133. löggjafarþing — 42. fundur,  6. des. 2006.

gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.

111. mál
[13:57]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr:

„Hvað líður gerð mislægra gatnamóta Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar í Reykjavík?“

Svar mitt er eins og hv. þingmenn þekkja og vita að fjárveitingar hafa verið inni í samgönguáætlun til verkefna á Miklubrautar- og Kringlumýrarbrautarsvæðinu.

Árin 2003 og 2004 var starfandi vinnuhópur Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar vegna hönnunar mislægra gatnamóta Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar hér í borginni. Í júní 2003 skilaði vinnuhópurinn greinargerð um mismunandi útfærslur gatnamótanna. Um var að ræða tveggja og þriggja hæða mislæg gatnamót, eins og kom fram hjá hv. þingmanni, og mælti hópurinn með þriggja hæða lausninni.

Um áramótin 2003 og 2004 var boðin út gerð frumdraga og mats á umhverfisáhrifum þriggja hæða lausnar og í framhaldinu var verkfræðistofunni Línuhönnun falið að vinna að því verkefni.

Í september 2004, svo ég reki þetta nú eftir mánuðum, var vinna við gerð frumdraga mislægra gatnamóta stöðvuð að beiðni og kröfu fulltrúa Reykjavíkurborgar. Vinnu við gerð umhverfismats var einnig hætt fljótlega og afboðaðir kynningarfundir vegna verkefnisins. Það hittist þannig á að ég hafði verið boðaður til fundar með sérfræðingum sem unnu að þeirri hönnun sem átti að kynna fyrir íbúum á íbúafundi, búið var að auglýsa fundinn en hann var afboðaður með sérstakri ákvörðun borgaryfirvalda.

Þegar vinnu var hætt við undirbúning mislægu gatnamótanna var ákveðið að fjölga akreinum gegnum gatnamótin í plani og fjölga fösum umferðarljósanna úr þremur í fjóra þannig að allir umferðarstraumar væru varðir á grænu ljósi, sem er auðvitað geysilega mikilvægt á svo umferðarþungum gatnamótum eins og þarna er um að ræða.

Framkvæmdir fóru fram vorið og sumarið 2005. Megintilgangur þeirra framkvæmda var að draga úr hættu á umferðarslysum og minnka tafir sem höfðu orðið á flæði á þessum gatnamótum miðað við það sem áður var þar sem ljósastýringin var mun ófullkomnari en er í dag.

Vinna við gerð frumdraga og mats vegna umhverfisáhrifa mislægra gatnamóta er hins vegar hafin að nýju. Það er kominn nýr tími, skulum við segja. Samkvæmt grófri tímaáætlun mun niðurstaða umhverfismats liggja fyrir á næsta ári og það er talið að verkhönnun gæti verið lokið á árinu 2008.

Það er rétt að vekja athygli á því að hérna er um að ræða mjög mikið mannvirki. Flókið mannvirki og mannvirki sem hefur heilmikil áhrif að sjálfsögðu á umhverfið. Það fer ekki á milli mála og því þarf að vanda allan undirbúning.

En það er samt ljóst að það var tekin ákvörðun um að falla frá þessu á sínum tíma og farið í fjárfestingu við ljósastýrðu gatnamótin sem er auðvitað heilmikil fjárfesting þannig að það er eðlilegt að samgönguyfirvöld geri þá kröfu að sú fjárfesting verði nýtt eins lengi og kostur er og að öflugt mat verði lagt á hvenær nauðsynlegt og eðlilegt er að hafist verði handa við framkvæmdir þannig að mislæg gatnamót geti sinnt þeim miklu umferðarstraumum sem þarna fara um. En nánari tímasetningar er ekki hægt að hafa hér í frammi en ég tel að það hafi verið mikil mistök á sínum tíma að halda ekki áfram annarri lausn en ljósastýringunni þarna.