnum 20 og einu sinni mínus 20 og svo núna einu sinni plús 10. Þetta er dæmigert fyrir vinnubrögðin. Ég leyfi mér að efast um að sú tala sem nú er fundin sé út af fyrir sig nokkuð réttari en þær tölur sem hér hafa yfirleitt verið á ferðinni því að þannig virðist þetta vera æðioft að einhver tilviljun ræður því hvaða tölur enda á blaði hjá þessum stjórnarmeirihluta. Þannig er það gagnvart svona litlum liðum eins og þessum og því miður er það þannig líka gagnvart mörgum mjög stórum stofnunum. Þar virðist ekki vera lagt í þá vinnu sem nauðsynleg er til að menn átti sig raunverulega á stöðu stofnananna. Við sjáum það ár eftir ár að fjöldi stofnana og fjöldi fjárlagaliða ýmist lýkur árinu með halla, mismunandi miklum, og svo eru aðrir sem síðan hafa safnað inneignum. En það virðist vera algerlega tilviljunum háð hvenær farið er yfir þetta til að komast að því hvað valdi. Þess vegna eru fjárlög samþykkt ár eftir ár sem taka raunverulega ekkert mið af raunveruleikanum heldur eru eitthvert tilviljunarkennt fát út í loftið. Þannig er það til dæmis nú að komið var víða við í fjáraukalögunum fyrir þetta ár, til dæmis í heilbrigðisstofnunum og öldrunarstofnunum. En það hefur ekkert fylgt inn í tillögur varðandi fjárlög fyrir næsta ár. Ef það hefði verið nákvæmlega unnið í fjáraukalögunum og talin hefði verið ástæða til þess eftir skoðun sem hér var sérstaklega tilgreint að farið hefði fram með ágætu samstarfi meiri hluta fjárlaganefndar við starfsfólk í heilbrigðisráðuneytinu — og við skulum gefa okkur að þessi vinna hafi verið afskaplega fagleg og góð og niðurstaðan sem kom fram í tillögum vegna fjáraukalaganna hafi verið sú rétta — þá er auðvitað sérkennilegt að leggja í slíka vinnu og láta hana ekki fylgja inn í fjárlög næsta árs vegna þess að ef það hefði verið rétt niðurstaða sem kom fram í fjáraukalögum fyrir árið 2006 þá hlýtur sama leiðrétting á grunni í rekstri þessara stofnana að hafa átt jafnt við um fjárlög fyrir árið 2007. En þarna virðist ekkert samhengi vera á milli hjá meiri hlutanum á Alþingi. Þetta er í samræmi við það sem ég hef áður sagt um virðingarleysi ríkisstjórnarmeirihlutans gagnvart fjárlögum.

Ég tók eftir því að hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson hafði sérstakan áhuga á lokaorðum minni hluta fjárlaganefndar þar sem meðal annars er komið inn á þetta. Ég get auðvitað sleppt því að lesa þetta orð fyrir orð, virðulegur forseti, því að hv. þingmaður sá um það fyrir mig. En þar er einmitt minnst á þetta virðingarleysi gagnvart fjárlögum. Ég heyrði svo ekki betur en hv. þingmaður hefði ekkert áttað sig á því og virtist ekkert kannast við hvað þarna var verið að fjalla um.

Nú hefur hv. þingmaður ekki verið að störfum á Alþingi og tengst fjárlagavinnunni mjög lengi þannig að kannski er skiljanlegt að hv. þingmaður sé ekki enn búinn að átta sig á þessu og hafi kannski ekki einu sinni hugmyndaflug til þess. Það er eiginlega ekki hægt að ætlast til þess að hv. þingmenn á fyrstu mánuðum sínum á þingi hafi eiginlega hugmyndaflug til að gera sér ljóst hvernig ríkisstjórnarmeirihlutinn umgengst fjárreiðulög og síðan fjárlög. Því er skiljanlegt að hv. þingmaður komi alveg af fjöllum þegar um þetta er rætt því þannig eru því miður vinnubrögð ríkisstjórnarinnar gagnvart þessu. Það þarf ekki að vitna í ræður okkar stjórnarandstæðinga til að fá það staðfest vegna þess að í skýrslum Ríkisendurskoðunar ár eftir ár er á þetta sama bent. Það er algerlega með ólíkindum hve lítill árangur er. Látum vera, virðulegi forseti, að stjórnarmeirihlutinn fari ekki mikið eftir því sem við í minni hlutanum bendum á. En að Ríkisendurskoðun skuli ekki hafa nein áhrif til þess að bæta vinnubrögð meiri hlutans er mikið áhyggjuefni og nokkuð sem við þurfum að fara sérstaklega yfir, þ.e. að þessi stofnun, Ríkisendurskoðun, sem starfar á vegum Alþingis skuli í raun ekki hafa neina stöðu gagnvart framkvæmdarvaldinu. Kannski er eðlilegra að segja að þessi stofnun sem vinnur á vegum Alþingis og á að vera aðstoðarstofnun fyrir þingið til að veita framkvæmdarvaldinu aðhald hefur í raun engin áhrif á þingmeirihlutann hér til að nýta sér þetta, til að veita þetta aðhald sem er algerlega nauðsynlegt. Þetta er alveg sérstakt athugunarefni.

En þegar ákveðinn ríkisstjórnarmeirihluti er þreyttur og farinn að kröftum er ekki hægt að búast við því að neinn kraftur sé settur í að veita framkvæmdarvaldinu aðhald, enda höfum við séð að það sem menn hafa nefnt ráðherraræði er algerlega allsráðandi gagnvart fjárlagaferlinu. Hægt er að nefna mýmörg dæmi þar um. En líklega eru greinilegastar núna tilraunir einstakra ráðherra til það að brjóta niður það sem við köllum ramma ráðuneyta. Hefur það nokkrum sinnum verið gert að umræðuefni og er til viðbótar við það sem ég hef áður sagt. Þetta er afskaplega sérkennilegt. Ríkisstjórn ákveður árlega ramma fyrir hvert ráðuneyti og ráðuneytin síðan fylla út í þessa ramma fyrir fjárlagafrumvarp hvers árs. Rammarnir halda vissulega fram að framlagningu fjárlagafrumvarpsins en síðan heyra þeir sögunni til. Við höfum í fjárlaganefnd — það hefur verið rætt og sjaldan verið ágreiningur út af fyrir sig um það milli meiri hluta og minni hluta — fylgst með því hversu hugmyndarík ráðuneytin eða hæstv. ráðherrar eru við að fara á skjön við rammana sem hæstv. ráðherrar ákveða sjálfir. Ýmsum brögðum hefur verið beitt í gegnum tíðina. Oft og tíðum hefur náðst samkomulag um það milli nefndarinnar og ráðuneytanna um að að minnsta kosti sami leikur sé ekki endurtekinn mjög oft. Þannig var það til dæmis um menntamálaráðuneytið á síðasta ári, ef ég man rétt, eða þar áður. Þá hafði ákveðinni aðferð verið beitt sem rætt var sérstaklega um á milli nefndarinnar og ráðuneytisins og komust menn að niðurstöðu um að þetta yrði ekki endurtekið aftur. Þá bregður svo við nú þegar fjárlagafrumvarpið er lagt fram og síðan í framhaldi af því að beitt er algerlega nýjum aðferðum og þær aðferðir eru slíkar og gengið er svo langt að ég held að óhætt sé að fullyrða að það sé algert met. Þá kemur í ljós að meiri hlutinn í fjárlaganefndinni hafði algerlega áttað sig á því hvað þarna væri á ferðinni, þ.e. að ráðuneytið var eingöngu að víkka sinn ramma út. Besta dæmið er afskaplega sláandi. — Nú gengur í salinn hv. þm. Birkir Jón Jónsson. — Það er bara lítið dæmi af því hvað menntamálaráðuneytið gerði. Ég fór betur yfir það við 2. umr. og ætla ekki að eyða í það mjög miklum tíma. En ég vil nefna besta dæmið og það er táknrænt af því að hv. þm. Birkir Jón Jónsson er eins og þingheimur veit formaður fjárlaganefndar og líklega einn ákafasti briddsspilari þingheims. Menntamálaráðuneytið ákveður til að halda sig innan ramma gagnvart fjárlagafrumvarpinu að setja fjárupphæðina sem hefur verið við lýði til Bridgesambands Íslands áratugum saman niður í núll krónur. Það var ekki eins og verið væri að lækka sig eitthvað örlítið vegna aðhaldskrafna. Nei, það var sett í núll krónur. Ef enginn sem kom að þeirri tillögu hefur talið líkur á því að hv. þm. Birkir Jón Jónsson, hinn ákafi briddsspilari og formaður fjárlaganefndar mundi ekki kyngja þessu alveg þegjandi þá held ég að að þurfi að skipta um ansi marga í menntamálaráðuneytinu, þ.e. ef það hefði hvarflað að nokkrum manni að þetta yrði látið standa. Nei, auðvitað frú forseti, var það ekki þannig. Auðvitað var þetta meðvituð ákvörðun sem var vitað að meiri hluti fjárlaganefndar mundi lagfæra vegna þess að þetta hefði að sjálfsögðu aldrei verið látið standa. Enda kom það á daginn að meiri hlutinn leiðrétti þetta og ýmislegt fleira sem var með svipuðum hætti, þ.e. ýmis félagasamtök voru hreinlega skorin vitandi að það mundi aldrei fara alla leið. Með þessu náði menntamálaráðuneytið meti alveg örugglega á þessu kjörtímabili í þessari sérkennilegu samkeppni milli hæstvirtra ráðherra. Það verður þó að taka fram, frú forseti, að ekki taka allir hæstv. ráðherrar þátt í þessum leik. Það er alls ekki þannig.

En fram undan eru kosningar og það er augljóst að verulegur skjálfti er í stjórnarliðum. Þess vegna er sums staðar gengið svona langt vegna þess að fjölmiðlaumfjöllun er nokkuð sem sumir hæstv. ráðherrar virðast hafa býsna gaman af og telja að hún geti hjálpað til væntanlega í kosningum. Það er best að halda sig bara við menntamálaráðuneytið vegna þess að þar er þetta langmest áberandi. Í fyrsta lagi er það þetta met sem sett er í því að brjóta ramma. Við sjáum alveg tilganginn með því. Hann er ekkert launungarmál og auðvitað átta sig allir, að minnsta kosti fjárlaganefndarmenn, á því hvað þarna er á ferðinni. Það á að skrifa á næstu vikum og mánuðum undir alveg ótrúlegan fjölda samninga og sérkennilegt er að þessir samningar skuli ekki allir raunverulega vera gerðir. Þannig ætti að standa að málum. En eins og ég hef nefnt áður þá er enginn faglegur áhugi á því að sinna þessu verki eins og vera ber. Auðvitað ættu allir samningar sem koma við sögu í fjárlögum næsta árs að vera frágengnir þannig að ljóst liggi fyrir í hvað þessar fjárveitingar eiga að fara. En þannig er ekki mál með vexti. Þó að undir nokkra samninga hafi veri skrifað og gefin vilyrði fyrir öðrum, og þá yfirleitt fjölda ára fram í tímann, þ.e. langt inn í næsta kjörtímabil, þá er þessu þó aldrei alls ekki nærri lokið. Við eigum eftir að verða vitni að því að einstaka ráðherrar eiga eftir að skrifa undir mun fleiri samninga.

Ég nefndi um daginn við 3. umr. um fjáraukalög dæmi sem er nokkuð sláandi og með því sérkennilegra held ég að sé óhætt að segja þó þar sé fjallað um býsna góð mál, þ.e. 120 millj. kr. sem menntamálaráðuneytið hefur til að ganga frá menningarsamningum vítt og breitt um landið. Þetta er afskaplega þarft. Þetta er á fjáraukalögum fyrir árið 2006. Þess má þá vænta að þeir samningar verði gerðir allir núna bara, mér liggur við að segja, í gær vegna þess að það sem er samþykkt á fjáraukalögum fyrir árið 2006 á væntanlega að nýta á árinu 2006. En nú styttist óðum í áramót þannig að nú verður hver að duga sem hann best getur í þeim efnum til að ná samningum.

Frú forseti. Ég spái því að einhver bið verði á þessum samningum, eitthvað fram á næsta ár þannig að þeir sem fá samningana verði ekki búnir að gleyma því þegar á kjördaginn kemur. Þetta er því miður leikur sem verið er að leika en er ekki neinn skemmtileikur í þeirri merkingu.

Ég heyrði að hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson vitnaði í nefndarálit okkar þar sem á það er bent að hætta væri á því á kosningaári að verið væri að samþykkja ýmsar „vinsælar“ ákvarðanir. Þetta er auðvitað hluti af því að það er verið að setja þetta í slíkar umbúðir. Skynsemin er þá ekki endilega með í för, að ég tali nú ekki um að við völd situr ríkisstjórn eins og við höfum núna sem óttast augljóslega mjög úrslit kosninga (Gripið fram í: Nei.) og mun því reyna ýmislegt væntanlega til að bæta sinn hag.

Frú forseti. Það er auðvitað ánægjulegt að ekki er hægt að heyra neinn ótta í ræðum hv. þingmanna Framsóknarflokksins. Þar virðast hv. þingmenn vera algerlega vera búnir að átta sig á í hvað stefni og óttinn er augljóslega víðs fjarri. Enda reisti hver þingmaðurinn sig meir en hinn eftir því sem á leið og sífellt var gert minna úr samstarfsflokknum og hv. þingmenn sáu völd Framsóknarflokksins í hillingum. Þeir voru augljóslega alls ráðandi í ríkisstjórninni.

Það var sérlega skemmtilegur kafli í ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, þegar endurtekið var nokkrum sinnum að hér væri sko ekki um hægri stjórn að ræða. Það væri eitthvað allt annað en hægri stjórn sem hér sæti. Hv. þingmaður var augljóslega að reyna að sannfæra að minnsta kosti sjálfan sig í þeim efnum, en um leið auðvitað að segja við samstarfsflokkinn að hann hefði nú engin áhrif á stjórnarstefnuna. Það væri Framsóknarflokkurinn sem hér réði öllu.

En þetta er auðvitað eins og ég hef áður nefnt, dæmi um að Framsóknarflokkurinn er að reyna að láta sér líða örlítið betur í þeirri stöðu að sitja í ríkisstjórn sem hefur aukið ójöfnuð í samfélaginu og hefur auðvitað keyrt hægri leiðina af miklum krafti. Það er eðlilegt að ungliðadeildin í Framsóknarflokknum, sem vonandi ætlar sér einhverja framtíð í stjórnmálum, vilji ekki lifa við þetta og sé byrjuð að reyna að sannfæra sjálfa sig um að raunveruleikinn sé einhver allt annar en hann er. Það er auðvitað fyrsta skrefið að sannfæra sjálfan sig til þess að eiga einhverja möguleika í að sannfæra aðra.

Það má auðvitað búast við því að þennan söng eigum við eftir að heyra til vors og vonandi að þá verði annar málflutningur allsráðandi því það er nú skemmtilegra í málflutningi stjórnmálamanna — vegna þess að við viljum nú öll, held ég, veg stjórnmálamanna sem mestan — þegar menn reyna að halda sig við raunveruleikann og sannleikurinn er hafður með í för og vonandi sem mest ráðandi í málflutningi. En ekki að menn séu eingöngu í einhverjum draumórum eða því að snúa öllu á hvolf, eins og hv. þingmaður gerði ítrekað þegar hann reyndi að sannfæra sjálfan sig um að sú ríkisstjórn sem nú sæti væri ekki hægri stjórn.

Það væri auðvitað að hafa langt mál um það til að sýna fram á að svo sannarlega hefur árangur ríkisstjórnarinnar verið mestur í því að koma fram hægri sjónarmiðum, auka ójöfnuð jafnt og þétt. Auka skattheimtu af þeim sem minnsta hafa en létta henni af hinum. Það er auðvitað besta dæmið um þá hægri stefnu sem hér hefur verið rekin. Það er alveg sama hvað hv. þingmenn Framsóknarflokksins endurtaka það oft að eitthvað annað sé að gerast. Þetta er auðvitað raunveruleikinn sem fólkið þekkir.

Hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson nefndi ýmis dæmi sem hann þóttist vera furðu lostinn yfir að stjórnarandstaðan hefði ekki treyst sér til, eins og hv. þingmaður orðaði, að styðja. Það er auðvitað hægt að gera tilraun til þess að fara yfir það, þó að ég efist um að það beri nokkurn árangur, að að sjálfsögðu leggur ríkisstjórnarmeirihlutinn fjárlagafrumvarpið fram á sínum forsendum. Öll vinnan í fjárlaganefndinni er á forsendum stjórnarmeirihlutans, meira og minna stýrt og keyrt af hæstv. ráðherrunum sjálfum.

Stjórnarandstaðan verður að haga málflutningi sínum þannig að valdar eru þær leiðir sem við teljum að séu líklegastar til að vekja athygli og þannig berum við okkur að. Við höfum t.d. valið það að velja núna út stór og mikil mál sem eru táknræn um það hvernig hefur verið komið fram við ákveðna hópa í landinu.

Nokkrir hv. þingmenn leyfa sér að koma hér aftur og aftur og tala um að engar tillögur hafi verið lagðar fram. Síðan eru taldir upp ýmsir málaflokkar þar sem engar tillögur höfðu verið lagðar fram í og slíkur verður æsingur hv. þingmanna að þeir nefna meira að segja þann málaflokk sem þessar stóru tillögur okkar tilheyra. En það virðist engu breyta.

En þetta er auðvitað þannig að við höfum náð saman um að setja í forgang ákveðin mál til þess að vekja sérstaka athygli á því hvernig hefur verið farið með ákveðna hópa í samfélaginu.

Það var líka athyglisvert hjá hv. þingmanni sem gerði mikið úr því að ég hefði á stundum fjallað um málefni framhaldsskóla og taldi það afar sérkennilegt þegar stjórnarmeirihlutinn, þessi bjargvættur alls, kæmi með tillögur um að 250 millj. kr. meira en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu færu til framhaldsskólanna. Til viðbótar við 250 milljónirnar eru 10 millj. kr. til kvikmyndasýninga í framhaldsskólum og hv. þingmaður talaði þar af leiðandi um 260 millj. kr.

En eins og þeim er lagið í ungliðadeild Framsóknarflokksins, þá sleppti hv. þingmaður að sjálfsögðu öllu sem á undan er gengið og hefði hann þó ekki þurft að fara langt til að átta sig á því að þarna er aðeins verið að skila til baka hluta af því sem tekið var strax þegar fjárlagafrumvarpið var lagt fram. Það er meira að segja sagt í skýringum í fjárlagafrumvarpinu sjálfu að miðað við þann nemendafjölda sem gert er ráð fyrir að verði í framhaldsskólum á næsta ári þá þurfi ákveðna fjárhæð. En vegna hagræðingarkröfu þá séu 300 millj. kr. skornar af því.

Síðan er hér tillaga, eins og kom fram, um 250 milljónir af þessum 300, og þá er það sett í þetta hefðbundna samhengi, þegar búið er að taka mikið og einhverju er skilað, þá er það í nafni góðmennskunnar. En það er aldrei talað um niðurskurðinn eða það sem af var tekið.

Þannig að þrátt fyrir að fram komi í gögnum stjórnarmeirihlutans sjálfs að til þess að framhaldsskólarnir stæðu jafnt miðað við árið í ár og við gætum þá farið yfir hvernig staðan væri gagnvart árinu í ár, til þess hefði þurft 300 milljónum meira en aðeins 250 er skilað. Hvað þá heldur ef við færum að ræða um þörfina á því að auka hlut framhaldsskólanna og bæta í. Þó að við gerðum ekki annað en að bera okkur örlítið saman, þess vegna við önnur skólastig á landinu, eða framhaldsskóla í öðrum löndum, þá kæmi í ljós að við þyrftum verulega í þetta að bæta og að gera stórfelldar breytingar. En það er augljóst mál að þetta eins og svo margt annað bíður nýrrar ríkisstjórnar.

Ný ríkisstjórn verður að byrja á því strax að loknum kosningum að endurskoða fjárlög ársins 2007. Þau eru þannig gerð að hjá því verður að sjálfsögðu ekki komist. Væntanlega verður heildaruppskurður og þó svo að það verði kannski erfitt innan ársins þá er augljóst mál að það verður að byrja á því að gera þar uppskurð og ýmsar breytingar, að ég tali nú ekki um gagnvart síðan árinu 2008, þar sem þarf verulega að taka á ýmsum hlutum og í raun og veru breyta í grundvallaratriðum öllum vinnubrögðum.

Að mínu mati er nauðsynlegt að halda sig við rammafjárlög sem slík. Það þarf að þróa það form áfram en ekki að grafa sig sífellt dýpra ofan í það far sem því miður hefur verið viðhaft frá því að rammafjárlögin voru tekin upp, það þarf að láta þeirri hugsun lokið þegar búið er að leggja fjárlagafrumvarpið fram.

Þetta þarf að gerast með þeim hætti að á vorþingi séu raunverulegu rammarnir ákveðnir, auðvitað með þeim fyrirvörum að breytingar geti orðið á til haustsins en þingið sjálft fari yfir þetta og ákveði og þar sé raunverulega tekist á um hvernig skipt sé á milli málaflokka. Og síðan sé lagt fram fjárlagafrumvarp þar sem römmunum er útskipt og þá fari fagnefndir undir verkstjórn fjárlaganefndar nákvæmlega yfir það hvernig fjármunum er varið innan hvers ramma eða hvers málaflokks, (Gripið fram í: Ja hérna.) þannig sé ábyrgð þingsins líka meiri.

Þau vinnubrögð sem nú eru viðhöfð ná auðvitað ekki nokkurri átt, að fjárlaganefndin haldi utan um þetta allt saman, fagnefndirnar séu í einstaka safnliðum og þar sé eiginlega meginregla að tillögur nefndarinnar séu hafðar að einhverju leyti til hliðsjónar en séu allar stokkaðar meira og minna upp þegar fjárlaganefnd fer yfir hlutina. Ég tala nú ekki um t.d. gagnvart stofnunum þá hlýtur að vera eðlilegt að fagnefndirnar væru sérfræðingar í stofnunum sinna málaflokka og gætu veitt framkvæmdarvaldinu það aðhald sem nauðsynlegt er, bæði við gerð fjárlaganna og síðan í eftirlit við framkvæmd fjárlaganna því hvort tveggja er mjög mikilvægt.

En það blasir hins vegar við að aðhald um framkvæmd fjárlaga er að sjálfsögðu miklum mun erfiðara þegar svo slælega er staðið að fjárlagagerð eins og nú er gert. Kæruleysið er svo mikið að þótt menn viti að stofnanir geti t.d. ekki rekið sig á þeim fjárveitingum sem ákveðnar eru í fjárlögum þá er ekkert gert í því ár eftir ár, heldur er það bara látið lulla áfram og af og til í fjáraukalögum er slumpað inn einhverri upphæð til að gera lífið örlítið bærilegra. En það er aldrei farið yfir málið og velt fyrir sér hvaða þjónustu stofnanirnar eigi að veita, né gert ráð fyrir hvað það muni kosta og þannig séu fjárveitingar ákvarðaðar.

Nei, það er yfirleitt notast við grunn sem í flestum tilfellum er ævaforn og síðan er bara reiknað áfram út frá því en raunveruleikinn yfirleitt ekkert hafður með í för. Þetta hefur því miður einkennt þessi vinnubrögð allt of, allt of lengi, og við í stjórnarandstöðunni og einnig Ríkisendurskoðun höfum bent á það ár eftir ár, að svona eigi að sjálfsögðu ekki að standa að þessum málum.

Herra forseti. Það er auðvitað ýmislegt í fjárlagafrumvarpinu sem er illa ígrundað og má finna að. Það er rétt að nefna að nú liggja fyrir tillögur um verulegar breytingar á tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs á næsta ári. Þar er fyrst og fremst verið að tala um að fella niður vörugjald af matvælum og lækka virðisaukaskatt af slíkum vörum í 7% úr 14%, og síðan voru miklar tillögur uppi um verulegar breytingar á áfengisgjaldi vegna þess að það átti að lækka vöruskatt á áfengi úr 24,5% í 7%. Þetta átti náttúrlega að breyta ýmsu en það var augljóst að margt í þessu er afar óljóst, og við höfum haft efasemdir um ýmsa útreikninga í því sambandi.

Síðan hefur komið í ljós að ýmis samtök hafa gert athugasemdir, sérstaklega við breytingarnar á áfengisgjaldinu og virðisaukaskattinum á áfengi. Þau merku tíðindi urðu hér strax í gær við 1. umr., þegar mælt var fyrir frumvarpinu, að hæstv. fjármálaráðherra viðurkenndi að svo illa væri að málinu staðið að nauðsynlegt væri að fresta a.m.k. gildistökunni um breytinguna á virðisaukaskattinum á áfengið og breytingum á áfengisgjaldinu.

Þetta vekur hins vegar upp hugsanir um hvort nokkuð sé betur að öðrum tillögum staðið, hvort útreikningarnir á þeim séu eitthvað nákvæmari. Ég geri ráð fyrir að efnahags- og viðskiptanefnd fari nákvæmlega yfir það. Eins og ég sagði áðan er það auðvitað fyrir neðan allar hellur að bjóða þinginu upp á þau vinnubrögð að láta það frumvarp vera hér í miðri vinnslu þegar gert er ráð fyrir að afgreiða fjárlögin, vegna þess að þar er komið inn á miklar breytingar í tekjuöflun ríkissjóðs. Og ef ekki er hægt að reikna út niðurstöðuna gagnvart breytingunni á áfenginu, sem maður hefði haldið, herra forseti, að væri nú hvað einfaldast, því að maður trúir því a.m.k. að fjármálaráðuneytið hafi afskaplega góðan aðgang að öllum upplýsingum sem snerta sölu áfengis þar sem salan fer öll í gegnum ríkisstofnun — það virtist ekki vera hægt — þá veltir maður fyrir sér öllum hinum útreikningunum sem eru væntanlega ekki byggðir á eins nákvæmum tölum og maður skyldi ætla að fjármálaráðuneytið hefði gagnvart áfenginu. En hæstv. ráðherra hefur sem sagt viðurkennt að þar sé um einhver mistök að ræða og það kæmi mér ekki á óvart þó að ýmislegt fleira ætti eftir að koma í ljós varðandi það mál.

Það er náttúrlega borin von að gera ráð fyrir því að sá stjórnarmeirihluti sem nú situr hafi nokkurn áhuga á því að sýna fagleg vinnubrögð í umgengni við fjárlög og þess vegna munum við væntanlega afgreiða fjárlög fyrir árið 2007 á morgun, þrátt fyrir þá óvissu sem þarna kemur fram. Það verður bara til þess, eins og áður hefur komið fram, að ný ríkisstjórn verður að endurmeta alla stöðuna vegna þess að þarna er auðvitað gífurleg óvissa og þegar við erum að sigla inn í tíma, þar sem miklar líkur eru á að dragi úr þenslunni og þar af leiðandi gæti dregið verulega úr tekjuinnstreymi til ríkissjóðs, þá er afskaplega mikilvægt að við stjórnvölinn sé ríkisstjórn sem hefur kjark og dug til að taka ákvarðanir út frá þeim niðurstöðum sem fyrir liggja hverju sinni en ríkisstjórnin hefur sýnt það undanfarin ár að til þess hefur hún ekki kraft og dug. Hún hefur með vissu millibili fengið aðstoð aðila vinnumarkaðarins til að koma í veg fyrir að verðbólgan haldi áfram að fara úr böndunum en það gerðist samt á þessu ári að verðbólgan fór allt of hátt upp. Það hefði verið hægt að koma í veg fyrir það. Mörg aðvörunarorð voru höfð uppi um það við fjárlagagerðina í fyrra og færð rök fyrir því, ekki bara af okkur í stjórnarandstöðunni, mig minnir að nær allir aðilar sem að slíkum málum koma hafi bent á það en ríkisstjórnin ein taldi að engin hætta væri á ferðum. Almenningur ber síðan kostnaðinn af þessu og ekki síst fólk sem er verulega skuldugt þar sem verðbólgan reiknast inn í allar skuldir þess og hækkar þær sem því nemur.

Herra forseti. Ég hef nokkrum sinnum farið yfir það hve mikilvægt sé að allar upplýsingar liggi fyrir þegar fjárlög eru gerð og það verður að segjast eins og er að maður er orðinn hálfþreyttur á því að benda á sömu staðreyndirnar ár eftir ár. Það virðist enginn áhugi vera á því að færa fjárlagagerðina inn í nútímann, að nýta sér alla þá upplýsingatækni sem fyrir liggur til að reyna að ná tökum á fjárlagagerðinni og skapa grundvöll fyrir það að hægt sé að líta á fjárlögin eins og önnur lög og að eftir þeim sé farið og þau nýtt til að hafa áhrif á efnahagsmálin. Það má t.d. nefna dæmi um það hversu þessu hefur farið aftur á undanförnum árum. Við munum að á meðan Þjóðhagsstofnun var til og annaðist efnahagsspá fyrir stjórnvöld þá var alltaf gefin út endurskoðuð þjóðhagsspá fyrir 3. umr. um fjárlög. Þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður og þessi efnahagsspá var færð inn í fjármálaráðuneytið var tekin ákvörðun um að gefa ekki út endurskoðaða þjóðhagsspá fyrr en í janúar eftir að fjárlög eru samþykkt. Það kæmi mér því ekki á óvart að núna í janúar, þegar þessi endurskoðaða spá liggur fyrir, verði ýmsar forsendur fjárlaganna strax orðnar úreltar.

Það er sorglegt þegar svona skref eru stigin aftur á bak. Það hefði verið hægt að mæta þessu á þann hátt sem margoft hefur verið bent á — og er í raun og veru algjört grundvallaratriði ef áhugi hefði verið fyrir því að löggjafarvaldið sýndi framkvæmdarvaldinu eitthvert aðhald — að koma upp hagdeild á Alþingi sem hefði auðvitað átt að gerast strax og Þjóðhagsstofnun var aflögð. Víða hefur verið bætt í og nefndasviðið verið eflt á margan hátt en af einhverjum ástæðum hefur þetta ekki náðst í gegn. Við höfum verið með tillögur um það við afgreiðslu fjárlaga að ég veit ekki í hvað mörg ár en það hefur ætíð verið fellt, þrátt fyrir að í upphafi þegar frumvarpið um niðurlagningu Þjóðhagsstofnunar var rætt hafi þáverandi hæstv. forsætisráðherra talað jákvætt um það og talið það hið þarfasta mál að við þessar breytingar yrði slík starfsemi efld innan þingsins. Því miður hefur það ekki náð fram að ganga en eitt af því sem bíður nýrrar ríkisstjórnar er að breyta þessu vinnulagi öllu og það er þá hluti af því sem tekið verður fyrir.

Herra forseti. Það er ýmislegt fleira sem vakið hefur athygli, bæði í umræðunum og ýmsu sem átt hefur sér stað í samfélaginu. Það vakti t.d. alveg sérstaka athygli í byrjun nóvembermánaðar, ef ég man rétt, þegar mikið var rætt um nýhafnar hvalveiðar að varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, sem einnig er formaður Ferðamálaráðs, fór mikinn í fjölmiðlum. Og það var ekki síður athyglisvert þegar haft er í huga að varaformaður Ferðamálaráðs er hv. þm. Dagný Jónsdóttir. Stjórnarflokkarnir eiga því báðir fulltrúa og þá æðstu í Ferðamálaráði þar sem boðað var að nota ætti 300 millj. kr. í landkynningu árlega, m.a. vegna þess að mæta þyrfti áhrifum hvalveiðanna. Það var m.a. rætt um þörf á ýmsum könnunum og að afla þyrfti ýmissa gagna. Ég held að allir hafi skilið þessar fréttir á þann veg að það væri tryggt að á fjárlögum næsta árs yrði þessi upphæð tryggð. Nú sést hins vegar ekkert af þessari upphæð og enginn kannast við að hún sé á leiðinni eða hvar hún er. Ég vænti þess að hv. þm. Birkir J. Jónsson, formaður fjárlaganefndar, geti upplýst um þessa upphæð ef það er einhver misskilningur af minni hálfu að hún finnist hvergi og hafi gufuð upp einhvers staðar, ég veit ekki hvar, því að í fréttum kom m.a. fram að hæstv. samgönguráðherra hefði tekið vel í þetta og verið afskaplega ánægður með að svona ætti að standa að málum. En af einhverjum ástæðum hefur þetta horfið á leiðinni og ekkert að sjá. Ef þetta er einhver misskilningur af minni hálfu, sem ég tel mig hafa fullvissu um að er ekki, vænti ég þess að hv. þm. Birkir J. Jónsson, formaður fjárlaganefndar, leiðrétti mig ef eitthvað hefur farið fram hjá mér í þessum efnum.

Það er auðvitað afar sérkennilegt að varaformaður fjárlaganefndar skuli fara svo mikinn í fjölmiðlum varðandi slík mál og síðan sé það bara innstæðulaust. Þetta gæti, herra forseti, verið sönnunin á því sem hv. þm. Birkir J. Jónsson sagði þegar hann gaf í skyn að Sjálfstæðisflokkurinn hefði eiginlega ekkert orðið um það að segja hvernig fjárlögin væru eða tillögur meiri hluta nefndarinnar sem fram kæmu, Framsóknarflokkurinn sæi bara algjörlega um þessi mál. Það skyldi þó ekki vera að varaformaður fjárlaganefndar hafi verið beygður af Framsóknarflokknum, að hann hafi nú loksins risið upp og sýnt vald sitt og stoppað af þessa peninga til Ferðamálaráðs. Einhvers staðar þarf að upplýsa hvað þarna hefur átt sér stað. Niðurstaðan er a.m.k. sú að engir fjármunir eru þarna á ferðinni, engar tillögur hafa komið fram um að verða við ósk Ferðamálaráðs, þrátt fyrir það að báðir stjórnarflokkarnir eigi þar fulltrúa og hæstv. ráðherra hafi tekið alveg sérstaklega undir að þetta væri þarft og gott mál. Og þá var auðvitað, eins og ég sagði áðan, gert ráð fyrir því að þetta skilaði sér inn í frumvarpið en þar er ekkert. Við væntum einhverra skýringa við því og að Ferðamálaráð hljóti að reka sitt erindi með meiri krafti en gert hefur verið hingað til.

Herra forseti. Það hefur, eins og ég sagði áðan, margt afar merkilegt komið fram í umræðum um fjárlög fyrir árið 2007. Ég hugsa þó að það sem slegið hafi öllu öðru við séu ummæli nokkurra þingmanna stjórnarliðsins við 2. umr. Hvað merkast er líklega þegar formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Birkir J. Jónsson, kom í andsvar, eftir að ég hafði flutt nefndarálit minni hluta nefndarinnar, og var býsna brugðið, ég veit svo sem ekki af hverju en eitthvað olli titringi hv. þingmanns sem sagði m.a., með leyfi forseta:

„… koma ekki með neinar tillögur vegna stofnana sem þurfa aukin framlög eftir viðtöl sem við í hv. fjárlaganefnd höfum átt við fjölmargar stofnanir á vegum ríkisins.“

Minni hlutinn kom ekki með neinar tillögur vegna stofnana sem þurfa aukin framlög, sagði formaður nefndarinnar. Væntanlega, og það fer ekkert á milli mála að mati formanns nefndarinnar, þurfa stofnanirnar aukin framlög, samkvæmt viðtölum og upplýsingum sem hafa borist.

Síðan gekk hv. þingmaður enn lengra og sagði, með leyfi forseta:

„… hvernig margar ríkisstofnanir geta búið við óbreyttar fjárheimildir, að teknu tilliti til þeirra tillagna sem við í meiri hlutanum höfum lagt fram.“

Herra forseti. Þetta er nú, leyfi ég mér að segja, met í málflutningi. Þarna kemur hv. þingmaður, formaður fjárlaganefndar, og segir raunverulega að meiri hlutinn hafi með markvissum hætti neitað að auka framlög til stofnana í fjárhagsvanda, neitað að tryggja þeim viðunandi rekstrargrundvöll. (Gripið fram í: Nei.) Væntanlega vegna þess að hv. þingmaður hefur ekki náð fram vilja sínum — sem hefur væntanlega verið sá að tryggja þennan rekstrargrundvöll — þá er farið að skamma stjórnarandstöðuna. Ég hefði haldið, herra forseti, að það hefði verið eðlilegra að hv. þingmaður hefði farið með þessa ræðubúta sína t.d. á þingflokksfundum ríkisstjórnarflokkanna vegna þess að þar sitja hæstv. ráðherrar sem, eins og hv. þingmaður veit jafn vel og ég, stýra því og stjórna hvernig að þessum málum er staðið, því miður. Ég trúi því hins vegar að hv. þingmaður sé, og þarna hafi það komið fram, alveg sami áhugamaðurinn og ég um að breyta þessu ferli þannig að Alþingi verði það aðhald og fái aftur þau völd sem það á að hafa varðandi fjárlagagerð. Ég trúi því að það hafi komið fram í þessum orðum hv. þingmanns, að það hafi verið löngunin, en til þess að fá útrás fyrir langanir sínar og vegna þess að hv. þingmaður hefur ekki náð fram því sem hann vildi gagnvart ríkisstjórnarflokkunum hafi útrásin þurft að fara í þennan farveg.

Það var fleira sem vakti athygli í 2. umr. um fjárlög, þar tók annar hv. stjórnarþingmaður þátt í umræðunni og saknaði þess að ekki væri nægilega rætt um aukið aðhald í ríkisfjármálum. Þó svo að rætt hefði verið um þær athugasemdir sem Ríkisendurskoðun hafði gert við framkvæmd fjárlaga, m.a. í nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar, þá saknaði þessi hv. stjórnarþingmaður þess að ekki væri nægilega rætt um það. Síðar í ræðu sinni nefndi hv. þingmaður að meðal þess sem hann saknaði úr umræðunni væri, orðrétt, með leyfi forseta:

„… tillögur að leiðum til að tryggja betra samræmi þarna á milli, bæta samræmi á milli fjárlagagerðarinnar og framkvæmdar fjárlaga og ekki síður hugmynda sem væru líklegar til að draga úr aukningu ríkisútgjalda.“

Herra forseti. Það er eins og sumir stjórnarsinnar séu að vakna upp við vondan draum og það er vonum seinna þegar við blasir að það hægir á í efnahagskerfinu og tekjustreymið inn í ríkissjóð fer minnkandi. Þá verður erfiðara að snúa útgjaldahjólinu til baka og sýna aðhald og festu í ríkisfjármálum.

Það er athyglisvert þegar hv. þingmenn úr stjórnarmeirihlutanum koma fram með slíkar ábendingar vegna þess að þetta er auðvitað það sem við höfum haldið fram til nokkurra ára. Það virðist vera að einstaka hv. þingmaður hafi tekið eftir þessu en af ýmsum ástæðum — eins og sumir hafa orðað það, þeir eru í liðinu og þurfa að fylgja því sem ákveðið er við ríkisstjórnarborðið — skortir líklega sjálfstæðið til að ganga lengra en hópurinn gerir. En það eru auðvitað smávísbendingar um það í þessum ummælum hv. þingmanna að það sé a.m.k. áhugi til að breyta þessu verklagi, breyta þessum vinnubrögðum og taka af festu á þeim málum eins og við höfum boðað nú um nokkurt skeið.

Herra forseti. Ég held að ekki sé hægt að ljúka þessari ræðu öðruvísi en að fara örlítið yfir skattamálin vegna þess að ungliðadeild Framsóknarflokksins vék enn einu sinni að þeim kafla í afrekaskrá ríkisstjórnarinnar og virtist vera að reyna að sannfæra sjálfa sig, því að ég er viss um það að hún nær ekki að sannfæra nokkurn annan. Þeir vildu meina að hér væri staðið gífurlega vel að verki, hér væru jöfnunarkerfin nýtt til fullnustu og stöðugt væri verið að bæta hag þeirra sem minna hafa. Því er auðvitað öfugt farið eins og margoft hefur verið bent á en hv. þingmenn fara ætíð sömu leiðina, þeir fara mismunandi stutt aftur í tímann til að finna sér viðmiðunartölur og leggja síðan gífurlega áherslu á það, þegar búið var að skerða hlutina nógu mikið, að nú sé verið að bæta frá því sem verst var orðið. Því er meira að segja haldið fram að lækkaðir hafi verið skattar, að því er manni skilst, á öllum landsmönnum, þrátt fyrir að beitt hafi verið ýmsum brögðum til að hækka skatta á stærstum hluta þjóðarinnar. Vitnað hefur verið til ýmissa gagna í þessu sambandi sem hv. þingmenn hafa af einhverjum ástæðum kosið að kynna sér ekki eða taka ekki tillit til. Það má nefna skýrslu frá OECD, það má nefna stórmerka rannsókn Stefáns Ólafssonar, prófessors við Háskóla Íslands, en hann hefur sýnt fram á að 90% þjóðarinnar hafi tekið á sig aukna skattbyrði, það sé eingöngu 1/10 hluti sem hefur hæstu tekjurnar sem beri nú minni skattbyrði. Þetta segir það sem segja þarf í þessum efnum. Þetta kemur líka fram þegar borin er saman tekjuskiptingin í samfélaginu og þegar borið er saman hvernig ójöfnuður hefur þróast hjá þjóðum, setjum við þar met og augljóst að við erum því miður að þróast í átt að hinu ameríska kerfi og burt frá því norræna.

Þetta eru grundvallaratriðin í stjórnmálaumræðunni nú um stundir og því má segja að það sé skiljanlegt að nokkrir hv. þingmenn Framsóknarflokksins reyni að leiða umræðuna inn á aðrar brautir. Það er ekkert skrýtið að ýmsir hv. þingmenn sem hafa tileinkað sér skoðanir Framsóknarflokksins eins og þær voru til skamms tíma, hafi áttað sig á því í seinni tíð að ríkisstjórnin er að fara þveröfuga leið. Félagshyggjan sem var ráðandi þar til skamms tíma hefur látið undan og nú er keyrð blind hægri stefna. Í ljósi þess verður að taka hin síendurteknu orð formanns fjárlaganefndar um að þetta sé ekki hægri stefna og þá eru yfirleitt tekin dæmin um það að þegar búið væri að skerða mjög mikið væri hægt að bæta örlitlu til baka, og hafa það sem viðmið og telja það til afreka að verið væri að stíga örlítil skref til baka frá því sem lengst var gengið. Gleymum því ekki að þessi skref eru ekki síst stigin í ljósi þess að kosningaár er fram undan og þá er auðveldara að reyna að trúa því, a.m.k. hann sjálfur, að verið sé að stíga einhver skref í rétta átt.

Herra forseti. Þetta er því miður blekkingarleikur sem ekki er til fyrirmyndar og á í raun og veru alls ekki heima í umræðu um fjárlög. Þar á að beita öllu öðru en blekkingum, þar eiga menn að horfa á staðreyndirnar og gera áætlanir út frá þeim en ekki einhverri óskhyggju.