133. löggjafarþing — 41. fundur,  6. des. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:03]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Heildarkostnaður samfélagsins, ríkissjóðs, vegna þeirra breytinga sem við erum að gera á kjörum eldri borgara og örorkulífeyrisþega eru á næstu fjórum árum uppsafnað 27 þús. millj. kr., 27 milljarðar kr. Stærsti hlutinn fer til ellilífeyrisþega, um 18 milljarðar, en 9 milljarðar fara til örorkulífeyrisþega. Breytingarnar fela í sér geysilega mikla kaupmáttaraukningu til þessara hópa. Bætur einhleypinga hækka um 17% 2005–2007 og þeirra sem eiga maka um 22%. Þetta er meira en kaupmáttaraukning launa.

Það er búið að standa við samkomulagið við eldri borgara og gott betur og það er verið að stórbæta kjör þessara hópa. Menn geta ekki með neinu réttmæti haldið öðru fram. Tillaga stjórnarandstöðunnar er hefðbundið yfirboð sem við sjáum (Gripið fram í.) árlega við afgreiðslu fjárlaga. Við henni segi ég nei.